29. júlí 2012

Pólitíska landslagið á Íslandi síðustu 50 ár

Nú er rætt um að endurvekja Alþýðuflokkinn í von um að koma megi í veg fyrir fyrirsjáanlegt fylgishrun Samfylkingar(manna). Þá er ágætt að hafa það í huga að saga Alþýðuflokksins var lengst af ekki saga neinna stórkostlegra sigra. Meðalfylgi flokksins síðustu 50 ár (ef maður tekur fylgi Samfylkingar með í myndina) er ekki nema 18%. Fylgi samfylkingar hefur aldrei farið undir 26% og fylgi Alþýðuflokks fór aldrei yfir 23% – ekki einu sinni í stórsigrinum 1978. Fylgi Alþýðubandalags (ef VG er tekið með því) á sama tímabili er að meðaltali 16% þar sem fylgi VG er tæplega 14% en hefur sveiflast frá 9% til 22%.

Það fróðlega er að fylgi vinstri flokka á Íslandi er að meðaltali 38% síðustu 50 ár. Fylgi hægri flokka er 37% og fylgi miðjuflokka er 22%.

Það hefur ekki haft afgerandi áhrif á fylgi vinstri flokka hvort þeir bjóða fram tveir eða fleiri. Ef eitthvað er þá er fylgið ögn meira þegar flokkarnir eru fleiri – en á móti kemur að við slíkar aðstæður er auðveldara að mynda stjórn til hægri.



Þessi mynd sýnir skiptinguna hægri (græn)-miðja (rauð)-vinstri(blá) síðustu 50 ár. Hér sést að þegar vinstri flokkar sækja á þá er það aðallega á kostnað miðjunnar. Kosningarnar 2009 eru einstakar að því leyti hve fylgishrun Sjálfstæðisflokks var mikið. Eins tekur hægri sveifla frá miðjunni.

Skoðum vinstri hreyfinguna:




Fylgi vinstri manna er nokkuð sveiflukennt en það er alveg ljóst að síðustu 50 ár hefur hagur þeirra vænkast mjög. Munar þar mest um stökkið 1978. Ef undan er skilin óvenjulega góð niðurstaða í síðustu kosningum þá hefur fylgi vinstri flokka verið mjög stöðugt síðustu 30 ár. Að vísu með dýfu í miðjunni sem kalla má Davíðsdýfuna.

Samfylkingin fékk augljóslega megnið af atkvæðum vinstri manna við stofnun og róttæka vinstrið hefur hlutfallslega verið fulltrúalaust síðustu tvo áratugi. Góð úrslit Vg síðast koma ekki til af því að flokkurinn hafi endurheimt hlutfallslega stöðu sína. Þau eru fyrst og fremst afleiðing af andófi við hægrið og miðjuna.

Það þarf ekki lengi að horfa á þessa mynd til að sjá að allar óskir um endurhvarf til tíma Alþýðuflokks byggja ekki á glæstri sögu þess flokks. Hann hafði tapað jafnt og þétt fylgi frá því hann toppaði 1978 og var í sögulegu samhengi alls ekkert sérstaklega stór flokkur á landsvísu.

Það er hinsvegar líka ljóst að Samfylking getur ekki annað en búist við fylgishruni. Bæði vegna þess að flokknum hefur enn ekki verið refsað fyrir þátt sinn í hruninu (það bragð virkaði að stefna Jóhönnu fram enda þótti hún nógu heiðarleg og nógu fjarri flokksklíkunni til að kjósendur hefðu geð til að kjósa hana. Fylgi Samfylkingar árið 2009 undir stjórn Jóhönnu hlýtur að teljast einhver stærsti kosningasigur sögunnar). Samfylkingin á enga góða leið út núna. Almenningur er alls ekki búinn að senda flokknum þau skilaboð sem þarf og trúin á að Jóhanna breyti öllu hefur dofnað. Það er eiginlega óforskammað af innvígðum flokksmönnum að gefa í skyn að vandræði flokksins séu Jóhönnu að kenna. Vandræði flokksins stafa af því að almenningur hefur enn síðbúna óbeit á flokknum. Hugmyndir um að stofna Alþýðuflokk til að snúa á almenning eru frekar slöpp tilraun til kennitöluskipta.

Í raun hefði maður haldið að hnignun Samfylkingar væri yfirvofandi hvað sem hruninu líður. Úrslitin 2007 í miðri bólunni þegar Samfylkingin hélt hún hefði fært landsmönnum heiminn benda til þess að hnignun hafi þegar hafist.

Af vinstra landslaginu má kannski helst draga þá ályktun að síðustu tvo áratugi hefur skort hugmyndafræðilega stöndugan valkost vinstra megin við kratismann. Vg stendur ekki undir því að vera umhverfissinnaflokkur, kvenréttindaflokkur og kommúnistaflokkur – allt í einu. Umhverfissinnaðir, kommúnískir femínistar eru eru tiltölulega lítið sniðmengi í miklu stærri mengjum.



Ég flokka Frjálslynda með miðjufylginu. Þar hefur Framsókn verið einrátt áratugum saman og ekkert hefur getað komið í veg fyrir næstum linnulaust fylgistap hans. Síðustu 30 ár hefur flokkurinn hægt og rólega horfið niður í helming þess sem var fyrir hálfri öld.

Aukningin 1995 var fyrst og fremst keyrð áfram á auglýsingamennsku en vonlaus ríkisstjórnarþátttaka í framhaldinu hefur haldið áfram að tæta fylgið af flokknum.

Miðjan í íslenskum stjórnmálum þolir vel 20% fylgi á móti tæplega 40% skiptingu sitthvoru megin við miðju. En þar liggur einmitt kjarninn í hruni Framsóknar. Fólk er löngu komið með ógeð á flokknum sem til skiptis hefur þjónað sem millistykki til hægri og vinstri. Flokkurinn er að flestra áliti hugsjónalítill hagsmunagæsluflokkur. Og aðkoma hans að síðustu ríkisstjórnum sem hann tilheyrði var ömurleg og er að mestu óuppgerð ef frá er talið augljóst fylgishrun.

Þá er Framsóknarflokkurinn mjög óheppinn með suma, áberandi þingmenn sem vinna gegn öllum ímyndum þess að flokkurinn sé hófstilltur og öfgalaus.

Hér er líka sóknarfæri. Framsóknarflokkurinn er ónýtt vörumerki. Þetta er flokkur sem hægt er að útrýma ef sæmilega góður kostur kemur fram. Sá kostur þarf hinsvegar að forðast það að verða millistykki. Hann þarf að hafa hugmyndafræðilega dýpt. Vandinn er bara að hreyfiaflið er miklu meira á jöðrunum en á miðjunni. Hin öfgafulla, og á tíðum hatursfulla, pólitíska umræða á landinu býður ekki upp á þroskaða, málefnalega umræðu. Sigmundur Davíð ætlaði að verða maðurinn sem kæmi inn með ískalda, menntaða skynsemi en er löngu farinn að gelta með hinum hundunum. Þ.e. þegar heyrist í honum fyrir flóninu henni Vigdísi Hauks.



Íslenska hægrið er fáránlega stöðugt. Það sveiflast eins og sjávarföllin úr rúmum 40% í tæp 35%. Útkoman síðast var stórkoslega léleg en enganveginn merki um andlát. Flokkurinn tók þá á sig einn sök beggja stjórnarflokkanna. Þar sem hrun flokksins var sumpart óverðskuldað verður hluti þess fljótur að koma til baka. Hann fer aldrei mikið undir 30% í næstu kosningum og gæti jafnvel endað nær 35%.

Margir vilja halda þeirri mynd á lofti að Sjálfstæðismenn eigi einir sök á einkavinavæðingu og hruninu. Sannleikurinn er auðvitað sá að þótt saga flokksins síðustu tvo áratugi sé forspilið að öllum hörmungum sem dunið hafa yfir þá var flokkurinn studdur af ráð og dáð af Framsókn og Samfylkingu. Þar með er allt pólitíska litrófið orðið samsekt utan Vg. Sem einmitt sitja nú í stjórn vegna þess og hafi alls ekki skapað sér mikið traust í þeirri setu. Vg hefur haldið nokkurnveginn sömu stefnu og búið var að marka í öllum stórum málum og kennir fortíðinni um allt sem er óvinsælt. Þá er tími Steingríms J. á þrotum. Flokkurinn hefur hinsvegar ekki gætt þess að endurnýja sig og hefur of mörg járn í eldinum til að safna til sín fylgi. Hann endar líklega í svipaðri stærð og Framsókn og mega báðir vel við una.



Niðurstaðan af þessu öllu er sú að fjórflokkur er ekki endilega besta lýsingin á pólitíska landslaginu á Íslandi. Ísland er, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað, enn pikkfast í hefðbundinni pólitískri hægri-vinstri-miðja skiptingu. Þótt manni finnst sem miðjan hafi verið að hverfa með hruni Framsóknar þá sýnir myndin hér að ofan að svo er alls ekki. Það er eftirspurn eftir miðjunni. Sem fyrst og fremst skapast vegna fælingarmáttar öfganna. Úrslitin síðast eru ekki svo ólík úrslitunum 1978.

