28. janúar 2013

Icesave, beint lýðræði og þeir sem mega segja af sér.

Það eru ansi margir sem hljóta að vera kindarlegir í dag. Bretar og Hollendingar töpuðu Icesave-málinu. Nokkuð sem mjög margir fullyrtu að væri útilokað. Sakfellingarhlutfall dómsins væri hærra en hjá Símoni grimma og málstaður Íslands fullur af götum og óheilindum.

Það merkilega við dóminn er að hann skapar ytra samhengi um stjórnmálasögu Íslands 2007-2013. Þetta tímabil er í raun miklu merkilegra en við höldum flest og mun vera viðfangsefni sagnfræðinga og annarra spekinga um langa hríð enn.

Eitt af því sem einkennir þetta tímabil er gegndarlaus valdabárátta og markvissar tilraunir hagsmunahópa til að hafa einkarétt á ritun sögunnar. Davíð Oddsson, smáfuglar og Ingvi Hrafn eru í góðu kompaníi við ýmsa smádjöfla við að reyna að festa það á skjöl að hér hafi ríkt vonlausasta ríkisstjórn sögunnar sem engan veginn hafi ráðið við verkefnið og siglt öllu í strand. Það eina sem hafi haldið Íslandi á floti hafi verið ákvarðanir sem ríkisstjórn G. Haarde tók undir gríðarlegri pressu og arfleiddi hina nýju ríkisstjórn að.

Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og sérstaklega ESB-aðildar Íslands reyna að halda því fram að hér hafi yfirborðið rifnað af gerspilltu undirlaginu eftir valdatíð nýfrjálshyggjunnar. Hún hafi tímabundið verið barin í duftið með mikilli vinstri sveiflu í stjórnun landsins en kraumi ævinlega undir og sýni þess skýr merki að blossa upp aftur verði slakað á klónni. Bæklun hennar hafi fylgt önnur, ekki skárri birtingarmynd – þjóðremba. Stærsta vandamálið sem fylgt hafi „endurreisninni“ sé sífelld barátta við þjóðrembuna, sem forseti Íslands og viss öfl í Sjálfstæðisflokknum hafi sameinast um. Hún geri þjóðina að leiksoppi skrumara og komi í veg fyrir eðlilegar framfarir, þ.á.m. samninga um Icesave og upptöku nýs gjaldmiðils.

Árin 2007-2013 var ég í hópi byltingarsinnaðra umbótasinna. Ég mætti á mótmælin á Austurvelli og krafðist umbóta. Ég hélt áfram að krefjast umbóta þegar „umbótasinnaðra“ fólk var komið til valda. Ég trúði því að hið augljósa gjaldþrot löggjafar- og framkvæmdavaldsins yrði til þess að það breytti verulega um starfsaðferðir og stefnu. Það gerðist ekki. Búsáhaldabyltingin var misheppnuð.

Hún varð á endanum ekki afdrifaríkari en sambærilegar sveiflur í stjórnmálum síðustu aldar. Öll merki eru uppi um að hér sé allt að renna í sama farið.

Sigurvegari tímabilsins 2007-2013 í sögubókunum verður forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson. Um það þarf ekki lengur að deila. Þeir sem hata hann í hjarta sínu og fullyrða að hann sé óður skrumari verða að sætta sig við það hlutskipti að vera afgreiddir með einu lýsingarorði. Þ.e. að forsetinn hafi verið „umdeildur“. Nokkrum dögum áður en Ísland vann, réttilega, Icesave málið, skammaði forsetinn Gordon Brown. Nokkrir hatursmenn Ólafs létu ginna sig í að sussa upphátt yfir því eins og meðvirku smáborgararnir sem þeir eru.

Gordon Brown var ömurlegur forsætisráðherra sem tók virkan þátt í að reyna að kúga Íslendinga til að greiða stórfé sem þjóðinni bar ekki. Auk þess sem hann kostaði þjóðina gríðarlegt fé þegar hann misnotaði bresk lög gegn okkur.

Mesta áhyggjuefnið í stjórnmálasögu Íslands (2007-2013) er að mínu mati þetta: Tengsl stjórnvalda og almennings eru ónýt. Allir stjórnmálaflokkar eru sekir um það sama. Þeir tala fyrir „beinu lýðræði“ en hafa samt í raun engan áhuga á því nema þeir séu ansi sannfærðir um að það henti þeim í það og það skiptið.

Til að beint lýðræði virki þarf undantekningalaust að koma til ákveðin grunnvinna. Það verður að upplýsa almenninginn um málin. Stjörnvöld sem fela almenningi ákvarðanir verða að gefa þessum sama almenningi bestu og réttustu upplýsingar um málin sem mögulegt er. Það verður að vera hluti af fjölmiðlun, skólakerfi og umræðu að mál séu rædd yfirvegað og málefnalega – svo að almenningur geti á endanum tekið upplýsta ákvörðun.

Staðan á Íslandi er sú að stjórnvöld eru stórtækasti falsarinn í samfélaginu. Stjórnmálamenn og stuðningsmenn þeirra leggja mál aldrei á borð almennings og fletta þeim yfirvegað og rökvisst í sundur. Öll mál eru framreidd maríneruð í áróðri, blekkingum og fölsunum. Ryki er stráð í augu almennings og kjarni málanna varinn eins og gullforði Englandsbanka fyrir kámugum lúkum pöpulsins.

Við erum eins og fólk sem stendur saman í þvottabala úti á rúmsjó. Rifist er um siglingarhæfni balans. Balinn vaggar. Annað liðið í balanum reynir að fullyrða að balinn sé alltaf að sökkva og bendir til sanninda á hve stutt er frá brún hans niður á vatnsyfirborðið þar sem hann hnígur ofan í sjóinn. Hitt liðið bendir á sama tíma á hliðina andspænis, sem rís þegar hin hnígur, og fullyrðir að balinn nánast svífi með himinskautum. Umræða um íslensk stjórnmál er ævinlega svona.

Beint lýðræði krefst þess að almenningur sé falslaust þátttakandi í ákvörðunum. Á Íslandi er enn mjög langt í að slíkt verði raunhæft. Almenningur og Alþingi er samdauna endalausum áróðri og lygum. Fólk þekkir ekki muninn á því sem er rökrétt og hinu sem hljómar vel. Það þekkir ekki muninn á því sem blasir við og hinu sem það vill. Stjórnmálamenningin er skammarlega vond.

Búsáhaldabyltingin dugði ekki til að koma á verulegum úrbótum. Vaxtarbroddar urðu til. Margir héldu í einfeldni sinni að nú væri tímabært að taka til. Hugmyndir komu fram. Þeim var jafnvel komið á framfæri. Vandinn var að til þess að komast til framkvæmda þurftu þær að komast inn á leikvang valdsins. Þar var engu vært.

Á Íslandi spillir valdið öllu.

Icesave-málið hefur allan tímann verið augljóst. Bæði hvað varðar lög og réttlæti. Þeir sem reyndu að láta það líta öðruvísi út þurfa í dag að endurmeta horf sitt við hlutunum.

Það væri ágætt að það byrjaði með afsögnum þeirra stjórnmálaleiðtoga sem þar fóru fremstir.

4 ummæli:

Matti sagði...

> Icesave-málið hefur allan tímann verið augljóst. Bæði hvað varðar lög og réttlæti.

Þetta er kallað að endurskrifa söguna.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það hefur verið jafnaugljóst í grundvallaratriðum eins og það að hómópatía virkar ekki eða guð útdeilir ekki refsingum. Það að til sé fjöldi fólks sem reynt hefur að fullyrða annað sannar ekki andstæðuna.

Nær allir stuðningsmenn Icesavesamninga fullyrtu að lagaleg skylda okkar væri verulega vafasöm – en samningar væru raunhæfasta og auðveldasta leiðin út úr því ástandi sem kröfur Breta og Hollendinga sköpuðu.

Þunginn í málinu var ekki lagalegs eða siðferðilegs eðlis, heldur pólitísks. Þar, viðurkenni ég fúslega, var málið langt því frá augljóst.

Matti sagði...

Fram á síðustu stundu vissi enginn hvernig dómur myndi falla.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það var ekki vegna þess að lagarökin væru jafngild eða þetta væri 50/50 mál.

Þeir sem kynntu sér málið sáu að kröfur B og H á hendur Í byggðu ekki á þeim lögum sem um var rætt heldur pólitískum þrýstingi mótaðila okkar.

Vissulega óttuðust margir að pólitík hefði áhrif á dóminn, sbr. það sem Össur segir í dag, en lagalega hefur alla tíð verið ljóst að innleiðing tilskipunarinnar um innistæðutryggingar var að öllu leyti sambærileg á Íslandi og annarsstaðar.

Brot á jafnræðisreglu var síðan mál sem orkaði meira tvímælis en var ekki það sem Icesave snerist um fyrr en B og H ákváðu að bæta því í pakkann til að eiga meiri séns á að fá eitthvað.

Hún er afar undarleg þessi árátta að láta líta svo út sem þetta hafi verið happdrætti með jafnlíklegum útkomum.

Jafnvel þótt við hefðum tapað í dag hefðu B og H þurft að sýna fram á skaða fyrir héraðsdómi – þótt allir viti að hagur þeirra var meira en tryggður með aðgerðum Í og neyðarlögunum.

Þessi „enginn veit í raun“ rök eru einmitt aðalástæða þess að erfiðlega gengur að fá samfélagið til að gefa upp allskyns illa grundaða vitleysu.

Sum mál þarf að nálgast með bestu fáanlegu rökum. Siðferðilega og lagalega voru rök okkar pottþétt. Um pólitíska þáttinn (og möguleg áhrif hans á dómstólinn) ríkti miklu meiri óvissa.

Það var ekkert að því að verja samningaleiðina á pólitískum forsendum. En markvisst var reynt að gera lítið úr lagalegum og siðferðilegum rökum landsins líka. Það var villandi svo ekki sé meira sagt.