26. febrúar 2013

Ábyrgðarlaust hjal um stjórnarmyndun

Upp á síðkastið hafa pólitískir spunamenn reynt að mála þá mynd af hinu pólitíska landslagi að við stöndum frammi fyrir aðeins tveim valkostum. Að kjósa til hægri eða vinstri. Atkvæði greitt D eða B sé til hægri og V, A og S til vinstri.

Þetta er ekki rétt.

Í fyrsta lagi bendir ekkert til þess að öruggt sé að D og B geti myndað stöðuga ríkisstjórn eins og fylgið hefur dreifst að undanförnu. Þeir gætu slefað yfir 50% fylgi en ekki mikið meira en það. Ég verð frá mér numinn af furðu ef landsfundur D mun ekki minnka fylgi þeirra á næstunni.

Ekkert bendir til þess að A, S og V séu nálægt því að ná 50% hvað þá meira.

Og þaðan kemur þessi spuni. Því þótt fylgið nái ekki helmingi þá er þar mikill vilji til samstarfs eftir kosningar.

Nýlega var gerð könnun á viðhorfum flokksmanna í öllum þessum flokkum til oddvita flokkanna. Þar var eitt og annað athyglisvert. Langvinsælasti leiðtoginn er Katrín Jakobsdóttir. Meira að segja fjölmargir Sjálfstæðismenn treysta henni þótt enginn Vg-liði treysti Bjarna Ben.

V er samt ekki alveg afhuga samstarfi við D eins og kom í ljós á landsfundinum.

Ef við leikum okkur, án allrar ábyrgðar, að þeim niðurstöðum sem birtust í þessari könnun og látum traust venjulegra flokksmanna tákna vilja viðkomandi flokks til samstarfs við flokk oddvitans, þá er landslagið einhvernveginn svona eins og staðan er í dag:



Samband V og S er langsterkast. Síðan er greinilega mikill vilji til vinstra samstarfs. Samband D og B er ekkert óskaplega sterkt en þó sterkara en önnur tengsl þessara flokka. Samstarf milli A og D er afar ólíkleg nema eitthvað mikið komi til.

Þess utan heldur fjórflokkurinn öllu opnu. Framsókn mest að venju. 

Ef atkvæði falla eitthvað svipað og kannanir hafa gefið til kynna (sem auðvitað þarf ekki að vera, það er langt í kosningar og fleiri framboð á teikniborðinu og að leggja af stað í baráttu) þá er afar ólíklegt að kosningarnar snúist á endanum um A + S + V vs B + D. Það er miklu líklegra að þær snúist um að stofnuð verði þriggja flokka stjórn með tveim flokkum úr öðrum herbúðunum og einum úr hinum. 

Ef myndin er skoðuð er sú þriggja flokka ríkisstjórn sem virðist hafa traustust tengsl og líklega fer töluvert yfir 50% fylgi stjórn SDB. 

Hér á þó auðvitað eftir að þátta inn yfirlýsingar flokkanna um efnhags- og Evrópumál. Ef leiðin milli S og D er lokuð þá getur hreinlega opnast á DBV eða jafnvel DBA. 

SV eða SA + D eða B er afar ólíklegt enda ekki líklegt að Framsókn eða Sjálfstæðisflokkurinn telji ráðlegt að verða þriðja hjól hjá miklum vinaflokkum til vinstri.

Til að ná starfhæfri vinstri stjórn gæti þurft fjóra flokka. Það hlýtur þó að teljast afar ólíklegt stjórnarmynstur ef tekið er mið af því hve eldfimar vinstri stjórnir eru.

Áhugaleysi kjósenda á fjórflokknum hefur skapað stöðu í íslensk stjórnmál sem gerir afar erfitt að mynda hefðbundna tveggja flokka stjórn. Ef áhugaleysið breytist í hreina andúð með kjöri smáflokka eða annarra óhefðbundinna framboða getur allt gerst. En jafnvel þótt það gerist ekki þá sitja stjórnmálamennirnir uppi með þann gambít að verða líklega að vinna saman þvert á hægri-vinstri til að sópa saman því fylgi sem þarf.

Spuninn nú að valið standi milli SVA og DB er tilraun til að draga baráttuna aftur niður í hinar kunnuglegu skotgrafir íslenskrar stjórnmálasögu. 

Engin ummæli: