30. janúar 2013

Sannleikur um einelti

Einelti er andstyggilegt og oft á tíðum sálarskemmandi atferli. Það er afar erfitt að skilgreina það en tvennt þarf að koma til svo um réttnefnt einelti sé að ræða. Í fyrsta lagi meiðandi framkoma, í öðru lagi félagsleg útskúfun.

Jón Gnarr lýsti því yfir á fésbókinni í gær að nokkrir fundargestir á íbúafundi hafi beitt hann ofbeldi og eineltistilburðum. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Nær allir netmiðlar tóku málið upp og fjöldi fólks tjáði sig um málið. Meirihlutinn hrósaði borgarstjóranum fyrir að tala svona opinskátt um málið. Nokkrir skömmuðu borgarstjórann fyrir að hafa ekki hreðjar í stjórnmál.

Ég tel fráleitt, og raunar skaðlegt, að gera þá kröfu á stjórnmálamenn að þeir séu flugsyndir í aurbaðinu. Jón Gnarr hefur staðið sig afar misjafnlega í starfi. Eitt það besta við hann er þó að (a.m.k. útávið) gefur hann frá sér ímynd sem er laus við hina dæmigerðu stjórnmálapretti. Hann virkar einlægur, góðgjarn og heiðarlegur.

Frásagnir sjónarvotta á fundinum eru mestmegnis á einn veg. Borgarstjórinn virkaði illa upplýstur um þau mál sem hann var krafinn svara um. Nokkrir fundargestir voru mættir á staðinn í vígahug og óðu uppi með andstöðu og andúð. Einhver orð voru látin falla sem stuðuðu einhverja, þar á meðal orðið „hyski“ sem notað var um borgarstjórann og fylgilið.

Mikið ofboðslega væri íslensk stjórnmálamenning betri ef andúð gegn uppivöðsluseggjum væri almenn – og það væri ekki viðurkennt sport að níða skóinn af fólki í stað þess að fást við málefni. En hún væri jafnvel ennþá betri ef almenningur væri nógu heiðarlegur til að trúa í alvöru á þær siðferðis- og samskiptakröfur sem hann heldur á lofti. Stóri vandinn í stjórnmálum er sá að grunnreglur eru ekki rótfastar, þær fljóta um. Orð eins og „einelti“ er ekki notað inntaks síns vegna, heldur áhrifanna.

Vigdís Hauksdóttir kom fram fyrir fáum dögum og kvartaði yfir einelti sem hún upplifði úr öllum áttum. Meðal annars í svipbrigðum og framkomu annarra þingmanna. Viðbrögð almennings við þeirri játningu voru meira og minna á einn veg. Vigdís var hædd og rægð.

Það er samt með engu móti hægt að segja annað en að framkoma í garð Vigdísar og umræður um hana uppfylli vel og rækilega öll skilyrði þess að teljast einelti. Finna má ótal dæmi þess að hún sé uppnefnd (margt mun meira krassandi en „hyski“), henni er í sífellu brigslað um að vera heimsk og þingmaður í fýlukasti hefur látið hafa eftir sér að hann þakki guði fyrir að þurfa ekki lengur að sitja við hliðina á henni í þinginu. Dæmigerðara eineltistal ef varla til.

Við sem störfum með börnum og unglingum þekkjum það að sá sem ætlar í prinsippinu að verja þá sem verða fyrir einelti þarf að taka afstöðu gegn einelti skilyrðislaust. Eineltismál eru nefnilega í yfirgnæfandi meirihlutla þannig að eineltisseggirnir efast ekki eitt augnablik um réttmæti aðfarar sinnar. Fórnarlambinu er ævinlega kennt um. Eineltið verður því harkalegra sem gerendurnir telja fórnarlambið verðskulda það meir.

Einelti er bara ekki spurning um hver á hvað skilið. Einelti er ólíðandi viðbragð, hverjar sem forsendurnar eru. Það er í raun dálítið hættulegt að varpa þeirri mynd af eineltismálum að þau séu svarthvít. Gerendur séu ætíð ljúflingar sem harðsnúin og illgjörn klíka gerir það að markmiði sínu að snúast gegn. Ég held að stór hluti af ástæðunni fyrir því að eineltisfórnarlömbum er ekki hjálpað er vegna viðhorfa þeirra sem ættu að hjálpa til fórnarlambsins.

Andstaða gegn einelti verður að vera prinsippatriði. Og maður verður að vera tilbúinn að verja þá sem maður síst vildi. Það er eina raunverulega siðferðilega verjandi afstaðan gegn einelti. Það er líka eina raunverulega afstaðan sem virkar.

Manneskja sem finnur til með borgarstjóra í dag en hæddist að Vigdísi Hauks fyrir nokkrum dögum er gagnslaus þegar kemur að því að veita einelti viðnám. Andstaða hennar er tilfallandi og hefur ekkert með siferði að gera. Raunar viðheldur hún eineltisstemmningu ef eitthvað er.

Því miður er mikill meirihluti þeirra sem finna til með Jóni Gnarr núna algjörar liðleskjur þegar kemur að því að berjast almennt gegn einelti. Það hlakkaði í fólki þegar Geir Haarde var króaður af í bíl sínum og höggin látin dynja. Það var flestum skítsama hvernig hann upplifði það. Fólk var svo reitt að því fannst hann eiga það skilið. Fannst það gott á hann.

Hjá sumum hópum fólks þykir eðlilegt að rægja forsætisráðherra og uppnefna vegna kynhneigðar. Ruglaður en meinlaus eldri borgari gekk á lagið og langaði óskaplega að sprengja sprengju fyrir utan heimili ráðherrans til að sýna þann hug sem „þjóðin“ bæri til hans.

Við sem þekkjum einelti úr störfum okkar þurfum ekki að horfa lengi á þingmennina okkar að störfum til að sjá að stjórnmálamenningin er lítið annað en steinrunnin eineltismenning. Ég man hreinlega ekki eftir því að Steingrímur og Sigmundur Davíð hafi hist án þess að sá fyrrnefndi hæðist að hinum fyrir það hve hann er leiðinlegur og fýlugjarn. Það er alveg augljóst að Steingrímur fyrirlítur Sigmund og getur ekki stillt sig um að sýna það við hvert tækifæri.

Stjórnmálamenningin er ömurleg. Menn raða sér í lið og verða sígjammandi varðhundar þeirra hagsmuna sem þeir telja standa sér næst. Andúð á einelti er yfirleitt ekkert annað en yfirborðskennt píp. Merki þess að sár stunga hafi hitt „þeirra mann“ eða þá sjálfa. Flestir veigra sér ekki við að nota sömu meðöl á óvini sína. Jón Gnarr varð sjálfur uppvís að svipuðu gagnvart Sóleyju Tómasdóttur í upphafi ferils síns.

Hinsvegar er eitthvað við Jón Gnarr sem gefur til kynna að þar fari ekki steinrunninn og samdauna pólitíkus. Það er einhver einlægni til staðar sem fær mann til að trúa því að hann, a.m.k. stundum, vilji verða betri en hann er.

Við eigum þessvegna að taka alvarlega lýsingu hans á upplifunum gærdagsins. Hún er áminning um hve ömurleg samskipti okkar eru alltof oft.

Að öllu þessu sögðu verður að hafa í huga að einelti snýst ekki síst um félagslega stöðu. Þar er staða valdhafa önnur en almennings. Það er alveg ljóst að inni á Alþingi eða í Ráðhúsinu getur einelti þrifist. Það er hinsvegar vafasamara að segja að um einelti sé að ræða þegar almenningur lýsir andúð á valdhöfum. Þar er líklega oftar um vanvirðingu, ókurteisi, reiði eða háð að ræða.

Opinberar persónur verða að þola reiði almenning og háð. Þannig eru bara leikreglur hins lýðræðislega samfélags. Þannig sýna valdhafarnir að þeir geta stillt valdbeitingu í hóf. Þeir umbera reiðilega framkomu, mótmæli og jafnvel hið grimmasta háð. Þeir gera það af sömu ástæðu og ljónið bítur ekki höfuðið af temjaranum þótt hann liggi með eyrað á bragðlaukunum. Þeir umbera það og sýna ákveðna undirgefni og auðmýkt gagnvart þeim sem þeir starfa í umboði fyrir. Þeir sýna jafnframt að þeir geta stillt sig um kúgun. Kúgun valdhafanna er á endanum miklu hættulegra afl í samfélagi heldur en vanvirðing og ókurteisi.

Andstaða gegn vanvirðingu og ókurteisi er persónulegt mál. Þau okkar sem vilja veita því viðnám gera það, en ævinlega vegna þess að það er persónuleg afstaða okkar og nátengt hugmyndum okkar um það hvað það er að vera alminleg manneskja.

Ég segi fyrir mitt leyti – þótt ég glaður vildi að umræðan á landinu væri á hærra plani og þótt ég fyrirlíti yfirgangsseggi, þá myndi ég aldrei styðja neitt valdboð sem tekur af mönnum réttinn til að vera fífl. Við getum höfðað til þeirra og reynt að tala fyrir hinu – en frjálst samfélag verður að þola fólki það að vera öðruvísi en við.

Einelti á ætíð að standa gegn. Líka þegar það beinist að þeim sem maður hefur minnstan áhuga á að verja, sérstaklega þá. En vegna þess að einelti er tvíþætt og snýst bæði að meiðandi framkomu og félagslegri útskúfun þá er mikilvægt að láta ekki nægja að þagga niður í gerendunum. Maður þarf að standa með þeim sem ráðist er gegn og rjúfa þannig útskúfunina. Það á ekki að gera þegar allt er komið í óefni. Besta aðferðin er sú að standa ævinlega með því fólki sem samfélagið hefur ýtt út á jaðarinn. Að tala fyrir hagsmunum þeirra sem samfélagið vanrækir eða lítur niður á. Að virða mennskuna í öllum, líka þeim sem mann langar til að hunsa eða fordæma.

Þar megum við sem samfélag standa okkur miklu betur. Það er líka miklu brýnna verkefni en að hlaupa til bjargar valdhöfum sem sárnar framkoma nokkurra dóna.

Engin ummæli: