Barátta kennara og sveitarfélaga er að hefjast. Það verður næsti slagur á eftir hjúkrunarfræðingum gegn ríkinu. Eins og staðan er núna mun draga til tíðinda.
Slagur sambands sveitarfélaga og kennarasambandsins er slagur tveggja risa sem eru að hruni komnir. Sveitarfélögin hafa í meira en áratug beitt hvert annað öflugu húsbóndavaldi og fyrirskipað algjört samráð í kjaramálum. Félagsskap kennara hefur blætt hægt og rólega út og hann er núna táknrænn fyrir brotin loforð og sviksemi fortíðar – og er í litlum tengslum við framtíðarhagsmuni og skólaþróun. Við fyrstu höggin munu þessir andstæðingar molna niður.
Staðan er ekki flókin. Sveitarfélög vilja girðingar, hólf og höft burt úr kjarasamningum. Þau vilja einfalda kjarasamninga og fela stjórnendum framkvæmdavald yfir kennurum.
Kennarar vilja hærri laun m.a. vegna þess að nú hafa námskröfur verið auknar verulega án þess að fyrirheitin hækkun launa fylgi. Fyrst skuli hækka laun – síðan sé hægt að ræða frekari breytingar í rólegheitunum og samstarfi.
Sveitarfélögin hafa rétt fyrir sér um að starfsumhverfi kennara hamlar skólaþróun. Það er stýrandi umfram það sem æskilegt er og alltof flókið.
Kennarar hafa á móti rétt fyrir sér um það að mörg af þessum höftum eru sveitarfélögum nauðsynlegt aðhald. Þau hafa ekki hikað við að taka fjárhagslega hagsmuni fram yfir faglega. Þau hika ekki einu sinni við að brjóta réttindi á nemendum með lögbrotum til að spara pening.
Dæmi um slík lögbrot eru ómönnuð forföll. Á hverjum tíma er ekki nema u.þ.b. 80% vinnandi manna við fulla heilsu. Hinir eru veikir heima. Kennurum er ráðstafað á bekki út frá þeirri meginreglu að allir séu alltaf hraustir. Fjöldi barna t.d. í Reykjavík er sendur heim ef kennarar eru veikir. Það er lögbrot. En það er gert því að forfallakennsla er dýr – og menn eru tilbúnir að brjóta lög til að spara.
Með nákvæmlega sama hætti er algjörlega dagljóst að afnám vinnuskyldu, fullkomið forræði skólastjóra og brottnám hafta í kjarasamningi kennara mun verða til þess að hópastærðir verða óhóflegar og gæðum kennslu fórnað fyrir skammtímahagsmuni af ýmsu tæi.
Kennarar vilja fá nánari höft inn í samninginn. Skýr ákvæði um hópastærðir og jafnvel flokkun eftir „nemendaígildum“ þar sem gerður er greinarmunur á 20 englabossum og 20 skæruliðum.
Það eru engar líkur á að sveitarfélögin og kennarasambandið nái saman.
Það sem mun því gerast er að bæði munu molna.
Fyrst verður verkfall. En það er engin samstaða, hvorki meðal kennara né sveitarfélaga. Hún er þó minni meðal sveitarfélaga en kennara.
Gremju og óþægindum verður leyft að malla í smá stund og þá munu einhver sveitarfélög ákveða að yfirgefa samflotið um kjaramál og semja við sína kennara beint. Það getur orðið Garðabær, það gæti orðið Hvalfjarðarsveit. Það verður ekki Reykjavík.
Kennarar í því sveitarfélögi munu (allir eða starfsmenn einstakra skóla) semja um breytta starfshætti og fá góða launahækkun fyrir. Margir kennarar munu ekki geta samþykkt slíkt „réttindaafsal“ og mörg sveitarfélög munu ekki hafa efni á „hækkunum.“ Samkeppni verður komið á um kennara.
Það mun koma þeim sveitarfélögum vel sem vel eru stæð. Áhrifin á hin verða hörmuleg.
Ásakanir um svik munu ganga á víxl í allar áttir.
Verkfall þeirra sem ekki vilja gefa sig getur orðið langt og erfitt – og á endanum skilað litlu sem engu – nema aukinni misskiptingu og ójöfnuði milli skóla.
2 ummæli:
Eg er forvitinn að vita hvaðan þessi tölfræði um veikindin koma, mér finnst 20% full hátt miðað við þetta:
http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/3962/
20% er í hærri kantinum. Ég var að hugsa um þetta hér (sem er ansi marga daga á milli 15 - 20%, stundum aðeins meira, stundum minna):
http://datamarket.com/is/data/set/zxs/veikindi#!ds=zxs!8nx&display=line
Skrifa ummæli