24. febrúar 2013

Rollur eða börn: Raunveruleikinn á bak við „kristniályktun“ Sjálfstæðisflokksins
Um hálf ellefu í morgun kom fundarstjóri á landsfundi Sjálfstæðisflokks þeim skilaboðum til fulltrúa í Allsherjar- og menntamálanefnd að mæta til fundar klukkan ellefu. Um svipað leyti var afgreidd ályktun landsfundar um málefni nefndarinnar fjarlægð af vef flokksins. Ástæðan var sú að flokkurinn gerir sér fyllilega grein fyrir því þvílík hneisa það var að leyfa þessu að gerast:„Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við.“

Þetta risastökk aftur í tímann stefndi í að verða klúður ársins hjá flokknum. Verra en nokkur netlögga. Áður en dagur rennur verður búið að koma ályktuninni fyrir kattarnef.

En hvernig gat þetta gerst?Jú, auðvitað eru aðilar innan flokksins sem trúa því heilshugar að þessi viðbót sé til mikils sóma og sjálfsögð brjóstvörn fyrir kirkjuna, sem sætt hefur mátt árásum og háði. En mikill meirihluti flokksmanna sér auðvitað að svona ákvæði er ekki við hæfi. 

Hvernig gat þá stærsti stjórnmálaflokkur landsins leyft því að gerast að skoðanir harðsnúins minnihluta kæmust með umdeilanlegum hætti inn í ályktun landsfundar?

Svarið er eiginlega jafn óhuggulegt og ályktunin sjálf. 

Þetta gerðist vegna þess að í huga landsfundarfulltrúa flokksins skipta menntamálin litlu sem engu. Salurinn tæmdist þegar þau voru afgreidd. Tæmdist af öllum nema harðsnúnu liði trúmanna og nokkrum ungliðum sem vaka yfir öllu eins og ofvirkir hvolpar. Öðrum fannst þetta ekki koma sér við.

Samt voru í ályktun fundarins um menntamál mörg umdeilanleg mál. Endurvekja á inntökupróf í framhaldsskóla, gera tilraun til styttingar framhaldsskólans, fjölga sérskólum, fella burt nærri helminginn af kennaranámi og margt fleira. Ekkert af þessu er óumdeilanlegt. Sumt af þessu er gríðarlega óskynsamlegt.

Samt nennti landsfundurinn ekki að takast á um þetta. Þetta flaut bara í gegn og var afgreitt sjálfkrafa af þessum fáu hræðum sem sátu og biðu eftir því að geta klínt kirkjunni inn í dæmið.

Þegar efnahagsmál voru til umræðu, svo málið sé sett í samhengi, var stappfullur salur af fólki sem tókst á í gríðarlegum ham. Hvert andlitið á fætur öðru, brúnað af slímsetu fyrir framan sjónvarpsvélarnar, kom upp til að tala af innlifun og sannfæringu. Þegar landbúnaðarmál voru til umræðu voru gríðarleg átök í þéttsetnum sal. Ákafinn var svo mikill að einum var nóg boðið þegar búið var að hallmæla lausagöngu búfjár einum of mikið í hans viðkvæmu eyru. Hann kvaddi sér hljóðs og sagði af titrandi tilfinningaþrunga: „Ég harma það að hér séu öfgamenn sem vilja ekkert annað en dýraníð gegn okkar góðu...bragðgóðu sauðkind.“

Rollur framkalla ástríðufuna, átök og vígaferli í ranni stærsta stjórnmálaafls á Íslandi. Skólamál eru skilin eftir í lúkunum á fólki sem heldur að sunnudagaskóli sé fyrsta skólastigið.

Ég þarf varla að undirstrika fyrir sæmilega læsum og hugsandi tilheyrendum hve hættuleg þessi staða er. Flokkurinn sem líklega er að fara að stjórna skólamálum næstu fjögur ár og bíður í tilhlökkun eftir því að vekja upp frá dauðum stýrandi, stöðluð samræmd próf og vaða með sveðjuna á nám kennara – nennir ekki einu sinni að hafa skiptar skoðanir. Nennir ekki einu sinni að taka umræðu. Hefur meiri ástríðu fyrir því þegar rollur naga birkitré en því að skólakerfið stendur í björtu báli.

1 ummæli:

Einar Jón sagði...

Eru til einhverjar tölur um atkvæðafjölda í þessari kosningu, til samanburðar við þessi rúmlega 1000 atkvæði sem voru í kjöri formanns og varaformanns?