5. október 2012

Enn af versta skólabæ ÍslandsMér hefur tekist að þyrla upp moldviðri vegna pistils míns um hið andstyggilega SMT-kerfi sem embættismenn hjá Hafnarfjarðarbæ neyða skóla bæjarins til að nota. Það er gott. Þá er tilgangnum náð. Fjöldinn allur af kennurum, foreldrum og nemendum í bænum er að meira eða minna leyti á móti SMT. Umræðan hefur bara aldrei komist af stað. Er varla leyfileg. Miðstýringin blívur.

Einhverjir hafa tekið grein minni þannig að ég sé að halda því fram að atferlismótun sé í heild sinni hræðilegur og illur hlutur. Það finnst mér alls ekki. Þvert á móti held ég skólakerfið þurfi mjög sárlega á atferlisfræðum að halda í gagnvirkri námsefnisgerð og námsmati. Stærðfræðibækur með gervigreind sem beita markvissri og hvetjandi endurgjöf til að þjálfa upp ákveðin atriði yrðu risa stökk fram á við. Þá skal ég glaður viðurkenna að við ákveðnar aðstæður hentar atferlismótun mjög vel – jafnvel þótt hún byggi á SMT.

Það sem ég gagnrýni er þetta: Það er ótækt að skilgreina lítinn hluta barna sem vandamál, óeðlileg eða óvenjuleg börn, og beita síðan refsingum til að gera þau „venjulegri.“ Það er yfirborðskennt að meta ábyrgðarkennd, líðan og traust með stífum, smásmugulegum reglum og tölfræði um „agabrot.“ Það er fráleitt að skapa skólasamfélag sem ætlast til þess tíu árum eftir að þú kemur í skólann að þú gangir í beinum röðum á milli staða, haldir þig við útveggi og njótir lítils sem einskis traust og frelsis, t.d. þegar kemur að tölvu, farsíma eða tyggjónotkun. Það er ennfremur hroki sem afskrifar umkvartanir stálpaðra barna sem misskilning og ómark.

Ég verð sorgmæddur þegar ég sé teikningu eftir barn í SMT skóla þar stúlka er látin gera „rétt“ með því að svara: „Já, frú kennari“ þegar henni er skipað fyrir. Ég verð líka sorgmæddur þegar ég sé eldra barn við SMT skóla lýsa dyggðinni „samviskusemi“ þannig að það sé að „gera það sem manni sé sagt að gera“.

Ég verð reiður þegar ég les þetta haft eftir kennurum í SMT skóla:


„Sumum finnst skólinn þó algjört regluveldi og finnst þeir ekkert mega gera. Það eru einna helst nemendur á unglingastigi. Þeim finnst kennsla á reglunum hallærisleg og átta sig stundum  ekki á því að þetta séu hefðbundnar reglur sem tíðkast líka í öðrum skólum en í SMT skólum séu þær kenndar sérstaklega. Það verður þó til þess að allir vita vel til hvers er ætlast af þeim, sem þeim finnst gott.“

Gagnrýni unglinganna er einmitt hárrétt og því fer fjarri að reglur í SMT-skólum séu almennar samskiptareglur eða mannasiðir. Almennt og yfirleitt er engin sérstök þörf fyrir að banna unglingum að vera með húfur, tyggjó, skipa þeim að ganga í beinum röðum, eða fara með sérstök heit áður en þeim er hleypt í skólaferðalög.

Ég verð sorgmæddur þegar börn fá refsimiða fyrir að uppfylla ekki langan lista af reglum, sem að mínu mati eru ýmist óþarfar eða svo almennar að starfsmenn hafa fullt frelsi til að túlka æskilega og óæskilega hegðun.

Ég verð reiður þegar ég les að unglingar sem ekki láta segjast megi búast við refsingum sem kennarinn ákveði og eina dæmið sem maður fær er að unglingar sem noti tyggjó séu látnir liggja á fjórum fótum og skrapa upp tyggjó af gagnstéttum.

Ég dæsi þegar ég heyri að það sé rangt að tala um refsingar í SMT - því meira sé hrósað en refsað.

Fyrst og fremst finnst mér ekkert til þess rökstuðnings koma að best sé fyrir börn að vita „nákvæmlega“ til hvers er ætlast af þeim í samfélagi sem skilgreint er út frá fjöldanum öllum af reglum.

Mér finnst þetta metnaðarlaus aðferð í mannlegum samskiptum. Uppskrift að samskiptum fólks sem byggir á ofureinfölduðum lögmálum um umbun og refsingu.

Ég hélt að allir væru sammála um að æskilegra væri að börn væru alin upp til að gera rétt af innri hvöt. Að börn yrðu að ábyrgum, sjálfstæðum einstaklingum. Að hlustað væri á unglinga og þeim þolað að ögra, andæfa og fá að ráða umhverfi sínu og aðstæðum.

Skólakerfið í Hafnarfirði öskrar á alla sem vilja að unglingar alist upp við frelsi og traust. Það angar af vandamálahugsun. Því að einblínt sé á unglinga sem vandamál. SMT er millistykkið á milli nemenda sem eiga erfitt með að aðlagast og kerfisins sem neitar að breyta sér til að koma til móts við nemendur. Ávinningur nemenda er skilgreindur út frá fækkun árekstra við innviði kerfisins.

Skólakerfi á að búa hverjum og einum umhverfi til vaxtar og þroska. Það á að hvetja til ábyrgðar og sjálfstæðis.

Það á ekki að byggja á skilvirkni og þægum einkennisklæddum drónum sem ganga um í halarófum og upp við veggi.

Ég trúi því ekki, sem embættismaðurinn í Hafnarfirði segir, að kerfið hafi enga gagnrýni fengið. Aðeins spurningar. Þetta er svar þess hrokafulla sem tekur ekki mark á gagnrýni. Frekar en hlustað er á gagnrýni unglinganna og hún afskrifuð sem skortur á skilningi.

Ég trúi því ekki að ötulir talsmenn atferlismótunar sem skammast hafa í mér fyrir að hatast við stefnuna í heild sinni telji SMT-góðan fulltrúa stefnunnar.

Ég trúi því ekki að kennarar í Hafnarfirði ætli að sitja undir þessari miðstýringu lengur og vera handbendi hugsjónar sem er ekki þeirra eigin.

Ég trúi því ekki að börn í Hafnarfirði sætti sig við það lengi að gagnrýni þeirra sé afgreidd sem skilningsleysi.

Ég skil ekki hvernig þetta gat gerst og að heil skólasamfélög séu svo andvara og gagnrýnilaus að patentausnir eins og SMT fái að þrífast mótmælalaust árum saman.

2 ummæli:

Atli sagði...

Takk fyrir þennan pistil Ragnar. Sakna þess að heyra ekkert frá fólki sem er að vinna með þetta kerfi þar sem erfitt er að finna upplýsingar um það á netinu annað en þær að það byggir á PBS. Er það rétt að það byggi svona mikið á refsingum eða eru þetta gallar í framkvæmd? Er rétt að börn séu látinn þrífa/skrapa tyggjó af skólalóðinni í hegningarskini? Ef svo er er það hluti af SMT eða uppátæki óupplýsts starfsmanns. Vonandi að þessi pistill vekji einhverjar umræðum um SMT, þar sem sú mynd sem þú dregur upp hér er ekki fögur.
Atli F. Magnússon

Diddi sagði...

Hvort ákveðin smáatriði í þessu SMT kerfi séu góð eða slæm er kannski smáatriði í sjálfu sér, því eins og Ragnar segir í pistlinum, þá er markmiðið að skila sjálfstæðum, þroskuðum einstaklingum út í samfélagið sem eru færir um að taka ákvarðanir, hafa sjálfstraust og kunna að læra... ekki bara að láta mata sig upplýsingum og hegðunarreglum.
Hvorki siðferði né sjálfstæð hugsun geta komið frá bókstaf einum saman.

Eða er kannski aldrei vafi um gæði siðferðisboðskapar hinna mismunandi trúarbragða heimsins? Hvað er munurinn á því að vera bókstafstrúi á þúsunda ára gamalt regluverk eða nokkurra ára gamalt regluverk?

Í hvorugu tilfelli er sjálfstæðri hugsun beitt, í hvorugu tilfelli kemur viljinn til að breyta rétt sannarlega innan frá.