5. janúar 2013

Tækni og tilgangur

Grunnskólinn hefur margvísleg hlutverk. Þessi hlutverk þættast saman í flókna heild. Honum er ætlað að efla margvíslega hæfni, stuðla að tilteknum viðhorfum og standa gegn öðrum, miðla þekkingu og vera vettvangur mannræktar. Enn mætti telja allskonar félagsleg hlutverk. Eitt þeirra er daggæsla og stuðningur við vinnumarkað.

Ég ætla hér að beina sjónum að þremur þáttum sérstaklega. Ekki vegna þess að þeir séu endilega þeir mikilvægustu heldur aðeins vegna þess að á milli þeirra eru átakafletir í skólastefnu sem ástæða er til að skoða núna.

Með einum eða öðrum hætti skulu allir skólar stuðla að því að nemendur búi yfir...

viðhorfum     þekkingu      hæfni

Ég fullyrði að í skólkerfinu sé ægileg og skaðleg slagsíða á hlutfallslegu vægi þessara þriggja þátta. Of mikil áhersla er lögð á þekkingu. Þessi ofuráhersla vinnur síðan gegn sjálfri sér og viðheldur gamaldags og úreltum kennsluháttum og námsefni.

Ég teldi best að þessir þrír þættir nytu svo gott sem jafnræðis í skólastarfi – og útskýri það kannski nánar í þessum pistli þótt marga þyrfti til að gera því góð skil.

Fyrst langar mig að nefna tvennt sem mælir gegn því að of mikil áhersla sé lögð á þekkingarmiðlun í grunnskóla.



Í fyrsta lagi, og ég veit ekki hversu rótttæk sú hugmynd er, þá er ég sannfærður um að hugmyndin um sameiginlega, staðlaða grunnþekkingu sé í besta falli mýta en að öllum líkindum hrapalegur misskilningur. Hún er í raun álíka marktæk og hugmyndir um manneldi og staðlaðar, almennar neysluvenjur. Fyrir fáum áratugum voru matarvenjur Íslendinga næsta almennar. Hefðbundinn, íslenskur heimilismatur var eitthvað sem allir þekktu og áttu auðvelt með að meðtaka sem næsta almennan veruleika. Upp á síðkastið eiga allar slíkar hugmyndir í verulegum vandræðum. Ekki aðeins vegna þess að hefðbundinn, íslenskur heimilismatur hefur reynst hálfgert hrat (sem nostalgían ein blæs lífsanda í á tuttugustu og fyrstu öldinni) heldur fyrst og fremst vegna þess að fjölbreytnin hefur aukist og valdið því að til eru margir hópar með mismunandi matarmenningu. Vissulega eru þeir mis stórir – og mis eftirsóknarverðir en staðreyndin er sú að það sem við opnun íslenkrar matarmenningar var fæðuhringur er nú tré sem sprettur í allar áttir og þar sem áður átti að vera þriðjungur er nú orðið sjöttuhluti og það sem áður átti að vera kjöt eða fiskur má nú vera baunir og hnetur.







Þekkingarforði Íslendinga hefur ekki tekið minni hamförum en matarforðinn. Börn sem áður hlupu um með öskutunnulok og þóttust vera Gunnar eða Skarphéðinn hafa nú úr hundruðum misnærtækra fyrirmynda að velja. Áhugasvið fullorðinna Íslendinga hefur aldrei spannað víðara svið. Vinnufélagi minn byrjar hvern morgun á að grannskoða og gaumgæfa tölfræði í bandarískum körfubolta, sumir nemenda minna vita allt um dr. Who (sem ég hef aldrei getað séð sem neitt annað en Leiðarljós klætt í ryksugubarka og blikkdósir), fleiri en ein kerling í fésbókarvinahóp mínum stunda sjálfsnám í fágætu prjónamynstri með aðstoð myndbanda á netinu og bróðir minn tilheyrir þeim undarlega, trúarhóp sem kann að hella hinum fullkomna Guinness.



Þeir sem halda að þekking sé stöðluð hafa í raun aðeins tvær leiðir til að réttlæta þá hugmynd. Önnur er sú að vísa til sögunnar sem einhvers þekkingarkjarna sem hefur óviðjafnanlegt mikilvægi. Hin er að vilja takmarka grunnskólann við stofn trésins en hunsa greinarnar.

Ég hef fyrir því margvíslegar sannanir að margir kennarar átti sig ekki á því að þeir eru í raun tímahylki af holdi og blóði sem stunda það að kenna börnum um veröld sem var. Eru í raun aðeins að endurtaka þá kennslu sem þeir sátu undir sem börn sem að stórum hluta var kennslan sem kennarar þeirra þurftu að þola kynslóð áður. Kennsluefni í landafræði einblínir enn á leirkofa og HIV í Afríku og hrísgrjón og fjöldaframleidd raftæki í Asíu. Ef marka má nýjasta námsefnið í því fagi er ekki enn búið að finna upp internetið. Íslenska Wikipedia lýsir S-Kóreu í þremur línum. Þar af er tæpur þriðjungur málfræði. Enska Wikipedíufærslan um Gangnam Style er tæplega 20 þúsund orð, tæplega tvöfalt lengri en stysta Íslendingasagan.



Það leiðir okkur að næstu röksemd. Það er löngu tímabært að breyta afstöðu okkar til upplýsinga. Að mörgu leyti erum við enn eins og afdalabændur sem geymt hafa ögn af regnvatni í emaleraðri þvottaskál sem þeir ætla nú að reyna að láta rúma allt hafið.

Bækur minnkuðu þörfina á að binda málið. Bragarháttur er ekki aðeins sport. Hann er líka ákveðin trygging gegn afbökun og gleymsku. Það þarf enginn að muna hvert er fimmtánda orðið í þriðja kafla Njálu. Bækur gerðu okkur kleift að njóta og nærast. Nema úr bókunum þemu, hugrenningar og tengsl og máta við ýmislegt annað í reynsluheiminum. Það tekur álíka mikið pláss í mannsheila að muna ómerkilega tilvitnun orðrétta og að muna merkileg tengsl margra hugmynda. Þegar maður hefur skilið hugmynd getur maður gleymt því hvernig hún var framreidd.

Sá sem aðeins er vanur að sulla í litlu vaskafati á lítið erindi á sjó. Sá sem aðeins týnir þara og skel fær seint skötusel á diskinn. Til að geta sótt á miðinn þarf maður að þola sjálfum sér það að hætta að velkja hverjum dropa í hendi sér. Þegar það tekur örfáar sekúndur að fletta upp öllum höfðuborgum Evrópu, forsetum Íslands eða frumtölum undir milljón – þá er arfafráleitt að sóa orku og plássi í að gera nákvæmlega þær upplýsingar að inntaki grunnnáms. Inntakið á miklu frekar að vera tilgangur þess að þessar upplýsingar séu sóttar auk sæmilegrar ratvísi að þeim – þegar þörf er á þeim.




Nöfn forseta Íslands eru ekki nauðsynlegur staðalbúnaður hvers Íslendings. Það eru samt ótal leiðir að merkilngarbæru námi þar sem minningar um nöfnin geta orðið áhugaverðar aukaafurðir. Gaman væri að skoða sögu forsetakosninga út frá þeim forsendum sem giltu í hverju kjöri og þeim átökum sem kosningarnar voru gjarnar á að kristalla. Það mætti skoða forsetaímyndina út frá portrettljósmyndun eða hlutverkum kynjanna. Það má gera svo ótal margt. Aðalatriðið er að gefa þekkingunni rætur í stað þess að planta henni rótlausri í mold.

Hæfni til þekkingaröflunar er mun mikilvægari í sjálfri sér en einber mótttækileiki þekkingar. Það er óskaplega lítils virði að efla mjög hæfni nemenda til að meðtaka það sem þeim er sagt. Í raun og sann er það álíka mikilvægt og að kenna einhverjum góða borðsiði í stað þess að kenna veiðar eða ræktun. Menn mega ekki vera upp á aðra komnir þegar kemur að öflun þekkingar í samfélagi sem hefur unnið það afrek sem of fáir gera sér grein fyrir. Aðgengi venjulegs manns að upplýsingum er í dag stjarnfræðilega mikið meira en það var fyrir hálfri öld. Og hér er ég ekki að nota orðið „stjarnfræðilega“ sem klisju. Ég er raunverulega að meina að umfang þeirra upplýsinga sem mér standa til boða eigi engan náttúrulegan samjöfnuð sem er meira viðeigandi en óravíddir stjörnugeimsins og hinn gríðarlegi fjöldi fyrirbæra sem þar finnast.



Með berum augum sjást um 2500 stjörnur á næturhimninum. Það tekur Google þriðjung úr sekúndu að finna tæplega 120 þúsund tilvísanir í Ástþór Magnússon. Á síðasta eða þarsíðasta ári rann líklega upp sú stund þegar fjöldi mynda á internetinu varð meiri en fjöldi stjarna í Vetrarbrautinni. Fyrir rúmu ári stóðu tveir menn fyrir námskeiði við sýndarháskóla í Kísildal í BNA sem kennt var 160 þúsund nemendum í einu.

Jafnvel þótt við gætum komið okkur saman um takmarkaða grunnfærni og -þekkingu þá er alveg ljóst að það löngu tímabært að gjörbreyta þeim leiðum sem kennarar kjósa fyrir nemendur sína.

Segjum að viðurkennt og samþykkt markmið sé að íslensk skólabörn læri hvenær á að setja stóran staf og hvenær lítinn í orð. Fyrst og fremst sé hugsað um íslenskt nám en að loknu grunnnámi eigi valdir nemendur að læra hið sama fyrir önnur tungumál og afbrigði, t.d. nafnorð í þýsku eða fyrsti stafur í hverri línu í hefðbundinni enskri ljóðagerð. Dettur einhverjum í hug að besta kennsluaðferðin sé sú að kennarar safni 25 börnum í hóp sem eiga fæðingarárið sameiginlegt og þylji yfir þeim reglur og láti þau síðan vinna verkefni í námsbækur og taka skrifleg próf?

Hvort skyldi í alvöru vera erfiðara. Að læra hvar á að setja stóran staf og hvar lítinn eða læra hvert á að skjóta hvítum fugli og hvert rauðum í tíu mismunandi borðum í Angry Birds?


Upp að því marki sem grunnþekking er raunverulegt fyrirbæri þá myndi innræting hennar ganga hraðast fyrir sig með gjörbreyttum kennsluaðferðum sem taka mið af nýjustu tækni. Þess er skamms að bíða að nógu góð forrit séu til fyrir íslenskt mál að þau verði að minnsta kosti jafn örugg við villuleit í texta og kennari af holdi og blóði. Forritin mun auk þess vinna sína vinnu á sekúndubroti meðan kennarinn bograr yfir stílum við eldhúsborðið um helgar. Auk þess má þátta slík forrit við önnur forrit sem greina skrift nemandans nánar og keyra hliðarforrit eftir því sem þörf er á. Þannig gæti kennslubók í íslensku á unglingastigi hreinlega verið forrit sem kveikt er á og spjallar við þig. Það getur heilsað þér og talað við þig (og textinn sést jafnóðum á skjánum). Þegar þú skrifaðir inn þín svör gæti það greint villur eftir mikilvægi og viðbrögð þín við leiðbeiningum. Þannig gæti hver einasti einstaklingur verið leiddur sína leið að þeirri grunnfærni í stafsetningu sem ákveðin er.

Mennskur kennari mun á næstu árum steingervast ef hann ætlar sér hlutverk sem tæknin er bæði betri og hraðvirkari en hann að inna af hendi. Hann hefur því tvo kosti. 

Annar er að reyna að halda aftur af tækninni, tortryggja hana og gera útlæga.



Hin er að nýta hana og taka sjálfum sér verðugra hlutverk. Að leiðbeina nemandanum um inntak, stílbrögð, viðhorf. Eitthvað sem skiptir raunverulega máli. Tæknin á auðvelt með réttritun. Hún á erfiðara með stílbrögð og unað.

Ég hugsa stundum til þess hvað myndi gerast ef hefðbundinn skóli fengi nemendur sem væru fyllilega mótttækilegir. Ekkert þyrfti að endurtaka. Allt myndi skiljast. Í stærðfræði væru allir færir um að teikna reitatöflur og föll eftir eina kennslustund og í íslensku setti enginn „j“ á undan „i“ nema þar sem það er bráðnauðsynlegt. Ég ímynda mér svo stöðuna sem kæmi upp þegar allt námsefni væri klárað löngu fyrir áætlaðan tíma. „Hvað svo?“ gætu nemendur spurt. „Hvað eigum við að gera við þetta?“

Hvenær skyldi stærðfræðikennarinn síðast hafa teiknað upp reitatöflu í öðrum tilgangi en að æfa sig í eða sýna fram á að hann kynni að teikna reitatöflu? Hvenær skyldi íslenskukennarinn síðast hafa sest niður og skrifað eitthvað sem skiptir öllu máli?

Ég er hræddur um að hefðbundinn skóli sé enn að miklu leyti verksmiðja þar sem nemendur eru þjálfaðir í að beita verkfærum (oft slælega) sem aldrei stendur til að láta þá nota. Nemendur í röðum læra ekkert annað en á skólana og kennarana.

Ég held að flestir sem hafa kennslureynslu af háskólastigi geti tekið undir þá reynslu mína að þangað mæta nemendur eftir margra ára volk oft meira og minna algjörlega reynslulausir í því sem raunverulega skiptir máli. Það er búið að eyða óhemjutíma í að kenna einhverja vitleysu eins og þá nákvæmlega hvernig megi setja inn tilvísanir (sem tæknin ætti að vera löngu búin að útrýma sem relevant þekkingu) en þeim hefur ekkert verið boðið upp á að hugsa af viti. Þá sjaldan þeir hafa verið beðnir um að tjá sig hafa þeir sett sig í stellingar til að þóknast kennaranum og selja sig fyrir einkunn. 

Í íslenskunámi í Háskóla Íslands eru nemendur sem hafa ekkert hugboð um grundvallaratriði orðflokka. Í heimspeki eyddi ég á sínum tíma óratíma í að þvælast gegnum hreint þvaður fólks sem hélt það væri að halda röklegum þræði. Í lögfræði er aðalfallgrýlan áfangi sem fæst við einfaldar hugmyndir um eðli og tilgang laga.



Skólakerfið er úr sér gengið, gamaldags og úrelt. Á Íslandi hefur það verið of upptekið af að barma sér yfir vondum kjörum, kreppu og öðrum leiðindum til að taka eftir því að heimurinn er breyttur. Þreyttir kennarar með kreppusótt líta hikandi á möguleikana eins og hungraður flækingur á hlaðborð sem treystir sér ekki til annars en að narta hikandi í nokkra bita. Metnaður og djörfung er drepin niður í vol og væl yfir því hverjum vansæmdin sé að kenna. 

Það vantar hugrekki.

Þess vegna situr menntakerfið kyrrt á teinunum eins og ryðgaður lestarvagn á meðan samfélagið þýtur hjá.



Það vantar meira hugrekki í kennara, foreldra og nemendur.

Fyrst og fremst vantar samt pólitískt hugrekki. Stjórnendur menntamála þurfa að þora að rífa menntastofnanir sínar af stað og hætta að spila eilífa vörn. 


2 ummæli:

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Mér hefur skilist að aðalmarkmið í námskrá sé að auka þekkingu, leikni og hæfni nemenda. Er einhver frasi í námskránni um fjölga viðhorfum nemenda?

Fyrir utan þá augljósu staðreynd að ég er algerlega ósammála flestu sem stendur í þessari færslu langar mig að benda á að bragarháttur er ekki sport. Af hverju heldurðu að vinsælustu skáldin (einhvers konar topp tíu listi skálda) í upplestrarkeppni grunnskólans séu þau skáld sem yrkja rímuð ljóð? Er ekki möguleiki að krakkarnir, þótt ofurseldir séu hryllingi grunnskólakennslu ef marka má færsluna, skynji töfrana sem búa í ríminu? Ekki þurfa þau að læra kvæðin utanað því þetta er upplestur ...

Aðalatriðið sem þú skautar léttilega framhjá í þessari færslu er að til þess að GETA leitað að upplýsingum þarf að hafa einhvern grunn, einhverja grundvallarþekkingu. Hvernig á annars að meta upplýsingar, t.d. vita hvort þær séu sennilegar eða augljóslega út í bláinn?

P.s. Við erum samt sammála um stafsetningu: Mér finnst að stafsetning eigi að vera frjáls og tel engar líkur á að frjáls stafsetning skaðaði íslenska tungu á neinn hátt.

P.p.s. Hvað er reitatafla?

Steinbjorn Loga sagði...

Takk fyrir frábæra grein. Af augljósum ástæðum er ég sammála hverju orði sem þú setur þarna fram. Það er ekki bara vegna þess að ég er faðir og er annt um drengina mína inn í stöðnuðu kerfinu sem t.d. færir þeim 10 kíló af námsbókum fyrir eiðufyllingar árlega. Heldur líka vegna þess að ég er að ljúka námi sem kennari og hef þá hugsun/áhuga að taka þátt í að smíða þekkingu með nemendum með því að:
- Kalla fram, aðlagast og átta sig á (for)hugmyndum nemenda.
- Virkja nemendur og vinna með þeim að athugunum þar sem útkoman er ekki þekkt fyrirfram.
- Leitast við að viðfangsefni og vinnuferli námsins séu sem líkust raunveruleikanum.
- Við hönnun námskeiðs er gengið út frá nemandanum.
Stórum hluta skólagöngunnar hef ég verið látinn busla í vaskafati en eftir að hafa séð og reynt hafið þá verður ekki aftur snúið. Að læra er að læra að hugsa!
Takk, takk