28. janúar 2013

Allsgáð sýn á Icesave

Því fer fjarri að Icesavemálið sé í dag gamlar fréttir sem best er að gleyma. Við verðum að læra af því. Og gera það skýr í kollinum án þess að reyna að nota það til að réttlæta afstöðu okkar í aðdraganda þess hingað til. 

Það sem ég sakna er að menn geri greinarmun á mismunandi hliðum þess. Málið hefur verið allt í einum graut og það hefur m.a.s. verið gruggað í áróðursskyni af báðum fylkingum. Í kjarna sínum hefur málið fjórar hliðar. 

Lagaleg hlið

Í málinu voru þrjú lagaleg álitamál. Í fyrsta lagi hvort Evróputilskipun fæli í sér ríkisábyrgð gagnvart innistæðutryggingasjóðum. Í öðru lagi hvort Ísland hafi mismunað innistæðueigendum. Í þriðja lagi hvort neyðarlögin hafi verið lögleg.

Þessi mál gátu fallið á átta mismunandi vegu með mismunandi afleiðingum. 


Ríkisábyrgð          Mismunun          Neyðarlög
      o                               o                         o
      o                               x                         x
      o                               x                         o
      o                               o                         x
      x                               o                         o
      x                               x                         x
      x                               x                         o
      x                               o                         x

Raunin varð sú á endanum að öll lagaleg óvissa féll Íslandi í hag. Neyðarlög þóttu réttlætanleg. Ríkisábyrgð var hafnað og ekki tókst að sýna fram á mismunun. 

Flestar aðrar niðurstöður hefðu þýtt að samningaleið hefði verið lagalega ákjósanleg fyrir Ísland. Þó ber að horfa til þess að Bretar og Hollendingar buðu að lagaleg óvissa hefði verið látin eiga sig hefðu samningar tekist. Við slíkar aðstæður hefði málið staðið og fallið með afdrifum neyðarlaganna.

Ríkisábyrgð          Mismunun          Neyðarlög
      ?                               ?                         o
      ?                               ?                         x

Hér hefði slæm niðurstaða fyrir Ísland verið hryllileg því það hefði þýtt að íslenska ríkið hefði tekið á sig ábyrgð án tillits til þess hvort þrotabú Landsbankans hefði verið aðgengilegt upp í innistæðukröfur. 

Lagaleg áhætta var því enn fyrir hendi hvort sem samningar væru gerðir eða ekki.

Lagarök gegn ríkisábyrgð voru sterk. Miklu sterkari en fyrir neyðarlögum eða gegn mismunun. 

Siðferðileg hlið

Siðferðilegar hliðar málsins eru annarsvegar þær hvort almenningur beri þá skyldu að koma gróðastofnunum til bjargar fari þær illa að ráði sínu og hinsvegar sú hvort íslenska ríkið hafi borið skyldur gagnvart reikningshöfum og kröfuhöfum.

Prinsippið í málinu hjá þeim sem neituðu að semja var að almenningur ætti ekki að taka á sig skuldina, ekki einu sinni þótt skuldbindingin væri að mestu líklega táknræn og aðeins þyrfti að greiða vexti.

Aðrir héldu því fram að það hafi verið íslenska ríkið sem bar ábyrgð á starfsemi Landsbankans sem jaðraði við svikamyllu á síðustu metrunum. Auk þess sem stjórnvöld hafi ítrekað áður og eftir að málið kom upp lýst því að ríkið myndi standa fyrir „sínu.“ Hvað nákvæmlega fólst í því kom aldrei í ljós.

Viðskiptahlið

Margir héldu því fram að Icesavesamningar myndu greiða götu Íslands í erfiðri stöðu auk þess sem neitun á samningum myndi jafnvel rústa stöðu landsins og setja það í flokk með N-Kóreu.

Allt bendir til þess að áhrif Icesave á viðskipti við önnur ríki hafi verið lítil sem engin. Ofsahræðsla við viðskipti við Ísland lutu ekki að deilum við Breta og Hollendinga heldur ótta um fullkomið hrun hagkerfisins. Hrakspár rættust ekki og þótt málið sé nú úr sögunni bendir ekkert til þess að það hafi afgerandi áhrif til eða frá. 

Pólitísk hlið

Hér er sú hlið sem málið snerist á endanum um. Bretar og Hollendingar gerðu einfaldlega þá kröfu á Ísland að það samþykkti formlega ábyrgð á láni til innistæðitryggingarsjóðs og bæri vextina. Þjóðirnar beittu afli í alþjóðlegum stofnunum til að knýja fram þau málalok sem þau höfðu einsett sér. Þau voru jafnframt bökkuð upp af Evrópusambandinu og aðrar þjóðir, þar á meðal frændþjóðir okkar, þorðu ekki að taka afstöðu með eða á móti þessum kröfum – en ætluðust til að sátt næðist. Í grundvallaratriðum var enginn sáttarvilji hjá Bretum og Hollendingum um annað en praktískar útfærslur. Grunnatriði málsins voru ekki umsemjanleg.

Niðurstaða

Íslensk stjórnvöld voru undir gríðarlegum pólitískum þrýstingi og þeim var hótað og þau neydd að samningaborðinu. Að hluta til voru stjórnvöld bundin af fyrri yfirlýsingum þeirrar stjórnar sem hrakin var frá völdum.

Aðgerðir ríkisstjórnar Geirs Haarde í hruninu sjálfu reyndust giftusamlega m.t.t. Icesavemálsins. Aðgerðir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur voru að öllu leyti rökrétt framhald af því sem þegar hafði gerst og engin ástæða er til að ætla annað en að fyrri stjórnvöld hefðu gert það sama, reynt að ná samningum um málið.

Aðgerðir forseta Íslands reyndust vel, sérstaklega þar sem þar voru völdin tekin af hinum „pólitísku“ valdhöfum. Þar með voru hendur Breta og Hollendinga bundnar með vissum hætti því málið var tekið af hinu pólitíska skákborði þar sem hægt var að knýja fram niðurstöðu með áhrifum á leikmennina. 

Það er alveg ljóst að ótti litaði öll viðbrögð íslenskra stjórnvalda. Hræðslan olli hugleysi og varð til þess að Bretar og Hollendingar stýrðu ferðinni. Ótti um að innganga Íslands í ESB spilltist var öflugur, pólitískur áhrifavaldur hjá a.m.k. hluta þjóðarinnar.

Það sem eftir situr er kemur í sjálfu sér ekki á óvart: Milliríkjadeilur snúast í kjarna sínum ekki um lög, siðferði eða viðskipti. Þau snúast um einfalda hagsmunapólitík. 

Það er skítt. Þannig ætti það ekki að vera. Bæði vegna þess að þannig kúga þeir stóru þá litlu (eins og klárlega sást í þessu tilfelli) – en einnig vegna þess að við slíkar aðstæður fara mál illa sem í raun og veru snúast að öllu leyti um lög, rétt og siðferði. 

Þess vegna tekst mönnum ekki að stíga nein raunveruleg skref til bjargar flóttamönnum, fátækum eða hverfandi náttúrugæðum. Þess vegna reynum við að moka upp makríl og hunsa gróðurhúsamengun.

Alþjóðleg samskipti eru í lamasessi. 

Engin ummæli: