23. febrúar 2013

Ef þefurinn af völdum gerir þetta, hvað gera þá alvöru völd?



Ég hef verið að kíkja af og til á beinar útsendingar frá landsfundum Vg og Sjálfstæðisflokks um helgina. Mér dámar eiginlega ekki.

Ég þekki fullt af góðu fólki í Sjálfstæðisflokknum. Fólk sem ég myndi treysta til að ráðstafa mínum málum og annarra án minnsta hiks. Þetta er upp til hópa heiðarlegt, harðduglegt fólk.

Eitthvað er samt verulega mikið að bila í Sjálfstæðisflokknum þessa dagana.

Það er eins og ákveðin öfl í flokknum hafi ofmetnast og láti nú stýrast af óbilgirni og hroka.

Ég hef, eins og flestir, greint stöðuna þannig að óhugsandi sé að mynda stjórn eftir kosningar án aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Nái hann 35% eða svo er eiginlega borðleggjandi að hann myndi stjórn með Framsókn og annað hvort Samfylkingu eða Bf ef upp á vantar. Önnur stjórnarmynstur eru ólíklegri.

Eða voru ólíklegri.

Af einhverjum ástæðum virðist Bjarni Ben líta sem svo á að hann sé herforingi í stríði á milli Sjálfstæðisflokksins og hinna, sem hann lítur á sem svín. Hann virðist trúa því að hann sé mikill endurreisnarforingi sem hafi tekið við flokknum niðurlægðum og með rifinn skjöld og sé nú tilbúinn með atgeirinn á lofti.

Hrokinn og skotgrafarstemmningin sem lekur af Sjálfstæðisflokknum þessa dagana er kolvitlaust viðbragð. Klókur leiðtogi hefði komið fram fullur auðmýktar og hógværðar. Í stað þess láta menn eins og þeir séu búnir að vinna.

Þetta virðist vera næstum ósjálfrátt viðbragð við niðurlægingu Jóhönnu og Steingríms síðustu vikurnar. Innrætið er bara ekki geðslegra en þetta.

Sjálfur hef ég gagnrýnt Jóhönnu og Steingrím harðlega síðustu ár, að ég tel réttilega. Margt í vinnubrögðum þeirra átel ég harkalega og sumt það versta er þráðbein orsök þess hvernig á endanum fór. En ég, eins og flest fólk, sé hvenær einhver er komin á hnén og búinn að gefast upp. Mín eðlislægu viðbrögð við því eru að sýna mína mannlegu reisn með því að virða þeirra.

Harðsnúinn hópur í forystu Sjálfstæðisflokksins hefur aðrar hugmyndir. Reisn skal víkja fyrir yfirburðum; virðing fyrir maklegum málagjöldum.

Fyrstu kynni Sjálfstæðisflokksins undir forystu Bjarna Ben af völdum gera mig uggandi. Það er eitthvað ógeðfellt við hugarfarið og heimsmyndina. Landsfundurinn hefur reynst suðupottur heiftar og afturhalds.

Ég trúi ekki öðru en að fleiri en ég taki eftir þessu. Ég trúi heldur ekki öðru en að það hafi áhrif á fylgið.

Það er einn dagur eftir af landsþingi Sjálfstæðismanna. Ég skora á þá Sjálfstæðismenn sem eitthvað mark taka á skoðunum mínum að reyna að ná flokknum aftur frá þeim sem búnir eru að klófesta hann. Ekki vegna þess að annars komist þeir ekki til valda – heldur einmitt vegna þess sem gerist ef þeir komast til valda.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Sammála. Þetta stefnir rakreiðis í óefni.