8. janúar 2013

Barnamisnotkun: Þetta snýst ekki bara um meðvirkni



Áralöng barátta fórnarlamba barnaníðings frá Vestmannaeyjum hefur loks skilað árangri eftir að Kastljósið tók málið upp. Það þurfti raunar játningar mannsins á hljóðupptökum til. Og frekari staðfestingar í kjölfarið. Síðast þegar fjölmiðill opnaði á mál með hliðstæðum hætti leiddi það til sjálfsmorðs og mikillar heiftar í garð fjölmiðilsins.

Mál sem þessi setja þá sjálfsögðu kröfu á herðar okkar að við skoðum okkur sjálf sem samfélag – án heiftar og yfirgengilegs réttlætingarfuna sem brennur skært – en skammt. Við þurfum að skoða okkur eins og við erum í alvöru. Ekki láta nægja að vera reið og heimta hefnd.

Ég fann mikið til með fórnarlömbum þessa manns. Ég fann líka til með honum.

Margir virðast halda að það sem hafi opinberast hér í öllu sínu veldi sé meðvirkni þjóðarinnar. Hræðslan við að troða náunganum um tær. Þörfin fyrir að halda yfirborðinu ógáruðu þótt undiraldan sé mikil. Slík greining er rétt upp að vissu marki. Meðvirkni er viðvarandi vandamál sem vinna þarf gegn. Lykilatriði í því er að fá dómstóla til að vakna upp frá meðvirknifroðunni svo þeir hætti að dæma blaðamenn ítrekað seka fyrir að valda náunganum óþægindum.

En þetta snýst ekki bara um meðvirkni. Þetta snýst miklu frekar um skort á virðingu fyrir þeim smáu. Kaldlyndi og innræktaðri grimmd þar sem hjálpfýsin ætti heima.

Á okkur hefur á síðustu árum skollið flóðbylgja uppljóstrana kerfisbundins ofbeldis. Fórnarlömbin eiga það flest sameiginleg að hafa mátt sín lítils í samfélaginu. Flest voru einfaldlega fædd inn í erfiðar aðstæður. Áhugaleysi samfélagsins á að hjálpa til við að koma fólkinu til manns og smáborgarleg fordæming á yfirsjónum barna sem voru að reyna að fóta sig í andstreyminu – settu ótal manneskjur í þær aðstæður að fársjúkir eða illgjarnir menn gátu komið fram vilja sínum við þau.


Úr ferðasögu í Skinfaxa frá 1930

Við búum í samfélagi sem aldrei hefur átt í tiltakanlegum vanda við að setja manneskjur á afskriftarreikning. Fátækt og erfiðleikar kalla fram fordóma og vandlætingu hjá þeim sem telja sig æðri. Samfélag án raunverulegrar stéttarskiptingar reynir í sífellu að kljúfa sig í fylkingar – skilja milli kjarnans og hismisins.

Þegar samfélagið hefur ekki metnað fyrir að hjálpa þér að verða það mesta sem þú getur orðið þá er gapið oftar en ekki fyllt af trúræknum, velmeinandi einstaklingum eða samtökum. Menn sætta sig við það sem þeir fá. Hafa ekki mikið val. Í slíku skjóli vex ofbeldið best.

Í dag höfum við búið til menntakerfi sem tekur við hverju einasta barni og skilar því ekki aftur fyrr en eftir 13-20 ár í flestum tilfellum. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að enn í dag grasserar þar sama grimmdin og varð til þess að börnum, sem síðar urðu fórnarlömb misyndismanna, var úthýst úr samfélaginu síðustu áratugi. Ég hef oft og mörgum sinnum séð fólk kvarta yfir því grundvallaratriði Skóla án aðgreininga að „góðu“ börnin sitji uppi með þau „vondu.“ Mjög margir myndu grípa tækifærið feginshendi að koma börnunum sínum burtu frá ofvirku og óþægu börnunum sem valda endlausri truflun í því sem margir vilja að sé áreynslulaus sigling til þroska.



Þau börn sem send voru nauðug í hendur ofbeldismanna voru send vegna þess að tilvera þeirra innan um hina góðu borgara olli truflun. Strákar voru að stela sígarettum úr sjoppum og stelpur að sofa hjá. Þau voru gripin, jafnvel með valdi um hábjartan dag, og færð á stað sem „átti að vera þeim fyrir bestu.“ Staðurinn bauð upp á öryggi, festu, vinnu og uppfyllingu allra grunnþarfanna – nema einnar. Þau voru svikin um hlýju. Svikin um að mega tilheyra, skilyrðislaust og án þess að breyta sér. Svikin um væntumþykju. Þörf barnanna fyrir hlýju reyndist öflugasta leið níðingsins að þeim.

Málið er að hlýju er ekki hægt að veita nema maður sé tilbúinn að veita af henni til þeirra sem síst skyldi. Barnsins sem veldur usla í bekknum, stúlkunnar sem er að drepa mann úr gelgju og – jafnvel – mannsins sem uppvís er að kynferðisbrotum áratugi aftur í tímann.



Nám er aðgöngumiði að samfélagi. Rútumiðinn burt frá Breiðavík og öðrum afkimum sem geyma þig þar til gatan tekur við. Ísland á Evrópumet í brottfalli úr menntakerfinu. Við brjótum of mörg börn niður í stað þess að byggja þau upp. Við felum okkur á bak við kaldranalega grímur þeirra sem telja að léleg mæting eða skróp í leikfimi réttlæti það að börnum sé kastað út úr „kerfinu.“

Jafnvel níu til tíu ára börn mæta því viðhorfi að það sé þeirra að aðlagast og standa sig. Gangi það illa er oft gripið til lyfjagjafar eða refsinga. Þegar foreldrar heyra af „óþæga“ barninu í bekknum eru viðbrögðin þau að vilja óþæga barnið burt.


Ef öll þessi umræða hefur kennt okkur eitthvað þá er það þetta: Meira að segja þeir allra minnstu hafa alla möguleika til vaxtar og velmegunar. Erfiðar aðstæður geta seinkað uppskerunni og villt mönnum sýn um raunverulegt inntak manneskjunnar – en engin jurt vex í sífrera. Það þarf hlýju og nærgætni. Það þarf trú á hverja manneskju og raunverulega löngun til að hjálpa. 




Fyrst og fremst megum við ekki vera svona helvíti fljót að afskrifa fólk.

Ef við hættum að vera svona helvíti köld og hefnigjörn lagast meðvirknin af sjálfri sér. Andstaða gegn meðvirkni án aukinnar hlýju skapar ekkert nema hefnigirni og grimmd.

7 ummæli:

Hilmar sagði...

Góður pistill.

Nafnlaus sagði...

Raddir eins og þínar lyfta samfélaginu smám saman á æðra plan. Láttu hana heyrast sem mest. Það væri mikill greiði við alla.

níels a. ársælsson sagði...

Flott grein og sönn.

Harpa Jónsdóttir sagði...

Mikið óskaplega er þetta góð og þörf grein. Hafðu þökk fyrir.

Unknown sagði...

Ég tek heilshugar undir ummælin öll hér á undan.

Nafnlaus sagði...

Hafðu bestu þakkir fyrir góðann pistil. Svona hugsun lýsir upp daginn.....sem ekki er vanþörf á í skammdegi.

Bjarki sagði...

Takk Ragnar. Það of sjaldgjæft að sjá skrifað um dægurmálin út frá grundvallarmannvirðingu.