25. febrúar 2013

Þorvaldur Þorsteinsson



Ég sat á fundi á fimmtudaginn ásamt góðu fólki. Við vorum að skipuleggja lítið verkefni sem ætlað er að undirstrika mikilvægi sköpunar hjá ungu fólki. Þá var mér hugsað til Þorvaldar Þorsteinssonar. Við ræddum hann örlítið á fundinum.

Tveim dögum seinna var hann dáinn. 

Leiðir okkar lágu örstutt saman í tvígang. Seinna skiptið var þegar ég var nýbyrjaður að vinna í Norðlingaskóla og hann var með námskeið fyrir okkur kennarana. Hann lét okkur rissa upp smásögur í huganum. Mín hófst þannig að gamall maður gekk fram á ryðgaðan bíl í miðri órækt. Þegar hann gægðist í vélarrýmið var þar böggull. Inn í hann var vafin gömul, snjáð ljósmynd af stúlku sem hann elskaði fyrir óralöngu síðan. 

Ég man þetta í smáatriðum þótt það sé nærri hálfur áratugur síðan. Leiftur sköpunar skilur eftir sig langvarandi skuggamynd. 

Þorvaldur var svona leiftur.

Hann kom ekki í skóla til að segja hvaða tæki og tól hentuðu eða hvernig ætti að gera hlutina. Hann kom til að minna okkur á til hvers við værum að þessu. 

Engir menn eru skólafólki dýrmætari.

Engin ummæli: