2. mars 2013

Hinir líkblauðu menn, stjórnarskráin og Árni Páll



Formaður Samfylkingarinnar lýsti láti nýrrar stjórnarskrá í dag – en reyndi að hughreysta þjóðina með því að enn mætti tæknifrjóvga einhver afkvæmi þeirrar látnu. Dánarorsök var gefin upp sem tímaþröng. Full ástæða er til að draga þá dánarorsök í efa og fara fram á krufningu.

Það er umhugsunarefni að 25 þingmenn, þar á meðal Forsætisráðherra landsins, hafa fram á þennan dag látið sem stjórnarskrárfrumvarpið sé í fullu fjöri. Dánartilkynningin er áhugaverð í því ljósi. Þessir þingmenn virðast annaðhvort ekki hafa vitað af látinu eða eru svona líkblauðir. Þeir vissu sem var að sá sem segði frá látinu bæri athafnaskyldu eins og sá sem dró morðvopnið úr myrtum mönnum á þjóðveldisöld.

Raunveruleg dánarorsök stjórnarskrármálsins er sú að þingmenn stjórnarinnar telja að með því að „þröngva“ málinu í gegn þá gerist þeir sekir um andlýðræðisleg vinnubrögð. Þeir telja slíka afgreiðslu til marks um ofbeldi og kúgun. Nær væri að leita sátta. Þeir telja að stjórnarskrá sem þrýst væri gegnum þingið á lokasprettinum stæði berskjölduð og yrði líklega aldrei staðfest því andstæðingar skrárinnar myndu troða hana í duftið næðu þeir meirihluta.

Árni Páll hefði eins getað skráð nauðsynleg háttvísi sem dánarorsök á vottorðið.

Auðvitað á ekki að ástunda ofbeldi, þvingun og kúgun inni á Alþingi. Ég myndi meira að segja fagna nokkuð innilega ef snautleg örlög stjórnarskrárinnar væru til marks um betri vinnubrögð og andstyggð á yfirgangi.



En ég fagna ekki.

Því ég er veit að málalokin eru ekki að neinu leyti tilkomin af því að þingheimur sé hættur að láta yfirgang stýra ferð mála.

Hin opinbera dánarorsök sjálf afhjúpar það.

Tímahrak.

Hvers vegna er tímahrak á Alþingi?

Hvers vegna hefur Alþingi verið næstum óstarfhæft í meira en ár?

Jú, vegna þess að þar hefur minnihlutinn brugðist við hverju einasta máli sem hann er ósammála með gegndarlausu málþófi. Menn hafa staðið vaktir við að tefja málin. Framsóknar- og Sjálfstæðismenn hafa beitt öllum aðferðum til að halda aftur af öllum málum sem þeim eru andstyggileg.

Dauði hinnar nýju stjórnarskrár er ekki merki um sigur á yfirgangi og átroðningi. Þvert á móti er hann hin endanlega sönnun þess að íslensk stjórnmál munu ævinlega, svo lengi sem þau fá að vera einkaeign atvinnustjórnmálastéttarinnar í landinu, vera í grunni sínum andlýðræðisleg hagsmunagæsla þar sem sá sterkari beitir bolabrögðum gegn þeim veika sem á móti beitir því nákvæmlega sama.

Endalaust málþóf er yfirgangur – ekki lýðræðisleg dyggð. Dauði stjórnarskrárinnar er um leið dauði þess sem henni var fórnað til að bjarga.

Þar sem við stöndum yfir moldum stjórnarskrárinnar, sem samin var í nánara samstarfi við þjóðina en nokkuð annað sem Alþingi hefur haft til meðferðar – og staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu, er bara eitt eftir.

Þeir þingmenn sem ekki treystu sér til að lýsa yfir stuðningi við skrána þrátt fyrir ítrekuð tilmæli þurfa að gera grein fyrir afstöðu sinni.

Svo við getum myndað okkur afstöðu til þeirra nú þegar þeir fara flestir fram á endurnýjaðan stuðning.

Og til að útiloka að morðið á skránni hafi verið insæd djob.

Engin ummæli: