Óttalegur vindbelgur er Jónas Kristjánsson. Ef honum væri hálft eins umhugað um sannleikann og að nostra við stílbrögð sín myndi hann aldrei láta frá sér fara aðra eins firru og þá sem hann skrifar á blogg sitt í dag þar sem hann fullyrðir að Vilmundur Jónsson, fyrrverandi landlæknir, hafi verið hugmyndafræðingur af nasískti sort.
Það er skömm að því að menn skuli fara jafn óvarlega og þetta með svona alvarlegt mál. Ég veit ekki hvort Jónas er að tyggja þetta gagnrýnilaust upp úr DV (sem ég hef ekki og mun ekki lesa) eða hefur lagst í sjálfstæða rannsókn. En þetta er tóm vitleysa. Vilmundur Jónson var einn tiltölulegra fárra málsmetandi manna sem andæfði harkalega kynþáttahyggju.
Kynþáttahyggja var afar vinsæl hér á landi á tímabili vegna þess hvað hún virkar skynsamleg í einfeldni sinni. Erfðakynbætur þóttu sumum jafn sjálfsagðar og frjálsíþróttaæfingar ungmennafélaga. Einn stækustu aðdáenda kynbóta var barnavinurinn Steingrímur Arason, fyrsti kennaramenntaði Íslendingurinn, minnir mig, og höfundur „Litlu, gulu hænunnar“ (sem síðan er trúarrit hægri manna).
Gegn þessari tísku réðst Vilmundur og benti á að það væri ekkert einfalt við erfðir. Það væri fráleitt að reyna að stjórna erfðum því vald manna yfir útkomunni væri sama og ekkert og menn gætu gert meiri skaða en gagn ef þeir reyndu að útrýma lágeðli. Öllu þessu er skilmerkilega haldið til haga í skrifum Vilmundar og það geta allir sannreynt – allir sem nenna að leita.
Tilvitnunin sem Jónas hefur eftir Vilmundi:
„Vönun andlegra fáráðlinga léttir þeim lífið, er þjóðinni til hagsbóta og dregur úr úrkynjun komandi kynslóða.“
Þetta er ekki stefnuyfirlýsing nasísks valdmanns, þetta er tilraun menntaðs manns til að draga sanngjarnar ályktanir af gefnum forsendum. Til þess notar hann þau hugtök sem málið snýst um. Á málfari dagsins í dag væri sama hugsun orðuð þannig:
„Ófrjósemisaðgerðir einstaklinga með mikla andlega fötlun geta leitt til betri lífsskilyrða fyrir viðkomandi einstaklinga með augljósum jákvæðum, samfélagslegum áhrifum, auk þess sem þær geta komið í veg fyrir útbreiðslu alvarlegra erfðasjúkdóma.“
Rökin standa, þótt umbúðirnar séu gulnaðar og feysknar. Í dag er það talinn sjálfsagður réttur fatlaðra að stunda kynlíf (þótt þeir séu á þroskastigi barna) og er það réttlætt þannig að það sé svo snar þáttur af mannlegu eðli að það sé ómanneskjulegt að neita fólki um það. Fötluðum er einnig kennd sjálfsfróun ef á þarf að halda. Í öllum umræðum um kynlíf fatlaðra er megináhersla á varnir gegn þungun. Engum alvarlega andlega fötluðum er gefið grænt ljós á barneignir, ekki síst barnanna vegna. Svo til allir mikið andlega fatlaðir einstaklingar sem eru kynferðislega virkir eru látnir nota getnaðarvarnir eða eru gerðir ófrjóir hafi þeir ekki vit á því sjálfir.
Hugarfar Vilmundar rímar nákvæmlega við hugarfar dagsins í dag. Það er fráleit ósvífni að kalla hann nasískan hugmyndafræðing eins og Jónas gerir á síðu sinni. Það sýnir aðeins hversu hjákátlegt er að þessi vindbelgur skulu dirfast að ætla að leggja öðrum línurnar um blaðamennsku og önnur skrif. Það er ótrúlegt að Jónas með nasistaáburðinn skuli vera sami Jónas og ræður ungum blaðamönnum heilt og fullyrðir:
Bestu rannsóknablaðamenn leita jafn eindregið eftir sönnunargögnum, sem hafna tilgátunni, og hinum, sem styðja hana.
1 ummæli:
Alveg sammála. Fáránleg skrif og Jónas Kristjánsson er stórkostlega ofmetinn karlfauskur.
Þ.
Skrifa ummæli