30. júlí 2008

Femínismi - síðasta alæðishugmyndafræðin


Mannkynið er heimskt. Svo heimskt að lífið er mörgum mun erfiðara en það ætti að vera. Þetta er öllum ljóst. Þetta hafa margir viljað laga.

Hver einasti ismi sem komið hefur fram hefur með einum eða öðrum hætti reynt að bæta fyrir breyskleika manna. Sumir ismar eru betri en aðrir. Það eru þeir ismar sem fylgja fordæmi Krists og reyna að bæta mannlífið með góðu fordæmi í stað fordæminga og átaka.

Femínismi er stjórnlaus ismi. Frumhugmyndir hans eru svo óljósar að meira að segja kristin kirkja bliknar við hlið hans þegar kemur að því að gefa misvísandi skilaboð. Femínistar geta kinnroðalaust verið með eða á móti hverju sem er. Sumir femínistar kalla aðra femínista and-femínista. Þess vegna skapast hjá femínistum þörf fyrir flokkslínur.

Femínistafélag Íslands hefur nokkur eitruð stefnumál. Þau eitruðustu eru þessi:

Að vinna gegn hverskonar birtingarmyndum kynjamisréttis. Þar má nefna klámvæðinguna, ágengar, lítilsvirðandi auglýsingar, ofbeldi, mansal og vændi.

Að uppræta staðalmyndir um hlutverk og eðli kvenna og karla.

Fyrra markmiðið er klikkað. Sé það tekið bókstaflega er það markmið femínistafélags Íslands að berjast gegn kvikmyndum eins og Lilja 4-ever. Því hún er ein birtingarmynd kynjamisréttis. Og hvað ef við setjum t.d. ljóð í stað auglýsinga. Hver er tilveruréttur ágengra, lítillækkandi ljóða? Og ef þau eru í lagi, hvað aðgreinir þau frá auglýsingum? Hvar liggur línan?

Þessum spurningum svara aðeins tilfallandi smekkur og flokkslínur.

Seinna markmiðið er fram úr hófi hrokafullt. Að uppræta staðalmyndir felur í sér að uppræta lífsafstöðu og val annars fólks. Sem er ekki nema örlítið skárra en að uppræta fólkið sjálft. Sé markmiðið tekið bókstaflega er það herhróp á þjóðernishreinsanir. Allt í skjóli þess að fólki sé ekki boðlegt að lifa á einn eða annan hátt.

Það ber vott um geðveiki, heilaþvott eða heimsku að gera eins og Hjálmar, talsmaður karlahóps femínistafélagsins, og fullyrða að texti eins og Baggalútsmanna stuðli að nauðgunum. Orsakasambandið þar á milli er svo útþynnt og fráleitt að eins er hægt að halda því fram að ferjur eða rútubílar stuðli að nauðgunum. Án þeirra myndi nauðgunum jú verulega fækka um Verslunarmannahelgar.

Femínistafélagið segist hafa lýðræðislegar aðferðir að leiðarljósi. Félagið er í grunninn andlýðræðislegt fyrirbæri. Í lýðræðissamfélagi er óverjandi að setja tortímingu lífsstíls á stefnuskrá sína. Þótt það sé gert með loðnu orðalagi eða skilgreiningaleik (t.d. með því að þrengja eða víkka hugtakið staðalmynd eftir þörfum).

Femínistar trúa því margir að það að berjast gegn staðalmyndum og klámi sé jafn hafið yfir vafa eins og að berjast gegn illsku. Það er reginmiskilningur. En þeir sem fara af sama trúarhita gegn vafasömum andstæðingum og þeim óefuðu enda alltaf á að troða einhverjum um tær.

Orðbragð margra femínista er fasískt alræðisorðbragð. Tilgangurinn helgar meðölin. Þess vegna er femínismi víða ómanneskjuleg ofbeldisvél. Hið eina sem kemur í veg fyrir harmleiki vegna hans er dvergvöxtur hans.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er heilmikið til í þessu.