31. mars 2013
Lýðurinn hrópaði víst!
Á þessum páskadegi hélt biskupinn yfir Íslandi ræðu og minntist á að múgurinn væri stundum grimmur. Guðmundar- og Geirfinnsmál væru ábending um það.
DV ákvað, af einskærri smekkvísi, að matreiða þessi orð ofan í lesendur sína sem stórkostlega móðgun við almenning. Enda verður að segjast eins og er að enginn fjölmiðill á landinu á tilveru sína jafn ríkulega undir því að hægt sé að gera lægstu hvatir múgsins að féþúfu. Lymskulega orðuð frétt vék að því að biskupinn væri að kenna almenningi um GG-málin og hefði ekki vikið einu orði að ábyrgð lögreglu eða dómstóla.
Þetta var nóg til að ýta úr vör lítilli öldu vanþóknunar. Ekki síst hjá marxistum sem telja að þarna sé ein stoð valdastéttarinnar að fela skömm annarar og beina sökum að þeim sem síst skyldi.
Biskupinn var ekki að benda á neitt nýtt. Fjöldinn allur af fólki hefur rætt um stemmninguna sem ríkti í samfélaginu á áttunda áratugnum. Sumir hafa meira að segja á síðustu dögum rakið sögur af andstyggilegu viðmóti sem beið hinna dæmdu þegar þeir loks losnuðu úr fangelsi. Aðrir hafa sagt frá hótunum í garð þeirra sem tóku málstað þeirra opinberlega.
Samfélagið hélt áfram að lumbra á sumum sakborninga löngu eftir að kerfið sleppti af þeim klónni. Sú hugmynd að almenningur hafi alla tíð trúað á sakleysi þeirra er mýta, nei – sögufölsun.
Þann 13. desember 1974 var ekki nema tæpur mánuður síðan Geirfinnur hvarf. Þá strax kom til greina að skrá hvarf Geirfinns sem óupplýst mannshvarf. Bæjarfógetinn í Keflavík skrifaði dómsmálaráðuneytinu bréf og benti á að rannsókn mætti ekki hætta því þrýstingur frá almenningi og fjölmiðlum væri slíkur að það yrði reginhneyksli.
Auðvitað ber hver einstaklingur og hver stofnun fulla ábyrgð á sínum hluta þessa máls. Ábyrgð lögreglu verður ekkert minni þótt almenningur og fjölmiðlar kannist við sinn hluta.
Lýðurinn hrópaði víst.
Hann hefur fulla ástæðu til að skammast sín og minnast þess.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli