11. apríl 2013

Tvennt sem kemur á óvart við kosningarnar



Ég tók mig til fyrir nokkrum mánuðum og skoðaði kosningaúrslit síðustu 50 ára á hinum frábæra vef Hagstofunnar. Það kom í ljós að Alþingiskosningar á Íslandi eru í sögulegu samhengi ákaflega fyrirsjáanleg fyrirbæri. Fylgi hægri og vinstri flokka er nokkurnveginn hnífjafnt að meðaltali og þar á milli lúrir nokkuð vegleg miðja þeirra sem telja sig hvorki til hægri eða vinstri eða eru að refsa annarri fylkingunni tímabundið.

Vinstri flokkarnir klofna og sameinast til skiptis en á einhvern undraverðan hátt hefur tekist að sameina hægra fylgið meira og minna undantekningalaust í einum flokki. Það er afrek í sjálfu sér ef haft er í huga hvernig grasrót flokksins er í raun og veru (eins og afhjúpaðist á síðasta landsfundi).

Mjög greinilegar vísbendingar eru þó uppi um að áratugum saman hafi bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsókn verið að glata tökum á fylgi sínu.

Það sem blasti við eftir síðustu kosningar var að sóknarfærið í kosningunum 2013 var á miðjunni. Eftir vinstri sveiflu í síðustu kosningum var alveg ljóst að klofnun þeim megin myndi ekki skila sér í öðrum sigri.

Minni framboð sem falla utan hefðbundinna skilgreininga á hægri vinstri hafa alltaf átt sirka 10% matarholu en ekki meira en það. Heilmikill slaki var hinsvegar á miðjunni eftir afhroð Framsóknar síðast.

En á dauða mínum átti ég von frekar en að Framsókn tækist að sópa því fylgi til sín. Ég hélt í fullri alvöru að vörumerkið væri ónýtt. Svo reyndist aldeilis ekki vera.

Það kemur á óvart.

Hitt sem kemur á óvart er að ekkert and-pólitískt framboð kemur fram. Það hefði verið hægur vandi að sópa inn á þing nokkrum þingmönnum með framboði sem lýsir frati í allt heila klabbið. En ekkert framboð nú er grín (viljandi), háð eða spott.

Áhugi á kosningabaráttunni er í lágmarki. Áhugi á framboðunum sömuleiðis. Kjörsókn verður örugglega frekar lítil. Ofsalega margir hafa varla geð í sér að hlusta á frambjóðendur, hvað þá kjósa þá. Þeir vilja sýna andúð sína með atkvæðinu og gæla við að skila auðu. Sterkara hefði verið að kjósa and-pólitík.

Sá kostur er bara ekki í boði. Píratar komast næst því, en samt ekki. Björt framtíð kaus að reyna frekar við miðjufylgið (sem í sjálfu sér er eðlilegt) en klikkaði. Bæði með því að hafa endurunna Samfylkingarmenn í öndvegi, en líka með því að vera Evrópuflokkur á vitlausum tíma. Loks kemur þeim í koll að fólk ætlast til að framboð Besta flokksins á landsvísu sé skemmtilegt. Það er Björt framtíð barasta ekki.


Eftirspurnin eftir grínframboðum er svo sterk að fólk hefur tekið upp hjá sjálfu sér að búa þau til úr þeim molum sem hrökkva af borðum alvöru framboðanna. Þar tekst Þorvaldi Gylfasyni það ómögulega, að skáka Sturlu Jónssyni þegar kemur að því að vera ástmögur spéfugla. Hann er enda ótrúlega kómískur í framkomu.

Engin ummæli: