30. júlí 2008

Áfram Ólafur F!

Á Íslandi voru bæir kosnir til ábyrgðarstarfa áratugum saman en ekki fólk. Síðan hrundu sveitirnar og þá voru starfsheiti kosin.

Ástæðan er sú að einhverstaðar djúpt í genamengi þjóðarinnar býr goðorðsgenið. Gen undirgefninnar, sem alltaf hefur leitað einhvers sæmilega varanlegs til að gangast á hönd. Bæir og störf þóttu varanlegri en einstaka sálir. Á umbrotatímum reyndist það þó brigðult. Þá fóru menn að kjósa flokka. Og lentu auðvitað í sama vandanum. Það á nefnilega að kjósa fólk og meðan eitthvað annað er kosið verður alltaf til staðar vesen.

Ljóti bróðir tryggðarinnar er rógurinn. Hann er bráðgerðari en systirinn og hefur áratugum saman ekki síður beinst að einstaklingum en bæjum, störfum og flokkum. Og þótt flestir stjórnmálamenn hafi fyrir löngu fengið sigg á sálina þá hefur rógurinn alltaf haft dálítið magnað aðdráttarafl á múginn. Auk þess seytla alltaf einhverjar eiturgusur í gegn og særa.

Steingrímur Hermannson fékk á sínum tíma á sig það orð að hann væri óhæfur til starfa vegna andlegrar hrörnunar. Þegar Davíð Oddsson var að jafna sig eftir að hafa verið undirlagður af krabbameini var skipulega veist að honum og hann sagður úreltur. Gamli, góði Villi fékk Dennameðferðina og Ólafur Eff fékk Litlu-Bólu í anda Jónasar. Gamli, góði Villi fékk líka að kenna ögn á því meðali sem Jónasi þótti skemmtilegast að beita, alkohólinu. Endalausar áfengisárásir Jónasar á Árna frá Múla voru svo róttækar að þær eru næstum klassískt skemmtiefni.

Eina von Gísla Marteins um pólitíska upplyftingu á næstunni er ef honum tekst að koma Ólafi Eff frá. Seta Ólafs í stóli borgarstjóra er erfðasynd. Það var Villi sem smjattaði á forboðna ávextinum og það var Hanna Birna sem tók syndina á sig. Gísli situr og vonar að hann hafi tækifæri til að gerast reglulegur andófsmaður vegna einhvers sem Ólafur Eff gerir. Hann vonar að Hanna Birna verði seinni að taka við sér. Allt spryngi í loft upp og kjósa þurfi aftur. Hann fer þá gegn laskaðri Hönnu (eins og hann átti að gera til að byrja með) og á þá a.m.k. 50/50 séns.

Minnihlutinn í Borgarstjórn hefur fulla trú á því að hver dagur sem líður auki á vansæmd meirihlutans. Hann lætur sér því nægja að sitja að mestu á hliðarlínunni og fussa og sveija með reglulegu millibili.

Ólafur Eff hefur einn stjórnmálamanna í Borgarstjórn Reykjavíkur verið reglulega fyrirsjáanlegur og samkvæmur sjálfum sér. Þrátt fyrir það látast andstæðingar hans sífellt vera hissa. Á borð til hans er líka endalaust sópað verkefnum frá fyrri tíð sem honum er nauðugur einn sá kostur að beita sér gegn. Og þegar hann gerir það er hann tortyggður, vændur um einþykkni og ráðríki.

Ólafur Eff fékk skamman tíma til að koma tilteknum stefnumálum á framfæri. Hann stendur sig vel.

Lausn hinna aflanna í Borgarstjórn er ekki að hælbíta Ólaf í svaðið. Þau þurfa að líta í eigin barm og bjóða fram eitthvað frambærilegra en hingað til. Það er óþolandi tilhugsun að sömu sauðirnir og sigldu í þrot fyrr á kjörtímabilinu ætli að sitja Ólaf Eff af sér. Ólafur væri ekki borgarstjóri, jafn gjörsneiddur þokka og hann er, ef eitthvað almennilegt væri í boði.

Ef minnihlutinn hefði einhvern metnað þá væri hann nú að koma á framfæri hugmyndum um framtíðarskipulag í borginni. Í staðinn þegir hann og bíður eftir að meirhlutinn fyrirfari sér. Í því er ekki fólginn neinn pólitískur metnaður.

Engin ummæli: