Í dag jókst spjaldtölvukostur unglingadeildar skólans míns um 130%. Markmiðið að hlutföll milli nemenda og tækja séu 1:1 er í sjónmáli. Á sama tíma er viðtekið ástand í mörgum skólum að hlutfallið sé 1:13. Það er ótækt. Því verður að breyta.
Sjálfur horfi ég fram á að umbylting mín á eigin kennsluháttum verði algjör. Ég er hættur að veifa sjálfum mér sem rauðri tusku framan í nemendur og farinn að vera rauður þráður í þroska þeirra og eflingu námstækni. Ég er hættur að eyða tíma okkar saman í að mata gegndarlaust.
Samhliða því hef ég hafið markvissar gagnaðgerðir svo spjaldtölvan gleypi ekki allt nám barnanna. Meiri áhersla á hugsun, rósemi og heimspeki er væntanleg. Við ætlum að lesa saman Veröld Soffíu og hafa engar áhyggjur af prófum á meðan. Detti einhverjum í hug að skrifa ritgerð, mála mynd, gera tónlist eða skapa eitthvað með þeim þráðum sem verða ljósir við lestur, íhugun og umræðu um bókina, þá gera menn það. Engin pressa, aðeins sameiginleg rannsókn góðs hóps á því hve margt magnað hefur verið sagt og hugsað í heiminum.
Þeir sem vilja reyna sig við mælanleg markmið geta nú notað tækin til að spæna í sig stærðfræði, málfræði, ensku og dönsku. Fjöldinn allur af erindum og námskeiðum við erlenda háskóla er aðgengilegur með einu poti. Forrit sem kenna þér eðlisfræði, kínversku eða morserófið eru alltaf innan seilingar.
Verkefni okkar kennaranna næstu vikurnar er að kenna nemendum að axla frelsi sitt af metnaði og ábyrgð. Að hvetja þá til dáða og ræða við þá um hugðarefnin. Að gefa þeim ótal tækifæri til að líta upp af tölvunum og eiga samskipti við heiminn – og hverja aðra.
Að halda áfram að þróa okkur burt frá skóla iðnvæðingarinnar sem gekk út frá því að það samfélag væri best þar sem fólk væri líkast hvert öðru. Að öll handtök væru öðrum lík og öll þekking stöðluð svo hægt væri að setja fólk í stöðluð störf við einhæfar aðstæður.
Hugmyndin um eina samræmda þekkingu, hæfni og áhuga hlýtur að deyja.
Hugmyndin um kennarann sem hinn eina upplýsta alvald hlýtur að deyja.
Ég hugsa stundum um það hve það hefur verið byltingarkennt að setja glugga á kennslustofur, þ.e.a.s. glugga sem voru staðsettir þannig að börnin gátu séð út um þá frá sætum sínum.
Út um glugga kennslustofa heimsins hafa börn setið öldum saman og horft á atburðarásir sem ekki voru á valdi kennarans. Gluggar hafa miskunnarlaust stolið athygli nemenda á meðan kennarar mala við töflur. Í þessa sömu glugga hafa flogið smásteinar með tilheyrandi skemmdum og kostnaði. Húfur og pennaveski hafa verið látin fljúga út um þá af einskærri hrekkvísi.
Og þrátt fyrir allan þann ósóma sem einhverjir hafa séð út um þessa glugga og einbeitingarskortinn sem þeir hafa framkallað, að ekki sé talað um viðhald og skemmdir, þá dytti engum í hug að byggja skóla án glugga í dag.
Það er kannski vegna þess að þrátt fyrir allt þá er það heimurinn handan gluggans sem kennslan snýst á endanum um.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli