29. júlí 2008

Það má ekki ...

Hildur hefur mótmælt pistli mínum frá því fyrr í dag. Í stað þess að búa til endalangan athugasemdahala langar mig að draga það atriði upp á dekk sem ég tel brýnast að komi fram.

Karlahópur femínistafélagsins tekur þátt í átaki gegn nauðgunum sem ber yfirskriftina að karlar segi nei við nauðgunum. Með það að markmiði gerir hópurinn sig áberandi þar sem nauðganir eru líklegar til að eiga sér stað.

Um texta Baggalúts er eftirfarandi haft eftir Hjálmari Sigmarssyni talsmanni karlahópsins á Eyjar.net:

„Endalaust er verið að senda þau skilaboð og tala um nauðganir sem hluta af verslunarmannahelginni sem þær eiga auðvitað ekki að vera. Á meðan við erum að senda frá okkur svona skilaboð þá halda nauðganir áfram að vera hluti af okkar hversdagsleika."

Þetta er kjánalega orðað þar sem enginn einstakur aðili hefur tengt nauðganir og útihátíðir meira saman en þessi sami karlahópur (a.m.k. ekki síðan hópurinn var stofnaður).

Hjálmar segir textann boða lítið annað en kvenfyrirlitningu og beinlínis lögbrot enda sé það bannað með lögum að nýta sér annarlegt ástand. „Þetta eru undarleg skilaboð í alla staði og stangast á við kynfrelsi beggja kynja. Ég sé ekki hæðnina né grínið. Er verið að gera grín að nauðgaranum? Hvað er þá svona fyndið við nauðgara eða nauðgun?," spyr Hjálmar.

Að mati Hjálmars er skrýtið að gera slíkt lag undir skjóli hæðni eða gríns. Hann segir hæðni trompkort sem sé notað of mikið og af því að þetta er grín þá á þetta að vera í lagi. Hjálmar vill hins vegar ögra þeirri hugmynd enda nái þemað grín ekki utan um nauðganir.

Hér er Hjálmar að segja berum orðum að ekki sé hægt að grínast með nauðganir enda séu þær á einhvern hátt utan þess mengis. Þetta er meira en skoðun einstaklings. Þetta er fullyrðing um eðli og gerð nauðgana og gríns. Og þetta er lygi.

Hvorki karlahópur Femínistafélagsins né nokkur annar einstaklingur getur lagt öðrum línurnar með þessum hætti. Það er ekki Hjálmars að skilgreina hvað er fyndið að öðru leyti en því að honum er fullfrjálst að segja frá því hvað honum finnst fyndið.

12 ummæli:

hildur sagði...

Ókei ég verð að segja að ég er eiginlega ekki alveg að skilja lengur. Þú varst sammála mér um að gagnrýni á list ætti fullkomlega rétt á sér, en er það rétt skilið hjá mér núna að þú ert þá að meina að gagnrýni á GÆÐI listar sé í lagi en ekki gagnrýni á INNTAK hennar?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þetta er í raun ofur einfalt.

Öll gagnrýni er í lagi nema sú sem hafnar tilverurétti fyrirbærisins x.

Femínistar gera því miður oft þá grundvallarskyssu að greina ekki á milli réttmætrar gagnrýni og þess, sem ekki er hægt að kalla annað en skipulega útrýmingu.

Sumt hefur verið skilgreint sem óæskilegt, óalandi og óferjandi (sbr. sú hugmynd hans að mixa gríni og nauðgunum) og fær ofstopafulla meðferð.

Hin rétta aðferð femínista væri að bjóða upp á betri staðalmyndir, bætt kynhlutverk etc. og láta það eiga sig að reyna í sífellu að útrýma þeim gömlu.

Þessi brenglaða taktík er ein af aðalástæðum þess að hin nýja staðalmynd femínistans er af brenglaðri mannskrípisgerð, ófullnægðri, ljótri og pirraðri kerlingu. Nokkuð sem femínistar afgreiða allt of léttvægt sem áróður og andsvar karlasamfélagsins þar sem þær hafi ráðist gegn hinni þægilegu þöggun.

Menningarleg útrýmingarstefna dó að mestu með þeim Jónasi, Stalín og Hitler. Femínistar ganga manna fremst í að endurvekja hana ásamt hægri sinnuðum trúmönnum.

Þótt tilgangurinn sé göfugur þá er hann ekki svo hafinn yfir vafa í öllum tilvikum að réttlæti fullyrðingar eins og þær að grín um nauðganir eigi ekki að vera til.

Grín um nauðganir á að vera gott.

hildur sagði...

Hafna tilverurétti? Er maður að hafna tilverurétti brandara með því að segja að þeir séu ekki fyndnir? Eða að það sem verið er að grínast með sé ekki aðhlátursefni?

Að segja slíkt fellur einfaldlega undir málfrelsið, líkt og það að grínast með nauðganir. Sorrý, þú ert ekki að sannfæra mig um ágæti þíns málstaðar.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

„Er maður að hafna tilverurétti brandara með því að segja að þeir séu ekki fyndnir?“

Nei

„Eða að það sem verið er að grínast með sé ekki aðhlátursefni?“

hildur sagði...

ósammála.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Hvað meinarðu, það felst í orðanna hljóðan?

Nafnlaus sagði...

Viljið þið ekki bara fá símanúmerið hjá hvoru öðru?

hildur sagði...

Ég meina það að hið fyrrnefnda er gagnrýni á gæði brandarans en hið síðarnefnda er gagnrýni á inntak brandarans. Hvort tveggja er leyfilegt - og hægt er að hafa mismunandi skoðanir á hvoru tveggja.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þú getur ekki gert þennan greinarmun gæði/inntak eins og þar sé um tvo aðskilda hluti að ræða.

Ef þú segðir mér að brandari sem ég er nýbúinn að segja og snýst um Englending, Íra og Araba væri fyndnari ef ég skipti Arabanum út fyrir Skota - ertu í senn að gera athugasemd við inntak og gæði.

Að telja eitthvað þess eðlis að grín eigi ekki við um það er annað hvort stílbragð, réttmæt gagnrýni eða óréttmæt gagnrýni.

Spurningin er því hvort rétt sé hjá Hjálmari að grín eigi ekki við um nauðganir.

Um það getum við verið ósammála. Við getum verið sammála um að það sé ljómandi ósmekklegt og lágkúrulegt. En smekkur eins getur ekki hindrað eitthvað í að vera aðhlátursefni öðrum.

Gagnrýni Hjálmars fer yfir þau mörk að vera gagnrýni um inntak eða gæði. Hann segir berum orðum að þetta sé óleyfilegt grín, einhver ósvinna dulbúin sem grín.

Ruglið í honum um að svona textar geri það að verkum að áfram verði nauðgað er ekki svaravert. En þetta atriði er það.

hildur sagði...

Já þannig að hann var semsagt að leggja línurnar um hvað má og hvað má ekki í bröndurum svona eins og þú leggur línurnar um hvað má og má ekki í hugmyndafræði í nýjustu færslunni þinni...

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Nákvæmlega.

Eins og ég raunar gekkst við einhversstaðar í þessum ógnarlanga kommentahala.

Mín afstaða hér og í færslunni er sú að hugmyndafræði eða gagnrýni sem unir öðrum eða verkum annarra ekki tilvist sé óverjandi nema henni sé stefnt til höfuðs bráðri hættu eða skýru ranglæti.

Sú afstaða er grundvallarafstaða sem síðan er mitt að verja með rökum.

hildur sagði...

æ rest mæ keis.