27. febrúar 2013

Að kæfa börn á fegurðinni



„Það er engin þversögn í þessu, er það?“ sagði unglingsstúlka við mig nýlega eftir að hafa kallað mig að borðinu sínu til að fá hjálp við framhaldsáfanga í íslensku.

„Ha?“ sagði ég, „þversögn?“

Ég tók af henni bókina og las kaflann sem henni hafði verið settur fyrir. Eftir fyrstu efnisgreinina titraði ég af hlátri. Frábærlega meitlaður stíll Péturs Gunnarssonar, þar sem hann lýsti því hvernig unglingar söfnuðust saman í miðbænum að kvöldlagi og keyptu sér gosglös á kaffihúsum sem síðan hækkaði í við lítinn fögnuð vertsins, hitti beint í mark hjá mér.

„Hún hló líka,“ sagði stúlkan í vandlætingarfullum tóni við sessunaut sinn og átti við samkennara minn.

„Þessir kennarar,“ sagði sessunauturinn og horfði á mig eins og gegnum gler í Þjóðminjasafninu.

Ég hunsaði skætinginn og las til enda. Leit svo upp og spurði: „Hvað varstu að tala um þversagnir? Þú veist hvað þversagnir eru, er það ekki?“

Hún hélt nú það: „Það er þegar eitthvað tvennt gengur ekki upp saman.“

„Og af hverju hélstu að það væri kannski þversagnir í textanum? Sagði einhver að þær væru þarna?“

„Nei, ég átti að leita að myndmáli. Ég var bara að fara niður listann.“

Ég leit á æpaddinn hennar og sá langan lista bókmenntahugtaka með smásmugulegum útskýringum við hvert. Eitt hugtak ef eitthvað var eins og eitthvað annað en annað hugtak ef það var eins en án einsogsins.

Ég horfði á hana bæði hryggur og hugsi.

„Fannst þér þessi texti skemmtilegur?“ spurði ég.

„Nei, hann er ömurlega leiðinlegur!“ svaraði hún af óvæntu lífsfjöri og sannfæringarmætti. „Hvað er þetta: Hvar-hafa-dagar-lífs-þíns-lit-sínum-glatað-kjaftæði? Á ég að skilja þetta?“

„Hann er að vitna í ljóð,“ sagði ég lympulega.

„Ókei. Engar þversagnir.“  Hún ýtti hugtakalistanum ofar á skjáinn með þumlinum. „Sástu einhverjar myndhverfingar?“

Ég gekk frá borðinu hennar. Þoldi eiginlega ekki við í krufningarfnyknum lengur.

Allt það besta sem hefur verið hugsað, talað og túlkað í heiminum er skipulega leitt fram fyrir börn og unglinga ... til slátrunar.

Engin ummæli: