31. júlí 2008

Eff vs Seljan

Ólafur Eff er afleitur í mótlæti. Það var ekki að koma í ljós í gær. Hann hefur sannað það ítrekað. Seljan er afleitur fréttaskýrandi, löglegur en siðlaus, eins og nú hefur komið í ljós.

Blanda þeirra tveggja í Kastljósinu í gær var ömurlegt sjónvarpsefni fyrir alla nema þá sem er í nöp við Ólaf, dýrka Seljan eða hafa gaman af vandræðagangi.

Viðtalið var endurtekning á fyrsta fundi Ólafs í þessu embætti. Helgi var rottumaðurinn. Ólafur móðgaðist aftur fyrir hönd embættisins.

Ólafur margsvaraði spurningum Helga en Helgi hélt áfram og krafðist þess m.a. að borgarstjórinn annaðhvort lúffaði fyrir Hjálmari Há eða rúllaði yfir hann. Hann reyndi með öðrum orðum að krefjast þess af borgarstjóra Reykjavíkur að hann afgreiddi viðkvæmt skipulagsmál í sjónvarpsviðtali. Það er siðlaus krafa.

Ólafur kom að auki með upplýsingar um brottvikningu fyrrum aðstoðarmanns síns. Hún hafði kúplað sig úr kompaníi við hann og hans fólk (sem maður er nú ekki viss um að séu mikið fleiri en hann sjálfur) með öllu. Það er frétt. Helga mistókst að taka þann vinkill vitibornum tökum.

Hann virtist enda þrælbundinn af alltofstuttum spurningalista sem hann hafði fyrir framan sig. Ólafur var bundinn af álíka stuttum lista af tækifærisræðum sem hann hafði æft fyrir framan spegilinn.

Stjórnmálamenn og fréttamenn verða að vera frjóir hugsuðir og túlka þann frjóleika með orðum. Í Kastljósinu í gær fór geldhestur upp á ófrjóa meri.

Ólafur Eff er enda enginn stjórnmálamaður, hann er embættismaður. En embættismenn erfa jörðina reglulega þegar stjórnmálamenn kúka sig á kaf. Seljan er enginn fréttamaður. Hann á heima á útvarpsstöð fyrir bólugrafna, þar sem allt snýst um símhrekki.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú er mér hvorki í nöp við borgarstjóra, né dýrka Seljan. Þó sýnist mér Seljan líklegur til að vera þeirrar tegundar sem þjóðin þarf á að halda.
Íslenskir ráðamenn hafa í áratugi komist upp með að bulla innihaldslausa þvælu í viðtölum - og sjaldan hefur það gerst að spyrill vogi sér að spyrja sömu spurningar oftar en í eitt eða tvö skipti.
Þá sjaldan þeir gera það, má yfirleitt heyra hræðsluskjálfta í röddinni og yfirbragð þeirra verður allt mjög afsakandi.

Þannig leyfi ég mér t.d. að fullyrða að setningin "þetta er ekki svaravert" sé sér-íslenskt fyrirbæri og hvergi í hinum siðmenntaða heimi kæmust stjórnmálamenn upp með að svara mikilvægum spurningum með slíku setningaskrípi; setningaskrípi sem er regla fremur en undantekning á Íslandi.

Hitt kann að vera rétt hjá þér að Seljan hefði mátt undirbúa sig betur og flakka örlítið meira út fyrir niðurnjörvaðan ramma. Svo mætti hann e.t.v. stúdera hvernig maður er ágengur á ofurkurteisan hátt og beitir hörkunni einungis í undantekningartilfellum.
Þá má alveg taka undir að krafan um afgreiðslu skipulagsmála "í beinni" var heldur vafasöm.

Þegar á allt er litið er Seljan þó fyrsti spyrillinn sem ég sé í íslensku sjónvarpi sem spyr spurninga blákalt án þess að hræðslan skíni úr andlitinu. Í slíku eru,að mínu mati, fólgin verðmæti.

Annars finnst mér vanta í þessa greiningu hjá þér örlitla samantekt á því hvernig þú sérð fyrir þér "fyrirmyndaspyril" (án þess að vilja frekjast með hvað þú skrifar um).

Bestu kveðjur og þakkir fyrir góð skrif.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Nú er ég alls enginn aðdáandi háttvísi eða kurteisi. Þvert á móti. Hinsvegar krefjast hörkulæti ákveðinna gæða, sem Helgi hefur ekki til að bera.

Kristján kastljóssmaður var miklu betri áður en hann fór að elta aurinn. Hann spurði oft einmitt með þeim hætti sem þú saknar.

Nanna matreiðslumeistari hittir naglann á höfuðið. Grillun snýst um að ná sem mestu út úr kjötinu, jafnvel þótt það sé að upplagi rýrt, en ekki um að brenna það eins mikið og hægt er.

Nafnlaus sagði...

Seljaninn er nú líka á mörkum þess að vera siðlaus.
Annars mættu menn skoða sér til dundurs aðfarir ágætra erlendra sjónvarpsspyrla, sem hafa háttinn á að komast að grautnum hjá viðmælanda með staðfestu. Það er gert á þolrænan hátt án þess að maður fái hland fyrir hjartað.
Tek fram að ég er algjörlega laus við að vera áhangandi þessara þriggja atriða sem talin eru upp framarlega í pistlinum.