6. október 2012

Eru þá engar reglur í Norðlingaskóla?

Öllum er ljóst að ég tel skólareglur sem fela í sér hlýðni og eiðstafi á skjön við eðlilegt hlutverk náms. Sumir hafa orðið til þess að segja að andstaða SMT sé upplausn og tilviljunarkennd innræting. Svo er auðvitað ekki rétt.

Við í unglingadeildinni í Norðlingaskóla vinnum eftir skýrum markmiðum og ætlumst til að nemendur tileinki sér ýmsa færni og viðhorf. Að sumu leyti eru markmið okkar auðvitað samhljóðandi markmiðum flestra eða allra skóla – en á öðrum sviðum ber okkur af stað aðra leið.

En takið eftir, þetta eru markmið – ekki reglur. Á þessu er grundvallarmunur.

Ég hendi þeim hér fyrir neðan skólafólki til glöggvunar:

Þar sem skólafærni er ekkert eitt er þessu skipt í þrennt: skóla-, félags- og námsfærni. Engar refsingar eru við að ná ekki þessum markmiðum. Við höfum nemandann hjá okkur í þrjú ár og við reynum að virkja hann á þeim tíma í að sjá sjálfur hag í að ná þeim. Frelsi nemanda til að fara sína leið að marki á sínum tíma takmarkast aðeins af sama frelsi annarra.

Á hverju námsmatsblaði er skýrt tekið fram hvernig nemanda gengur að ná þessum markmiðum. Auk þess gilda þau sem hluti af einkunn í hverju einasta fagi.

Félagsfærni

Í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um að efla skuli félagsfærni nemenda í því skyni að gera þá að virkum þátttakendum í lýðræðislegu samfélagi án aðgreiningar. Félagsfærni er grunnfærni nemenda okkar og er því lykilatriði í öllu námi og starfi. Við leggjum sérstaka áherslu á vinsamleg samskipti sem einkennast af gagnkvæmri virðingu allra þátttakenda skólasamfélagsins. Í þeirri viðleitni að félagsfærni sé efld markvisst og skipulega eru hér sett niður nokkur markmið.

 Virðing og umburðarlyndi 

 Nemandi…

 …sýni öðrum fulla virðingu í orðum og æði og gæti hófs í framkomu og málfari.
 …virði eigur annarra, líkama og umráðasvæði.
…umberi ólíkar skoðanir, persónuleika og hegðun.
…taki skýra afstöðu gegn öllu ofbeldi og áreitni, andlegu og líkamlegu.

 Hóp- og samvinna 

 Nemandi…

 …geti unnið innan um aðra og með öðrum að skýrt afmörkuðum verkefnum og tekið þátt í eðlilegri og sanngjarnri verkaskiptingu.
 …geti metið á raunsannan og sanngjarnan hátt eigið vinnuframlag og annarra í hóp- og samvinnu og tekið þátt í umræðu um það.
 …geti skipulagt nám sitt þannig að hann geti gert raunhæfar áætlanir um hóp- og samvinnuverkefni og unnið í þeim bæði á skólatíma og sem heimanám.

 Jafnrétti og lýðræði 

 Nemandi…

 …taki virkan þátt í ákvarðanatöku um hagsmuni sína, myndi sér skoðanir og tjái þær opinskátt. 
…virði ólíkar skoðanir og geti rætt skoðanaágreining málefnalega.
…temji sér jákvætt viðhorf til annarra og mismuni hvorki né rægi fólk vegna kynferðis-, kynþáttar-, kynhneigðar eða annarra þátta.
 …taki skýra afstöðu gegn hatursumræðu og -áróðri.
 …gæti þess að láta ekki ógrundaðar hugmyndir, t.d. um kynferði, hafa stýrandi áhrif á nám og störf – og taki þátt í sjálfsagðri og eðlilegri verkaskiptingu.


Skólafærni 

 Með skólafærni er átt við að nemandi mæti í skólann á réttum tíma og á rétta staði skv. stundaskrá. Einnig að nemandi stundi námi nám sitt eftir bestu getu og af áhuga, gangi vel um námsvæði, skólahúsnæðið almennt, eigin námsgögn og annara, sem og tæki og búnað í eigu skólans og annarra. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum starfsfólks skólans, fara eftir skólaviðmiðum og fylgja almennum umgengnisreglum. Nemandi geri sér grein fyrir ábyrgð sinni í myndun skólabrags og skilji í hverju hún er fólginn. Átti sig ennfremur á því að hver einstaklingur er hluti af stærri heild sem einstaklingarnir bera sameiginlega ábyrgð á.

 Mæting og ástundun 

 Nemandi...

...mæti á réttum tíma í skólann
....mæti á réttum tíma í kennslustundir
...mæti á réttum tíma á viðburði á vegum skólans
...stundi nám sitt af ákveðni og dugnaði

 Umgengni

 Nemandi...
...gangi vel um húsnæði og húsgögn skólans
...gangi vel um tæki og búnað skólans og skili að loknum notum
...gangi vel um námsgögn sín og samnemenda sinna
...fylgi almennum umgengnisreglum

 Fyrirmæli

 Nemandi...

...fylgi fyrirmælum
...fari eftir skólaviðmiðum


Námsfærni 

 Með námsfærni er átt við hversu góð tök og skýra yfirsýn nemandi hefur á námi sínu í skólanum. Þar er fjallað um hversu vel nemandinn stendur skil á verkefnum til kennara, hvort hann skili öllum verkefnum sem farið er fram á og á réttum tíma. Þar er fjallað um hversu vel hann nær að skipuleggja vinnu sína í gegnum vikuáform og til lengri tíma litið, það er hvernig hann dreifir vinnuálaginu og hvort hann standi við eigin vikuáform. Námsfærni felur einnig í sér að þekkja eigin styrkleika og veikleika og að vera fær um að taka ákvarðanir á þeim grunni. Síðast en ekki síst felur námsfærni í sér yfirlit yfir vinnulag nemandans, að verkefnin séu unnin af metnaði, vandvirkni og að sköpunarhæfni nemandans fái að njóta sín.

 Skil á verkefnum 

 Að nemandi

...temji sér að skila öllum verkefnum til kennara.
...skili öllum verkefnum á réttum tíma.
...temji sér að ljúka við þau vikuáform sem hann setur sér.

 Vinnubrögð

 Að nemandi...

...sé vandvirkur í allri sinni vinnu.
...sýni metnað og leggi sig allan fram við vinnuna.
...sýni frumkvæði og sé skapandi í sinni vinnu, það er nýti fjölbreytta hæfileika sína til að ljá verkefninu persónulegan blæ.
...sýni hugverkum annarra fulla virðingu og noti ekki efni frá öðrum án tilvitnana eða leyfis hvort sem um er að ræða texta, myndir, hugmyndir eða annað.

 Áætlana og áformsgerð 

 Að nemandi...

...sé fær um að skipuleggja nám sitt út frá áætlunum/markmiðum.
...sé fær um að dreifa vinnuálagi út frá utanaðkomandi þáttum, t.d. frístundaiðkun, ferðalögum, veikindum og öðru.
...haldi vel utan um áformsgerð sína í þar til gerðri bók, síma, tölvu eða öðru.

Engin ummæli: