5. október 2012

KerfisköngulærEin stærsta fyrirstaða í vegi starfsþróunar kennara er miðstýring. Hún hefur haft alvarlegri áhrif en flestir gera sér grein fyrir. Skólakerfið er verulega illa statt um þessar mundir.

Í vegi fyrir upplýsingatækni standa stundum þeir sem ættu að greiða götuna. Kerfisköngulærnar. Karlarnir sem sjá um tölvubúnað sveitarfélaga. Þeir hafa oftar en ekki komið upp einhverju ægilegu kerfi sem enginn má snerta við. Svo sitja þeir á sínum kontór og geta sinnt öllum hjálparbeiðnum gegnum tölvuorma sem gera þeim kleift að stjórna gervöllu tölvukerfi úr ríki sínu.

Stundum missa þessir menn algjörlega sjónar á hlutverki sínu og gleyma að þeir eru í þjónustuhlutverki. Þá fara þeir með frekju og yfirgangi að stýra öllum starfsmönnum sveitarfélagsins og setja þeim boð og bönn í tíma og ótíma. Eru þá yfirleitt með klisjur á hraðbergi til að hindra fólk í að fá óskum sínum framfylgt.

Ein svona könguló sagði mér að þráðlaust net yrði ekki komið í grunnskóla Reykjavíkur fyrr en eftir áratug. Ef hún fengi að ráða væri það eflaust þannig. En það eru meiri líkur á því að opinbert mál grunnskólakerfisins verði esperantó árið 2020 en að tölvubúnaður verði tengdur með snúrum við stokka.

Líklega allra versta kerfisköngulóin býr í Árborg. Það er eitthvað verulega mikið að tölvumálum þar.

Ég er að missa töluna á þeim kennurum sem færa mér sögur af gerræðislegum einræðistilburðum tölvugúrúsins sem á að vera að þjónusta skólana í Árborg en er þess í stað að drepa öllu á dreif með misjafnlega skynsamlegum rökstuðningi.

Meira og minna allt er lokað. Sé þess óskað að opnað sé fyrir tilteknar síður eða vefi þarf þessi einstaklingur að samþykkja það. Sem hann gerir bara alls ekki alltaf.

Þessi kerfiskarl tekur ítrekað fram fyrir hendur kennara og þykist kunna á allt internetið. Hann virðist spara bandvídd eins og hvert megabæt sé dós af styrjuhrognum sem hann sér aldrei aftur. Hann hefur ítrekað skipt sér af því hvaða forrit eða síður kennarar notar og harðneitar að opna á síður sem eru sauðmeinlausar.

Ég veit ekki hver er yfir fræðslumálunum í Árborg. Ég veit hinsvegar að þar eru margir dugandi og brennandi kennarar sem iða í skinninu að fá að þróa skólana sína inn í nýja öld. Þeir geta það bara ekki. Fyrir kerfisköngulónni sem skilur ekki hlutverk sitt. Hefur enga þjónustulund en þeim mun meira af gerræði og hroka.

Með þessu móti munu líklega öll sveitarfélög á Íslandi sigla inn í nútímann og taka sér stöðu meðal menntakerfis framtíðar á undan Árborg.

Sem lætur sér nægja að reka lestina vegna þess að embættiskarl komst upp með valdarán sitt.


Engin ummæli: