1. apríl 2013

Orkunám við Mývatn og stóriðja við BakkaÉg fór einu sinni í vísindaferð í Landsvirkjun. Þar frétti ég í fyrsta skipti að eitt álver notar jafnmikið rafmagn og öll þjóðin fyrir utan stóriðju. Mér þótti það þá og þykir það enn óhugnarlegt. Ég man að ég lét upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar hafa fyrir hlutunum í þessari heimsókn. Ég krafði hann svara um ýmislegt sem laut að nýtingu auðlinda, eignaupptöku, vinnsluleyfum og mögulega einkavæðingu Landsvirkjunar í framtíðinni. Eftir því sem ég varð grimmari varð hann ákafari í að koma okkur í áfengið.Í kvöld verður kvikmyndin Hvellur á dagskrá í RÚV. Þetta er dálítið merkileg mynd því þar er skúbbað í fyrsta skipti nöfnum þeirra sem sprengdu stífluna í Laxá árið 1970. Það er dálítið athyglisvert að skoða þessa mynd í samhengi við Geirfinnsmálið sem búið er að vera í umræðunni síðustu daga og vikur. Alveg eins og Sævar Ciesielski reyndi af alefli að vinna með „kerfinu“ að endurreisn æru sinnar og endurupptöku málsins, m.a. með samningu langrar endurupptökubeiðni sem gefin var út sem bókin Dómsmorð árið 1997,  reyndu bændur í Laxárdal allar löglegar leiðir til að hindra þau spjöll sem vinna átti á dalnum til að útvega Akureyringum rafmagn. Vandinn var að kerfið tók engu tali. Það valtaði yfir allt sem á vegi varð og hin raunverulega barátta var fólgin í því hver fengi að sitja við stýrið. 

Bændurnir í Laxárdal sprengdu stífluna. Ekki bara út af krónum og aurum; gremju eða tapsárni. Þeir sprengdu hana því þeir töldu sig ekki geta umborið þær skemmdir sem vinna átti á ættjörð þeirra og umhverfi. Það er nefnilega nokkuð löng hefð fyrir því að í Þingeyjarsýslu sé hugsað á dálítið dýpri nótum en víða annarsstaðar. 

Hvellur endar á því að sú kynslóð sem nú er uppi er hvött til vopna til varnar Mývatni. Ekki með látum, heldur með alvarlegri áminningu. Enda stendur fyrir dyrum að auka orkunám við Mývatn verulega í því skyni að byggja upp stóriðju á Bakka við Húsavík.

Ég sé á feisbúkk að flestir Húsvíkingar fagna þessum áformum innilega. Ég sé líka að Mývetningar eru ekki jafn glaðir. Fögnuður Húsvíkinganna er áberandi og hávær. Andstaða Mývetninganna hófstillt en kraumandi. Húsvíkingarnir telja málið röklega og siðferðilega geirneglt og pottþétt. Ekkert sé eðlilegra en að náttúran sé virkjuð til notkunar í heimabyggð. Mývetningar láta sig slík rök litlu varða; það er enda styttra frá Mývatni til Akureyrar en Húsavíkur.

Nú skal ekki horft fram hjá því að Húsavík er varðstöð í baráttu gegn eyðingu byggðar. Öll byggð á Norðurlandi austan við Húsavík, og að henni meðtalinni, er í stórkostlegri eyðingarhættu. Skipulega hefur verið dregið úr þjónustu við svæðið og alið er á tortryggni og sundrung. Ákveðin pólitísk öfl hafa að því er virðist hafa gert það að markmiði sínu að hafa Vaðlaheiðargöng til marks um óráðsíu og rugl í ráðstöfun opinbers fjár. Á sama tíma styðja menn það kinnroðalaust að eyða hundrað milljónum eða svo til að tryggja að stúdentar við HÍ þurfi ekki að bíða á rauða kallinum við Miklubraut eða mörgum milljörðum í að setja flöskuhálsinn austar á sömu götu í stokk.

Sálfræðilega er ekkert skiljanlegra en að Húsvíkingar fagni þegar „þeirra maður“ í ríkisstjórn stýrir valtara kerfisins í „rétta“ átt einu sinni.

En mikið andskoti mun það vera ömurlegt ef endurreisn byggðanna austan Akureyrar þarf að vera með stóriðju og olíuiðnaði. Og á kostnað Mývatns.

Húsvíkingar eiga engu meiri heimtingu á orkunni við Mývatn en Akureyringar áttu á straumi Laxár á sínum tíma.

Það má ekki spilla Mývatni til að byggja stóriðju við Húsavík.
Þingeyingar eru ekki gallalausir þótt þeir séu merkilegir. Þeir eru stundum skammsýnir, sérstaklega þegar þeir eru að hverfa frá einum lífsháttum til annarra. Nú er t.d. að verða roskin síðasta kynslóðin sem fæddist og ólst upp í Flatey á Skjálfanda. Það var efalaust sorglegt þegar föst búseta lagðist þar af og víst er að flestir álitu að þar með væri eyjan að „leggjast í eyði“.

Ef farið er í eyna í dag blasir samt annað við. Flatey er perla. Þar hafa fyrrum íbúar og afkomendur þeirra byggt upp og viðhaldið húsum. Á sumrin iðar allt af lífi. Lundi skýst úr hverju barði og æðarfugl situr í makindum á hreiðrum. Umhverfis eyjuna ólgar sjórinn af lífi og eyjaskeggjar skella nýveiddum fiski á grillið í kvöldblíðunni. Á haustin og vetrum sindra stjörnur og norðurljós dansa í náttmyrkrinu.  Enn sem komið er er eyjan að mestu óuppgötvuð öðrum en þeim sem eiga þar rætur. Samt tekur aðeins litlu lengri tíma að komast í eyjuna frá Húsavík en að taka strætó frá miðborg Reykjavíkur upp í Breiðholt. Aðeins örfá hús eru í raunverulegri niðurníslu í eynni. Átakanlegasta dæmið er skólahúsið. Það var tætt á hol af eigendum húsa í eyjunni sem nældu sér þar í ódýran eldivið.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að nýta sér ylinn af eyðileggingu verðmæta sem eru við það að fara til spillis. Nærtækara er þó að nýta þau áfram sé þess kostur, án þess að skemma þau.En nú er ég kominn hættulega nálægt því að segja að Húsvíkingar eigi að gera „eitthvað annað“. Ekkert er hægt að segja sem espar þá meira upp. Þeir hafa reynt án afláts töluvert lengi. Á sumrin iðar allt af lífi og ferðaþjónusta er vaxandi. Á veturna er staðan önnur og verri.

 Í raun hafa Húsvíkingar verið hraktir út í stóriðjulausnina. Þeim hefur verið gert að sækja þjónustu í síauknum mæli til Akureyrar. Raufarhöfn er að algjöru hruni komin. Það er spurning hve lengi Kópasker heldur út. Hrun Raufarhafnar kemur ekki á óvart. Það er lengra þaðan til Akureyrar en frá Reykjavík í Landmannalaugar.En ég er bara ekkert viss um að Mývetningar horfi upp á það aðgerðarlausir ef farið verður í frekari spjöll á svæðinu og lífríki og náttúru stefnt í meiri voða en orðið er. Ég gæti meira að segja trúað að þeir snúist til varna af töluverðu afli.

Hvað þá gerist er ómögulegt að spá um.

Ef ég væri á Húsavík núna myndi ég að minnsta kosti stilla fögnuði í hóf. Kálið er ekki sopið enn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég held að rithöfundur þessara greinar ætti nú að kinna sér alla þætti málsins áður en hann fer að alhæfa um að það eigi að leggja mývatsveit undir virkjanir úaf sóriðju á Bakka.
eg veit ekki betur en það sé verið að bora og vinna að virkjun á þeystareykjum sem á að taka hluta að þessu og svo mun krafla dekka hluta og jú einnig mun bjarnaflag vera skoðað ef þörf er á meiri orku.

kveðja frá mývetningi