7. mars 2008

Nauðungarvist á himnum


Þegar páfann í Róm vantaði pening tók hann upp á því að bjóða mönnum inneign á himnum á formi aflátsbréfa. Húmorslaus gyðingahatari með mótstöðuþrjóskuröskun tók þetta óstinnt upp og gerðist veggjakrotari. Smám saman snérust margir á sveif með gyðingahataranum gegn páfanum og fóru að drepa sér leið að andlegum völdum. Mótmælendatrúin var orðin til.


Í dag dettur mótmælendakirkjunni ekki í hug að selja mönnum ómarkvissa fyrirgreiðslu á himnum. Annað hvort gera menn þetta alminlega eða ekki — og alminlegast er einfaldlega að rukka aðgöngugjald að dýrðinni. Allar venjulegar skírnir á Íslandi kosta á bilinu 3.500 kr og 9.000 kr. með bensínpeningi.


Skírnin er dásamleg athöfn. Barninu er hrúgað í alltof stóran kjól í máttlítilli tilraun til að hylja þá staðreynd að það er statt þarna nauðugt viljugt, ungt og ósjálfbjarga, og síðan er sett á það vatnsmerkið sem Lykla-Pétur leitar að við Perluhliðið þegar hann ber sál þess upp á milli sín og vítisloga. Sjái hann ekki merkið kastar hann sálinni glaðhlakkalegur í logana.


Þar sem einn útgangspunktur í máli gyðingahatarans var sá að Guð gerði kröfu um persónulegt samband við hvern og einn sinna þegna, þá hefur reynst erfitt að meðtaka að skírnin sé nóg. Maður opnar ekki hjarta sitt fyrir Kristi með hjali.


Þess vegna er fórnarlambinu uppálagt að mæta aftur þegar kjóllinn passar og taka við staðfestingu Guðs á vatnsmerkinu. Í þetta skiptið er Guð búinn að breyta vatninu í vín — hið ofurdýrmæta og dásamlega dómgreindarskerðandi efni sem Ésú taldi nauðsynlegt að marínera fylgjendur sína í. Við það tilefni má segja að foreldrarnir og vitorðsmenn þeirra (skírnarvottarnir) mái af sér dóminn yfir því að hafa falboðið barnið á sínum tíma.


Tímasetning ferminga er hálft í hvoru praktísk en hún byggir einnig á horfi við einstaklingnum sjálfum. Beinkröm og aðrir hörgulsjúkdómar sáu til þess að um 13 - 14 ára aldurinn var líkamsvöxtur orðinn þannig að skírnarkjóllinn (hvort sem það er sá táknræni eða efnislegi) var farinn að passa dável. En að auki var full ástæða talin til að ætla að fólk á þeim aldri væri hæft til að taka mikilvægar ákvarðanir um sinn hag. Stelpur voru enda komnar með dálítil brjóst og ávalar mjaðmir sem fullorðnir frændur og nágrannar voru farnir að girnast — og einhvernveginn var við hæfi að ýta börnunum á sama tíma út í kynlíf og fermingu.


Það fer ekkert sérstaklega fyrir brjóstið á sporgöngumönnum gyðingahatarans að öll merki bendi í þá átt að ferming sé nákvæmlega sama nauðungaraðgerðin og skírnin. Ferming uppfyllir enda öll skilyrði þess að kallast mansal. Það standa öll spjót á fermingarbarninu. Því eru boðnar gjafir og fé ef það fermist. Neiti það að fermast má það vita að það gæti haft hroðaleg áhrif á kransæðastíflu Kollu frænku. Öll ættin boðar komu sína. Presturinn stekkur á barnið úr hinni áttinni og traðkar á öllu sjálfstæði og gagnrýninni hugsun og til að kóróna yfirganginn þarf barnið að taka próf úr áróðri prestsins. En á móti kemur að horft er í gegnum fingur við barnið og því leyft að smakka vín (enda hlýtur allt að vera gott sem Ésú var hrifinn af), það fær að grilla sig í ljósabekk og skreyta sig með pjátri og purpura.


Barnið er komið með lögheimili á himnum um það leyti sem það lærir að brjóta gegn Guðs vilja. Það er því stikkfrítt. Börn byrja að drekka og reykja; fróa sér og girnast nágranna sína; stela og ljúga — og haga sér að öðru leyti eins og fullorðið fólk sem engu hefur að tapa.


Yfir öllu gína prestarnir, stinga ágóðanum í vasann og glotta yfir vel unnu verki. Þeim er skítsama um það hvort fermingin hefur einhver raunveruleg áhrif á trúarlíf barnanna. Það eru engin samræmd próf hérna megin moldar.


Við höfum hrakið fúlmennin og dólgana sem girntust stinna kroppa unglingsstúlknanna út í ystu myrkur en við umberum enn prestana sem ágirnast sálir þessara sömu barna. Og við bjóðum þeim beina leið að þeim. Sá sem stelur huga barns er að mínu viti engu minni barnaníðingur en sá sem stelur líkamanum. Fermingin er líka gifting, og hempuklæddu barnaníðingarnir hreykja sér meira að segja af því á tyllidögum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta eru æði, uuhumm, þurrkuntuleg skrif ;)

Nafnlaus sagði...

jú jú, fínt skrifað. En ákaflega smekklaust. Til hvers að vera að hrósa umbúðunum þegar innihaldið er súrt ?
Mér finnst niðurlagið í þessu smekklaust, svo ég tali nú bara fyrir sjálfan mig..
kv, Bóla bróðir

Nafnlaus sagði...

Víst er niðurlagið smekklaust en smekkleysið er ekki Óla Sindra heldur prestanna og kirkjunnar. Sá er vinur er til vamms segir. "Sá sem stelur huga barns er að mínu viti engu minni barnaníðingur en sá sem stelur líkamanum." Sá sem vekur athygli á þessu er bestur manna.