5. júlí 2012

Vertu sú breyting...

Gunnar Páll Tryggvason skrifaði grein þar sem hann bendir á að okkur liði öllum betur ef við kysum að fyrirgefa og leita sátta vegna Hrunsins en í þessum reiðiham sem þjóðin er í. Hann bendir á fordæmi Mandela og ber saman við reiðigrautinn sem fasistar mölluðu í þýskalandi millistríðsáranna. Hann talar líka heilmikið um sannleikann – og að hann hljóti að vera einhverskonar meðaltal af útrásarórum þjóðarinnar og syndafallinu nú.Greinin er að mörgu leyti býsna gáfuleg.

Einu sneiðir hún þó hjá. Lykilatriði.

Mandela stakk aldrei upp á skilyrðislausri fyrirgefningu. Mandela stillti fyrirgefningu upp andspænis hefnd – sem hann vissi að gæti aldrei varðað leið til friðar og væri hvöt sem væri almennt óholl öllum mönnum.

Hinsvegar fylgdi sú kvöð fyrirgefningu Mandela að hana þyrfti að gjalda nokkru verði. Þeir, sem þurftu fyrirgefningu hinna, áttu að leggja spil sín á borðið. Opinbera það sem reiðin beindist að. Mandela vissi væntanlega að ekkert matar reiði og hefndarþorsta betur en leynd og baktjaldamakk. Fyrirgefningin fer fram fyrir opnum tjöldum þegar menn vita hvað þeir eru að fyrirgefa.

Auk þess var fyrirgefningu Mandela stefnt gegn ógnum eins og þeim sem runnu á Simbabve undir stjórn Mugabe – þar sem hinir undirokuðu urðu kúgarar. Þegar Mandela tók við valdataumum S-Afríku var það vakandi möguleiki.

Fyrirgefning Mandela beinist ekki aðeins að þeim sem gera hreint fyrir sínum dyrum – hún er aðferð þeirra sem nú hafa völdin til að geta stillt sig um að hefna og tærast upp í óhollum, óuppbyggilegum aðgerðum og hugmyndum.

Á Íslandi er þessu aðeins öðruvísi farið. Hér eru þeir sem brotið var gegn ekki komnir í neina oddastöðu þar sem þeir þurfa að velja milli hefndar og fyrirgefningar. Hér eru þeir sem brotið var gegn ekki búnir að sjá afhjúpun misyndis. Sá sem í þessu ástandi ákveður að fyrirgefa veit sennilega ekki hvað hann er að fyrirgefa – og hversu mikið af því á sér enn stað.

Fyrirgefning er máttlaus ef henni er aðeins beitt til að svala þörf fyrir sálarró.

Ég skyldi glaður taka undir með Gunnari Páli og hvetja til fyrirgefningar ef ég gæti treyst því að hlutir væru ekki að renna í nákvæmlega sama farið aftur, ef ég gæti trúað því að þeir sem brotið var gegn séu komnir með tögl og hagldir og ef ég gæti trúað því að brotamennirnir ættu á hættu hefnd.

Eins og staðan er nú held ég að þeir brotlegu megi ekki einu sinni búast við maklegum málagjöldum og ég held að þeir sem brotið var gegn séu enn þeir undirokuðu í samfélaginu. Við þær aðstæður finnst mér ómögulegt að segja fólki að vandinn búi innra með því sjálfu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Viðtal við greinarhöfund í nóvember 2008:

http://www.youtube.com/watch?v=qOPJ4EXlTB8

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þetta er flott.

Svanur Sig sagði...

Mér finnst þú rýna of mikið í það sem Gunnar Páll er að segja. Þessi dæmi sem hann nefndi sýna í grófum dráttum að sátt er betri en reiði og hefnd. Hann leggur áherslu að einstaklingarnir festist ekki í reiðinni. Þó að mál séu óuppgerð er vel hægt að vera í grunninn til sáttur við lífið og taka þátt í þeirri uppbyggingu á raunsærri sjálfsímynd sem okkur er holl. Við höfum saksóknara og dómskerfi til að sjá um að færa fjárglæframenn til saka og þó að það kerfi sé ófullkomið græðum við ekkert á því að bölva því endalaust og æsa okkur upp. Fjölmiðlar þurfa að hætta að velta sér upp úr þessu líka. Gæta hófs.
Kveðja - Svanur