10. apríl 2013

Lærdómurinn frá Húsavík



Ég held ég hafi aldrei þekkt Húsvíking sem ekki skammast sín fyrir undirskriftarlistann þar sem rúmlega hundrað manns sáu ástæðu til að lýsa opinberlega yfir hlýju í garð ungs manns sem dæmdur var fyrir nauðgun. Ég þykist samt vita að þeir séu til. Eftir að dómur féll í Hæstarétti má sjá hversu mikil siðferðileg loðmulla umlukti bæinn ef skrif Jóhannesar Sigurjónssonar í Degi eru skoðuð. Þar reynir hann að gera hlut bæjarbúa sem eðlilegastan og minnstan og getur þess að dóm Hæstarétts megi túlka þannig að undirskrifendur hafi nú ekki farið fjarri öllu lagi. Hann gengur út frá þeirri forsendu að það sé eðlilegasti hlutur í heimi að maður trúi ættingjum sínum og vinum fyrst, öðrum svo.

Sem er einmitt kjarni málsins. Ekkert samfélag, sama þótt það sé lítið og samhent, getur leyft sér að setja frændrækni ofar réttlæti. Samfélag sem það gerir virkar ekki rétt. Slíkt samfélög eiga á hættu margvíslega spillingu þar sem fólk hættir að gera greinarmun á hagsmunum samfélagsins og hagsmunum þeirra einstaklinga sem fleiri eða færri telja að séu tengdir hagsmunum samfélagsins órofa böndum. Eins og í flestum íslenskum bæjum hefur þessi sjálfsagða og eðlilega aðgreining verið nokkrum erfiðleikum bundin á Húsavík gegnum tíðina.

Það að standa upp meintum kynferðisbrotamanni til varnar virðast vera hálfsjálfvirk viðbrögð. Það þarf ekkert óvenjulegt til. Ráðherra í ríkisstjórn Íslands skrifaði sex árum eftir Húsavíkurlistann óskaplega fallega um mann sem beitt hafði unga drengi skipulögðu og ofsalegu ofbeldi árum saman. Hið sama gerði hópur samflokksmanna hans. Ástæðan var sú að maðurinn var samherji þeirra. Þegar flett var ofan af ófreskjunni Ólafi Skúlasyni vantaði ekki varnarvegginn heldur. Jafnvel þegar búið var að fletta endanlega ofan af honum kom fjölskylda og frændgarður fram opinberlega til að véfengja fórnarlömbin. Þegar í ljós kom að Jón Baldvin hafði sent ungri stúlku klámfengin bréf og var sakaður um meira stökk fjölskyldan af stað til varnar. Aftur var ráðist að þeim veikasta.

Viðbrögð Húsvíkinga voru hvorki verri né betri en viðbrögð annarra í áþekkum málum. Það er dómadags hræsni og blábjánaskapur að gefa annað í skyn. Húsvíkingar eru hvorki líklegri né ólíklegri en aðrir að bregðast svona við.

Það sem gerðist á Húsavík var að hið óopinbera varð opinbert í örvæntingu augnabliksins. Hin óopinbera ásjóna íslensks samfélags er ekki alltaf sérlega geðsleg. Þar fara víðsýni, hófsemd og hlýja stöðugt halloka fyrir þröngsýni, dómhörku og grimmd. Þess vegna er ekki óhætt að hafa athugasemdakerfi opin við ákveðnar tegundir frétta.

Klukka sem er stopp er rétt tvisvar á sólarhring. Hneykslisaldan í samfélaginu nú er á sama hátt aðeins tilfallandi réttmæt. Hún er knúin af sömu heiftinni og hatrinu og öll önnur vitleysa sem ríður yfir þetta blessaða samfélag okkar hvað eftir annað. Hópurinn sem hneykslast er litlu upplýstari en hópurinn sem lét ginna sig til að skrifa á undirskriftarlistann á sínum tíma.

Ofsafengin, fordómafull viðbrögð við málum sem þessu eru aðferð heimskunnar til að hindra að raunverulegur lærdómur sé dreginn. Sá sem datt útbyrðis öðrumegin heldur að hann geti bætt fyrir það með því að stökkva útbyrðis hinu megin.

Samfélagið okkar vantar siðferðilega ballest. Það þarf að styrkja siðferðilegt ónæmiskerfi einstaklinga. Það vantar meiri einlægan vilja til að læra af misbrestum annarra í stað þess að berja í þá.

Sá sem í alvöru heldur að það sé eitthvað óvenjulegt eða einstakt í gangi á Húsavík er blindur fyrir raunveruleikanum allt í kringum sig.

3 ummæli:

Þóra Leósdóttir sagði...

afar vel mælt, takk fyrir

Nafnlaus sagði...

Virkilega vel gert Ragnar.

Teitur Atlason sagði...

Algerlega "spot on". Það er farið úr öskunni í eldinn. Sami hóp-tryggingurinn er í gangi núna en með öfugum formerkjum.