6. júlí 2012

Ríki borga skuldir sínar og hananú!

Ég er að glugga í áhugaverða bók á pöddunni þessa dagana:

This Time is Different: Eight Centuries og Financial Folly

Hér er tilvitnun úr ingangi bókarinnar sem greip athyglina:

Ef hinar margvíslegu kreppur sem við skoðum í þessari bók eiga eitthvað sameiginlegt, þá er það þemað um að óhófleg skuldasöfnun, hvort sem er af hálfu stjórnvalda, banka, fyrirtækja eða neytenda skapar í uppsveiflum meiri kerfislæga hættu en menn gera sér grein fyrir. Innstreymi fjármagns getur skapað stjórnvöldum þá ímynd að þau séu að hlúa að örari vexti fyrir hagkerfið en raunin er. Þegar einkageirinn tekur fúlgur að láni bólgnar fasteigna- og hlutabréfaverð langt umfram það sem hægt er að standa undir til langframa, og bankar geta virst stöðugri en þeir eru. Slík stórtæk skuldasöfnun skapar áhættu því hún gerir efnahagslífið viðkvæmt fyrir trúverðugleikakreppum, sérstaklega þegar skuldir eru til skamms tíma og stafnast stöðugrar endurfjármögnunar. Skuldadrifnar uppsveiflur skapa alltof oft falska staðfestingu þess að stefna stjórnvalda sé að virka, að fjármálastofnanir skili verulegum hagnaði eða að lífsskjör þjóða séu óvenju góð. Flestar svona uppsveiflur enda illa. 


Það er rétt að taka það fram að þessi bók er alls ekki sérstaklega um Ísland – þótt manni gæti virst það af inngangi bókarinnar. Það sem höfundarnir gera afar vel er að skoða kreppur allt að 800 ár aftur í tímann og sérstaklega kreppur á 20stu öld og sýna fram á tvennt: Að í öllum þessum kreppum töldu menn sig hafa lært af fyrri kreppum og því væri „þetta öðruvísi nú“ en áður. En jafnframt að sú túlkun væri röng. Kreppur koma og fara að megninu til vegna þess að menn skortir yfirsýn eða vilja til að læra af reynslunni.

En kannski meira um það síðar. Nú langar mig að benda á nokkuð sem kom mér á óvart við lesturinn og ég vísa til í titli færslunnar. Við höfum oft heyrt að Íslandi standi ekki annað til boða en að greiða skuldir sínar. Annars myndum við falla í flokk með ríkjum eins og Argentínu sem hafa óhræsisorð á sér þegar kemur að endurgreiðslu skulda. Ég verð að viðurkenna að mín tilfinning var sú að ríki greiddu almennt skuldir sínar og að undantekningar á því væru fáar. Sannleikurinn er allur annar.


Raunin er sú að þótt skuldafall ríkja hafi minnkað jafnt og þétt síðustu tuttugu ár eða svo þá á lýsingin um að „ríki borgi skuldir sínar“ eiginlega bara við um stemmningu sem skapaðist á árunum 2003-2008 og er því alls ekki normið heldur skammvinn undantekning – sem viðhaldið er með einni af algengustu ranghugmyndum í aðdraganda fjármálaáfalla, þeirri að nú kunni menn allt svo miklu betur enda séu stofnanir skilvirkari og fjármálin almennt stöðugri.

Normið síðustu 200 árin (og raunar miklu lengur) er að stór hluti þjóða hyskist á að greiða skuldir sínar. Það er frekar rannsóknarefni hvað veldur því að þau örfáu ríki, sem aldrei hafa svikist um endurgreiðslu lána, hafa sloppið.

Í bókinni er einnig bent á að endurgreiðsla erlendra lána sé hreint ekki alltaf skynsamasti kosturinn í stöðunni. Þannig er bent á að rúmenski einræðisherrann Nikulás Ceausescu hafi þrjóskast til að endurgreiða á tiltölulega skömmum tíma níu milljarða dollara erlent lán til erlendra banka í miðri skuldakreppu níunda áratugarins. Þetta hafi verið allsendis óskynsamleg ráðstöfun fjár sem bitnað hafi af miklum þunga á rúmensku þjóðinni og fært bankamönnum mun meira fé en þeir vonuðust til að fá – enda voru afföll almennt með þeim hætti að auðvelt hefði verið að semja um lægri afborganir.

Það er nefnilega ekki dygð í sjálfu sér að borga skuldir sínar.

Jafnvel Bretar, sem hafa einna hreinastan skjöld í endurgreiðslu lána vegna sterkrar miðstýringar á seinni öldum og sigursælni í síðustu stórstyrjöldum og hafa rækilega minnt á það með harðneskjulegum innheimtuaðgerðum (m.a. innrás í bæði Egyptaland og Tyrkland þegar stóð á endurgreiðslum), voru einu sinni alræmdir skuldaslóðar.

Játvarður III var stór lántakandi hjá kaupmönnum Flórensarborgar á sínum tíma (á 14. öld) og notaði féð m.a. til að fjármagna styrjaldir við Frakka. Þegar gæfan snerist á sveif með Frökkum og Játvarður þurfti að þola nokkra ósigra í röð ákvað hann að vera hreint ekkert að borga skuldirnar til baka. Þær fréttir höfðu ofsalegar afleiðingar fyrir lánadrottna hans – því fiskisagan fór á kreik og þar sem umsvif hans við lántökur í Flórens voru vel þekkt og rækileg var gert fjármálaáhlaup á borgina með tilheyrandi gjaldþrotum.
Ég er rétt að byrja lestur bókarinnar en get mælt með henni nú þegar við þá sem vilja öðlast einhverja yfirsýn yfir þennan blessaða fjármálaheim sem öllu stjórnar. Hann er í það minnsta ekki nærri því jafn óútreiknanlegur, þróaður og nýr eins og reynt er að láta í veðri vaka. Menn hafa verið að gera sömu vitleysurnar öldum saman.

Það er helst að almenningi sé talin trú um það að sumir hlutir séu borðleggjandi. Eins og það að allir þurfi að borga skuldir sínar.

Það er klárlega ekki normið.

Engin ummæli: