12. janúar 2013
Vér aumir kennarar
Laun kennara á Íslandi eru alltof lág. Samkennari minn sagði mér einu sinni frá því hvernig hann hitti fyrrum nemanda okkar í hverfissjoppunni veturinn eftir útskrift úr 10. bekk. Þar var hún á hærri launum en hann.
Það er auðvitað hættulegt að skapa ekki meiri eftirspurn eftir kennslustörfum. Innanum safnast nefnilega heilmikið af fólki sem ekkert erindi á í starfið. Ef þú býrð t.d. í fljótheitunum til lista í huganum yfir fimm eða tíu vonlausustu og vitlausustu þingmenn sem þú manst eftir eru meiri líkur en minni að töluverður hluti þeirra hafi starfað við kennslu.
Álit mjög margra á kennurum er líka afar neikvætt. Það verður ekkert horft framhjá því.
Það er samt ofsalega hættulegt að byggja sjálfsmynd sína á launum eða viðhorfum kjána. Við kennarar dettum of oft í það að vera beiskar betlikerlingar.
Nýjasta dæmi þess er texti sem rúllar núna um netið þar sem einhver (væntanlega kennari eða kennaravinur) reiknar út laun kennara ef þeir fengju barnapíulaun eða 300 krónur á tímann fyrir að „passa“ börnin.
Með einhverjum stórkostlegasta vanskilningi á reikningi sem ég hef séð verður lokaniðurstaðan sú að þessi kjör verði til þess að kennari hefði í árslaun átta milljónir, sjöhundruð fimmtíu og fimmþúsund krónur. Síðan er þessi upphæð hækkuð upp yfir 10 milljónir í einni hendningu.
Margir kennarar hafa dreift þessu á fésbókinni og enn fleiri lækað. Það væri ekki ónýtt að hafa svona laun.
Allt er þetta auðvitað vitlaust reiknað. Rétta útkoman út frá sömu forsendum eru rúmlega 4 og hálf milljón í árslaun. Það er ekki nema sjónarmun hærri upphæð en laun kennara eru nú.
Vandinn við svona áróður er sá að hann er villandi og hann er aumingjalegur. Kennarar mega ekki reka baráttu sína með blekkingum og væli. Þeir eiga að halda höfðinu háu, vera hreinskilnir og skrúfa niður í hinni alræmdu (og raunverulegu) móðgunargirni.
Ég veit um fjölmarga kennara sem vinna önnur störf með kennslu. Að hluta er það vitnisburður um önurlegt launaástand kennara – en í þessum tilfellum sem ég þekki til er það líka vitnisburður um það að menn hafa yfirgefið vinnustaðinn sinn löngu áður en vinnudeginum er lokið. Við þurfum að þora að ræða slíkt.
Er það virkilega eðlilegt að kennari geti kennt til klukkan eitt eða tvö á daginn og svo bara farið heim eða í aðra vinnu? Hér þýðir ekki að segja að kennarar vinni hvorteðer svo mikið um helgar eða kvöldin. Ég veit þeir gera það. En það gera líka þeir kennarar sem ekki hlaupa heim strax eftir kennslu.
Við eigum að ganga út frá því að kennsla sé fullt starf með aðlaðandi launum.
Við gerum það ekki nema koma hreint fram og af reisn. Væl skilar engu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli