Skapferli Íslendinga á sér samsvörun í páskahelginni. Það er bara einn dagur á milli dauða og djöfuls og eilífðarríkisins. Þjóðin er pendúll sem sveiflast þar á milli. Þúsund ár í lífi þjóðar er eins og einn dagur og öfugt.
Í hinni forborðnu bók, Sálumessu syndara, lýsir breyski öldungurinn Esra Pétursson þjóð sinni þannig:
Þetta er skrifað nokkru fyrir síðustu aldamót og enn hafði ekki verið lagt inn í reynslusjóðinn eitt stykki útrás og annað stykki hrun. Allar góðar greiningar hafa spádómsgildi. Þetta er góð greining.
Íslendingar eru seinþroska þjóð. Þarfapíramídi þjóðarinnar er í laginu eins og Herðubreið. Efstu tvær hæðirnar eru lítið annað en bergtota upp úr flötu yfirborði hrauntappa sem rekja má hnúðótta lögun sína til þess að hafa gosið upp undir jökulfargi.
Skapgerð þjóðarinnar varð til undir fargi, alveg eins og fjöllin. Þess vegna er hún flöt.
Fyrir venjulegan Íslending er vináttan æðst allra dyggða. Sjálfsvirðing og siðferði er óþarfa prjál.
Umbrot síðustu ára, hrunið og endurreisnin – gat aldrei áorkað meiru en raungerðist á endanum. Pólitískur misþroski hertók löggjafarvaldið. Umbótaplógur Jóhönnu snerti lengst af ekki jörð en um leið og það gerðist stóð hann fastur í rótarhnyðju.
Um mitt kjörtímabil lék Jóhanna sinn stóra afleik. Seinþreytt á andstöðu innan VG og fyrirstöðu innan Sjávarútvegsráðuneytisins lét hún til skarar skríða. Hún afneitaði frumvarpi um sjávarútvegsmál og heimtaði höfuð ráðherrans á silfurfati. Sem hún og fékk. Hóf síðan stríð við sjávarútveginn.
Þeir sem ætla að ná fram „umbótum“ með offorsi falla iðulega í napóleónsgryfjuna. Þar endaði Jóhanna. Nýjar vígstöðvar í tvísýnu stríði eru öruggasta leiðin til taps. Hægt og rólega snerist taflið við og Jóhanna endaði einangruð í bönkernum sínum og beið þess sem koma skyldi. Minni spámenn hlupu um í örvæntingu og reyndu að semja sig til jafteflis. Á endanum blasti þó óvéfengjanleg staðreyndin við. Ósigurinn var fullkominn.
Ríkisstjórnin var komin á flæðisker. Kosningabaráttan hófst. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn slógu upp sölubásum á öðru þrepi þarfapíramídans (þótt botnfallið (les. Vigdís Hauks) hafi haldið sig á neðsta þrepi eftir sem áður) og lofuðu öryggi og eignum.
Kjósendur hópuðust að venju til þangað sem steikarilmurinn var sterkastur og þarfa-herðubreið Íslands hélt áfram að gildna um miðjuna eins og miðaldra íslenskur heimilisfaðir.
Þjóð sem aðeins hefur efnahagslegan vöxt að lokamarkmiði lífshlaupsins mun seint komast á það stig að sinna öllum þörfum sínum.
Íslensk pólitík er eins og svissnesk haffræði. Við höfum aldrei skilið tilgang stjórnmála, því við höfum aldrei viðurkennt þörf okkar fyrir þau. Þótt stjórnmálamenn flestra landa séu flekkóttur félagsskapur þá eru þeir íslensku pólitískir einfrumungar í samanburði við flest annað.
Þjóðin kýs það sem hún á skilið. Þingið er spegilmynd af þjóðinni. Við erum bara ekki skárri en þetta.
Það versta við þróun er hvað hún tekur hræðilega langan tíma. Einhverntíma mun þjóðin þroskast til þafa sinna. Þá mun sjálfsvirðing, þroski og siðferði vonandi skipta máli. Þá mun dogmatísk dómharka vonandi líða undir lok. En það gerist varla öðruvísi en þannig að okkur mistakist að ala nýjar kynslóðir upp í þarfaflatneskju forfeðranna. Svo drepumst við vonandi og skiljum sviðið eftir handa fólki sem hefur betri skilning á þörfum sínum en við.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli