9. janúar 2013

Að gúgla sig aftur til miðalda

Harpa Hreinsdóttir virðar efasemdir um nýjustu bylgju upplýsingatækni í skólastarfi í færslu á bloggi sínu í dag. Hér er ágætt að halda því til haga að Harpa var með þeim fyrstu sem nýtti sér upplýsingatækni markvisst í íslenskri kennslu og ein af þeim fyrstu sem sneri aftur af þeirri braut. Eftir hana liggja þó enn margir góðir vefir sem nýtast í íslenskukennslu.

Kjarni athugasemdar hennar er þessi: Það er ekki endilega merkileg kennsla að láta leitarvélar svara nemendum. Leitarvélar gera ekki greinarmun á góðum upplýsingum og vondum og nemendur ekki sjálfkrafa heldur. Nemandi sem bergmálar það sem gúglið segir honum er oft furðu takmarkaður þegar kemur að málefninu sem um var spurt.

Um þetta vil ég segja eftirfarandi:

Góður kennari getur kennt nemendum vel án nokkurra hjálpargagna. Margar af bestu kennslustundum mínum hef ég átt í húsgagnalausum stofum þar sem nemendur sitja á púðum og nota ekkert annað en heilann. Upplýsingatækni er ekki (og þetta er aðalatriði) ávísun á framfarir í kennslu. Þvert á móti. Nýting hennar getur staðið kennslu fyrir þrifum, sérstaklega ef kennt er eins og ekkert hafi breyst.

Harpa segir:

Hugmyndir um að upplýsingatækni valdi eða eigi að valda gjörbyltingu í kennsluháttum eru svo sem ekki nýjar af nálinni. Í hvert sinn sem ný tækni hefur orðið almenn hafa menn ýmist jesúsað sig eða dásamað tæknina og séð fyrir sér að hér með verði hefðbundið skólastarf (í skólastofu, með kennara sem kennir og bekk/námshópi sem lærir, í kennslustund) úr sögunni. Þetta gerðist t.d. þegar sjónvarp var fundið upp. Og þegar internetið varð til. Og þegar Vefurinn varð til. Og núna er dýrðin fólgin í spjaldtölvubrúki.

Ég geri ekki meiri kröfur en svo til kennslufræði en að hún endurspegli þann veruleika sem börnunum er ætlað að tilheyra. Helst þannig að framtíð sé þar ögn umfangsmeiri en fortíð. Prófum að skipta „kennsluháttum“ út fyrir „lífshætti“ í klausunni hér að ofan.

Það er ekkert nýtt að talið sé að upplýsingatækni muni gjörbreyta lífsháttum. Þetta töldu menn bæði þegar sjónvarpið var fundið upp og internetið. Nú eru það spjaldtölvurnar.

Hljómar þetta svo kjánalega? Hefur ekki upplýsingatæknin einmitt gjörbreytt lífi okkar? Að næstum öllu leyti? Er þá virkilega rangt að ætlast til þess að menntakerfið dragi dám af því?

Spjaldtölvur eru ekkert merkilegri en aðrar tölvur að öðru leyti en því að þær eru fyrsta verulega öfluga fartæknin. Þær bjóða upp á nýja nálgun að kennslu. Nálgun sem áður var útilokuð. Eitt tæki er kvikmyndavél, bók, ljósmyndavél, hlóðupptökutæki, staðsetningartæki og fjöldamargt annað. Ég gat t.a.m. sent nemendur út í vor með tölvurnar til að rannsaka gróður og dýralíf í nágrenni skólans. Tækið gat fylgst nákvæmlega með ferðum nemendanna og gert þeim kleift að skrásetja það sem fyrir augu bar í máli og myndum – á sama tíma og þeir gátu flett upp öllu sem þeir þurftu þegar þeir þurftu á því að halda.

Upplýsingatækni kemur ekki í stað góðs kennara. Hún getur samt hjálpað góðum kennara að verða miklu betri. Hún getur aukið vald nemenda. Allt það merkilega og mikilsverða sem Harpa hefur um Snorra-Eddu að segja getur hún hæglega tekið upp og gert aðgengilegt fyrir nemendur. Þeir geta síðan horft á það eða hlustað, gert athugasemdir eða spurt spurninga, og síðan unnið með. Allt án þess að Harpa og nemendurnir hittist. Það er engin þörf á því að einhverjir tugir hittist á nákvæmlega tilteknum tíma til að nemendur sitji og hlusti, misáhugasamir, á kennara sem heldur uppi eintali í drjúgan tíma.

Og það sem meira er. Það sem Harpa hefur á þennan hátt sett út í eterinn geta miklu fleiri nálgast. Vissulega er erfitt að vita hver gæðin eru á kennslu hennar eða annarra sem útvarpa kennslu sinni – en það er þó fjandanum meira gæðaeftirlit með því sem er opið öllum en því sem fram fer í lokuðum kennslustofum þar sem kennarinn er á endanum sá eini sem metur hvernig honum tókst til m.t.t. gæða efnisins (þótt börnin fái oft að leggja í púkk um karisma kennarans og eitt og annað).

Upplýsingatækni býður líka upp á eitt sem aldrei hefur verið alminlega hægt fyrr. Hana má einstaklingsmiða. Ekki aðeins er úr sögunni að kennslubækurnar séu allar með sömu leturgerð og stærð, heldur getur forrit metið framfarir nemenda og skilning og matað af efni sem við á. Þá getur forrit veitt stöðuga hvatningu sem leiðir nemandann áfram.

Upplýsingatækni mun vonandi útrýma hefðbundnum kennsluháttum upp að því marki sem hefðbundnir kennsluhættir eru mötun eins kennara sem allir þurfa að meðtaka á sama stað og sama tíma og á sömu forsendum. Kennarar munu í framhaldinu vonandi taka sér það hlutverk sem þeim ber. Að gera það sem tæknin getur ekki. Að leiðsegja, hvetja, ræða og útskýra. Nemandinn þarf að verða virkari og valdameiri í námi og kennarinn að sætta sig við að verða rauður þráður en ekki dula.

Upplýsingatækni er ekki það að spegla bara niðurstöður út gúgli. Upplýsingatækni er fyrst og fremst sú tækni sem miðlar upplýsingum á markvissari og betri hátt.

Kennari að mala uppi við töflu yfir unglingum sem hafa það eitt til síns ágætis að geta talist sitja sæmilega kurteislega undir innrætingunni er eitthvað sem má missa sín.

Engin ummæli: