24. mars 2013

Konungur ljónanna og Kúlúsúkk



Viðburðarík vika er að lokum komin. Frúin skellti sér óvænt til Spánar um miðja viku en gleymdi vegabréfinu heima. Það blessaðist þó allt. Í vinnunni gekk allt sinn vanagang, nemendur og kennarar halda áfram að læra. Það flæða yfir mig flottar pælingar frá flottum unglingum sem berjast gegnum Veröld Soffíu með mér.



Á föstudag var ég fluga á vegg þegar nemendur kynntu verkefni úr Englum alheimsins hjá samkennara mínum. Það litla sem ég sá var ekkert minna en frábært.




 Auk kynninganna höfðu nemendur bakað allskyns góðgæti sem þeir gæddu sér á meðan þeir nutu verkanna.

Vikunni lauk svo á að lítill hópur af krökkum brá sér afsíðis með öðrum kennara og lærði að baka dýrindis tertu.

Það voru sælir og saddir nemendur sem héldu í páskafrí að loknum degi.




Á fimmtudagskvöldið skellti ég mér á sýningu nemenda Hagaskóla á Konungi ljónanna.

Þvílík snilld!

Frá fyrstu mínútu héldu unglingarnir mér hugföngnum með ótrúlegri fagmennsku og hæfileikum. Sýningin var ekkert minna en afrek. Hver einasta sála, hvort sem það var söngvari, dansari, hljóðfærarleikari, sviðsmaður eða ljósamaður skilaði sínu óaðfinnanlega. Hugrekki einkenndi allan leik og dans. Nándin við áhorfendur þýddi að virkilega reyndi á fagmennsku og þægindaramminn var víðsfjarri.

Þegar sýningu lauk föðmuðust unglingarnir og margir grétu saman. Sýningarnar voru tíu á jafnmörgum dögum.

Það skal enginn segja mér að það sé meiri lykilhæfni í samfélaginu að kunna að leysa sameiginlega þætti úr liðum en að geta komið fram með þeim hætti sem þessi börn gerðu svona aðdáunarlega. Hagaskóli á hrós skilið fyrir að styðja við sköpunargáfu og hæfileika nemenda sinna með þessum hætti. Svona gerist bara í góðum skóla.

Skólar eiga nefnilega að leyfa nemendum sínum að skapa og koma fram. Það krefst ekki lítils aga að taka þátt í leiksýningu sem þessari. En sá agi er, ef rétt er á haldið, mun persónulegri og kærleiksríkari en einberar skólareglur, punktakerfi eða refsingar. Þetta er agi sem leiðir til stolts og sjálfsvirðingar. Agi sem maður tekur með sér út í lífið.

Ég má til með að geta þess að ég hitti ungan mann í vikunni sem hafði ófagra sögu að segja af dvöl sinni í skólakerfinu. Hann sagði mér líka að hann vissi um tvær sjoppur á höfuðborgarsvæðinu sem væru búnar að koma sér upp unglingafælum. En það eru hátalarar sem pynta ungmenni með hátíðnihljóðum sem við fullorðna fólkið erum hætt að heyra.

Ég trúi þessu varla og myndi gjarnan vilja fá staðfestingu á þessu ef einhver af lesendum kannast við þetta.

Þetta gæti samt svosem verið satt. Það er svo stutt á grimmdina í samfélaginu. Sérstaklega gagnvart unglingum. Allra helst gagnvart þeim sem eiga sér engan samastað annan en hverfissjoppuna.

Hrafn Jökulsson hefur ásamt öðrum staðið að söfnun vegna tónlistarhúss í Kúlúsúkk á Grænlandi sem brann. Mikið óskaplega er það gleðilegt.

Börn eiga að njóta þeirrar næringar sem listir hafa upp á að bjóða. Það á að umvefja þau með tónlist, myndlist og leiklist og þjálfa þau í að koma auga á hið fagra í lífinu. Það á einnig að kenna þeim að tjá skuggahliðar lífsins í listsköpun. Hollari tjáningarmáti er ekki til.

Ef listrænt uppeldi væri almennara þá væri færra fólk sem pyntaði börn með væli úr hátölurum og fleira fólk sem spilaði eitthvað fallegt og uppbyggilegt úr sömu hátölurum.


Engin ummæli: