10. janúar 2013

Internet, slakaðu á!

Ég hef mjög gaman af svörtum húmor eins og ég hef játað hér á þessari síðu nokkrum sinnum. Ég hef líka mjög gaman af háði. Ég er þeirrar skoðunar að enginn húmor eigi að vera bannaður – en ég er líka þeirrar skoðunar að margt af þeim húmor sem menn vilja banna er húmor sem höfðar aðeins til fífla.Einn svaðalegasti húmor sem ég komst í á mótunarárunum var Monty Python. Í þeim var ótrúlega mikill broddur. Í bók sem þeir gáfu út í fjárplógsskyni, The Monty Python Papperbok, var m.a. opna þar sem gert var stólpagrín að nýnasistum. Þetta var opna sem táknaði fréttabréf þjóðernissinnaðra Breta. Þar sögðu þeir hreyknir frá aumingjaskap sínum og skemmdarverkum á hégómlegan og kjánalegan hátt. Mér þótti þetta mjög fyndið og vini mínum líka, því hægri öfgamenn eru fullkomin skotmörk háðs. Það eru heilsusamlegustu viðbrögð sem ég þekki við heimsku og illsku.

Okkur fannst þetta svo fyndið að við þýddum og staðfærðum opnuna og ljósrituðum gervi-fréttabréf og skildum eftir í skólanum. Viðbrögðin voru undarleg.

Enginn sá að þetta var háð. Sú saga komst á kreik að við félagarnir værum að daðra við nasisma og ég þurfti að hlusta á játningar fólks eins og þá að bæklingurinn hefði grætt skiptinema frá útlöndum – því hann hefði ekki trúað því að „þetta“ væri „hér“ líka.

Háð er varasamt og þarf helst að vera rækilega merkt sem slíkt.

En að atburðum dagsins.

Þessa vikuna hefur verið háð stríð milli hæða í vinnunni hjá mér. Það er hrekkjavika – en reyndar aðeins hjá karlpeningnum því hrekkirnir vilja ganga of langt. Alla vikuna hafa menn komið að vinnusvæðunum sínum í rúst, búið er að sauma fyrir ermar á úlpum, ég var gripinn í gær og tjóðraður við stól í æðisgengnu mannráni og svo mætti lengi telja.

Einn brandarinn var sá að mín hæð, undir forystu minni, opnaði bloggsíðu þar sem við gerðum þrjár færslur fyrir hönd íþróttateymisins (sem gengið hefur hvað vasklegast fram í vikunni). Þessar færslur ætluðum við svo að tengja á frá síðu starfsmanna skólans á Feisbúkk og skammast yfir því hve þeir væru ömurlegir.

Færslurnar voru allar fáránlega heimskulegar og áttu að hæðast að þeim bjánalega málstað sem útlitsdýrkandi kjánar boða linnulaust í okkar eyru. Fátt þoli ég raunar verr en endalausar megrunarfréttir og fitufordóma.

Við létum einn kennarann tuða um að kvennasport væri lélegra en karlasport. Einn var með svo heiftarlega fitufordóma að hann vildi lokka feit börn í ísbúðir bara til að láta þau labba heim og setja rafstuð á ísskápa. Sá þriðji var hugfanginn af erótískum áhrifum dans.

Og þá gekk internetið af göflunum.

Það er lögmál að ekkert ferðast hraðar á internetinu en vanþóknun. Skrifaðu eitthvað merkilegt, eitthvað sem skiptir einhverju máli og gefur lífinu gildi – og það silast áfram á netinu frá einum sérvitringi til þess næsta og eftir mánuð eru kannski 300 manns búnir að lesa það. Gefðu netmúgnum eitthvað til að ráðast á og það verða komnir þúsund eftir klukkutíma.

Á meðan ég var í sundi með soninn í kvöld flaug færslan um feitu börnin um netið og hlaut almenna fordæmingu. Kennaragreyið – sem ekkert hafði með færsluna að gera var hundeltur, úthrópaður og níddur – algjörlega samviskulaust. Þeir sem vita hvað ég er að tala um kannast vafalaust við athugasemdir eins og þessar: „Ég vona að hann eigi ekki börn,“„Þessi má ekki koma nálægt börnum.“ Og svo framvegis og framvegis.

Fólk sem þekkti til hans benti jafnvel þeim sem hæst létu á að hann væri saklaus. Og fékk þessi svör: „En samt, fordómarnir eru svo gígantískir að þetta á erindi áfram.“ Og svo hékk þetta inni þar sem gestir og gangandi réðust að persónu manns, sem ekkert hafði sér til saka unnið annað en að vera óheppinn með vinnufélaga.

Ekki veit ég hvernig færslan fékk svona mikla útbreiðslu svona hratt nema vegna þess að hún var knúin áfram af heiftareldi múgsins, sem þegar var búinn að brýna kvíslarnar til að pota barnaníðinga út úr skotum.

Auðvitað var færslan yfirgengilega heimskuleg. Það var háðið! Í mínum augum átti að vera útilokað að lesa hana öðruvísi en svo að um væri að ræða fullkomið háð þar sem skotmarkið var fíflin sem hafa svona viðhorf til samborgaranna.

En ég var greinilega búinn að gleyma að fólk veit ekki að háð er háð nema umbúðirnar séu þannig merktar.

Mér fannst raunar, og þykir enn, færslan nokkuð fyndin. Ekki vegna þess að ég hafi gaman af að hlæja að feitum börnum. Heldur vegna þess að ég hef gaman af að hlæja að fordómafullum hálfvitum.

Ég vil því að það komi skýrt fram að umræddur íþróttakennari hafði nákvæmlega ekkert með færsluna að gera. Ég skal taka á mig alla ábyrgð. Líka á ofsadreifingu háðblinda múgsins (þótt ég hafi ekki deilt færslunni með neinum). Og nú hafið þið andlit til að ráðast á í alvöru. Ég get samt trúað ykkur fyrir því að fáir hatast meira við útlitsfordóma en ég. Og ég er góður við börnin mín og önnur börn. Ég byggi upp persónur í minni vinnu sem ég vona að hafi styrk til að takast á við hindranir lífsins, meðal annars vegna þess að ég hef sýnt þeim virðingu og aukið trú þeirra á sjálfa sig.

Ég er líka með eitursvartan húmor og háðskur úr hófi fram. Nú fór það of langt. Ég biðst afsökunar á því.

1 ummæli:

Adalheidur Johannsdottir sagði...

Mikið er ég ánægð að hafa ekki tapa Monty Python húmornum í internetheift :) Ég var reyndar farin að efast um að þetta væri grín því fésið var orðið rautt af reiði og þessa dagana er auðvelt að sannfæra mann um að ALLIR hafi eitthvað illt í pokahorninu...en með smá rannsóknarleiðangri á google mátti nú komast að ýmsu varðandi bloggfærslurnar og "sannreyna" það fyrir öðrum að það væri engin alvara í þessu ;)

Góður djókur fyrir eitursvartan húmoristan mig!!