26. janúar 2013

Að fá ekki það sem menn keyptu

Vinstri sinnaðir spekingar hamast þessi misserin við að mála þá mynd af vinstri væng stjórnmálanna að hér hafi setið frábærlega góð félagshyggjustjórn sem helst hafi liðið fyrir það að fólk í róttækasta anga stjórnarflokkanna hafi ekki þolað raunveruleg stjórnmál. Þannig skýra menn fáheyrða fækkun í liði VG á stjórnartímanum. Allt fólkið sem hvarf á braut var ófært um að stunda „eðlileg“ stjórnmál.

Sömu spekingar hnussa svo af vandlætingu þegar fréttist í könnunum að meira en þriðji hver kjósandi geti aftur hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Sú ósvinna er útskýrð með því að þjóðin sé heimsk og hafi gullfiskaminni.

Mig langar því að hafa þetta afar einfalt:

Þjóðin er ekki heimsk. Þjóðin man ágætlega. Það er henni ekkert sérstakt fagnaðarefni að vera farin að sjá aftur bláan blæ á væntanlegum atkvæðaseðlum. Raunveruleikinn er einfaldlega sá að það sem þjóðin „keypti“ í síðustu kosningum reyndist svikin vara.

Þjóðin valdi uppgjör og róttækni í síðustu kosningum. VG hlaut helmingi fleiri atkvæði en nokkru sinni fyrr. Samfylkingin hélt velli því hún hafði ýtt forystukonu til hliðar (sem helst hafði unnið sér það til frægðar í hruninu að segja þjóðinni að hún þekkti sig ekki sjálfa) og í staðinn kom óhlýðnasti, ósveigjanlegasti og róttækasti kratinn á ratsjánni, Jóhanna Sigurðardóttir. Konan sem einmitt hafði ævinlega fengið þá meðferð sem síðustu mánuði hefur verið beitt á alla sem sem kysst hafa vinstristjórnina bless.

Þjóðin valdi róttækni. Fólkið sem hafði sagst tilbúið að henda AGS úr landi og standa uppi í hárinu á Bretum og Hollendingum. Fólkið sem hafði sett miðið á verðtrygginguna. Fólkið sem þorði að gera hlutina öðruvísi.

Vinstri stjórnin varð hugleysinu að bráð. Öll kokhreysti hvarf. Allt snerist um að halda sjó, vagga ekki bátnum. Bissness as júsjúal.


Um helgina kvaddi Hjörleifur Guttormsson VG. Á sama tíma stóð formaður VG digurbarkalegur í ráðstefnusal í Noregi og réttlætti olíudrauma Íslendinga. Allir vita samt að VG verður farinn að tala gegn olíu korteri eftir að flokknum verður sparkað úr stjórn. Sá eini úr framvarðarsveit þeirra sem hefði getað gert það sæmilega kinnroðalaust eftir það sem á undan er gengið er ... einmitt, Hjörleifur Guttormsson.


Félagshyggjustjórnin hefur ekkert markvert gert í heilbrigðismálum, menntamálum, umhverfismálum eða neinum málum sem teljast til grundvallarmála slíkra stjórna. Þar logar allt í deilum og óefnum.

Róttæknin sem kosin var á þing í síðustu kosningum reyndist engin róttækni.

Hún reyndist gamaldags íslensk framsóknarmennska. Í bland við alla forina og ógeðið og viðbjóðið sem einkennir öll störf Alþingis. Þar hefur ekkert lagast. Hver einasta atkvæðagreiðsla í þinginu er eins og myndlíkingaratriði í kynfræðslumyndinni Fáðu já, sem á að kenna drengjum muninn á kynlífi og ofbeldi. Fólkið sem stjórnar landinu þekkir sannarlega ekki muninn á þingstörfum og ofbeldi.

Það má vel vera að í efnahagsmálum hafi ekki verið hægt stjórna landinu mikið betur í kjölfar hruns. Vandinn er að þjóðin hefur barasta ekki lengur nokkra trú á því að það hefði verið gert mikið verr þótt aðrir flokkar hefðu séð um það. Þjóðin getur samt ekki verið viss.

Það sem hún getur verið viss um er að hún fékk ekki það sem hún keypti.

Þess vegna verður eitthvað annað keypt næst.

Það að hunsa öll merki eigin ábyrgðar, eins og margir vinstri sinnaðir spekingar gera núna, og skrifa uppgang gamla, gjörspillta Sjálfstæðisflokksins á reikning þjóðarinnar – er blinda af verstu sort. Hroki fjórflokksins í hnotskurn.



1 ummæli:

Unknown sagði...

Flottur pistill, en ég geri þó athugasemd við kinnroðaleysi Hjörleifs Guttormssonar.

http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/01/11/fyrsti-oliumalaradherrann-vildi-gera-island-ad-oliuriki-en-berst-nu-hart-gegn-thvi-hjorleifur-og-oliuaevintyrid/