Ef ekkert kemur fram sem skákar Framsóknarflokknum þá er líklegra en ekki að hann nái aftur til sín einhverju af fylgi. Hann liggur þó einkar vel við höggi.

Það er ekki sóknarfæri vinstra megin í litrófinu. Allir flokkar sem ætla að bjóða fram þar í næstu kosningum eru að berjast um innbyrðis fylgi. Það getur samt virkað því það er af nægu að taka bæði hjá Samfylkingu og Vg. Alvöru umhverfisverndarflokkur eða jafnréttisflokkur gæti vel fallið í kramið.

Framboð utan þessarar þrískiptingar eiga aldrei inni meira en örfá prósent. Þessi klassíska skipting nær alltaf a.m.k. 90% atkvæða.

Svo er einn möguleiki. Samfylkingin getur hreinlega tekið sér stöðu í miðjunni og reynt að hrifsa til sín það fylgi. Flokkurinn er að mörgu leyti vel til þess fallinn. Hann er ekki sérlega vinstri sinnaður og gefur sig út fyrir öfgaleysi.

Í raun má kannski segja að síðasta áratug hafi Samfylking verið starfandi Framsóknarflokkur með óvenjuhátt fylgi vinstra megin við miðju vegna þess hve Vg hefur verið óaðlaðandi valkostur - og öðru hefur ekki verið til að dreifa.


Hér sést berlega að í sögulegu samhengi er Framsóknarflokkur stærri flokkur en Alþýðuflokkur. Samfylkingin (rauða súlan frá 1999) er síðan greinilega miklu víðtækari flokkur en Alþýðuflokkur. En Samfylkinguna langar til að vera Sjálfstæðisflokkurinn-til-vinstri. 

Það er ekki raunhæft. 

Vinstri hlið íslenskra stjórnmála er brothætt og margslungin. Þeim megin er eftirspurn eftir flestu öðru en Samfylkingunni. Vaxtarrými flokksins er í miðjunni. En til að fara þangað þarf að gefa stórveldisóra um 40% flokk upp á bátinn. Íslenska miðjan er ekki nema rúmlega 20% að stærð.

Kosturinn við að koma sér þangað er hinsvegar sá að maður er mun oftar við völd en stærðin gefur til kynna. 

Að þessu sögðu held ég það sé óskaplega ólíklegt að við munum verða vör við mikla vinstri mennsku í pólitík kratanna á næstunni. Guðmundur Steingrímsson er þegar mættur í holuna – enda ætti hann að þekkja hana sem Framsóknarmaður að arfgerð en Samfylkingarmaður að svipgerð.

Það er bullandi pláss í kringum hann í litrófinu.

Vandinn er bara sá að kjósendur eru ekkert spenntir fyrir kostunum sem í boði eru. 

Eins og við sáum þá eru síðustu kosningar að mörgu leyti líkar kosningunum 1978, nema hvað hrun Sjálfstæðisflokks var þá minna. 




Næstu ár þar á eftir voru svona fyrir vinstrið:


Vinstrið klofnaði upp í hugmyndafræðilega aðgreindar einingar sem þó höfðu samanlagt minna fylgi en hefðbundna vinstrið. Vinstrið fór ekki að vaxa aftur fyrr en miðjan fór að láta undan. 

Koma Samfylkingafólks á miðjuna (hvort sem það er undir öðru nafni eða ekki) myndi einhver örugglega túlka sem sönnun þess að miðjan í íslenskum stjórnmálum hafi færst til vinstri.

Mér sýnist jafn ljóst að segja megi að vinstrið á Íslandi hafi færst til hægri.

Píratapartí mun aldrei sækja annað en inn í 5-10% vasann sem lúrir efst á upphafsmyndinni hér að ofan. Hreyfingin sækir sitt fylgi til vinstri og berst við Vg í næstu kosningum. Það gerir Lilja Mós líka.

Guðmundur Steingríms er í sinni holu og spurning er hvort brotni af Samfylkingu svo til verði nýr Framsóknarflokkur.

Sjálfur er ég orðinn vantrúaður á verulegar umbætur í stjórn landsins. Hrunið mun í sögulegu samhengi líklega virka eins og vinstri sveiflan '78 – sem eitthvað tímabundið og brátt órelevant þótt ég voni að á hundrað ára afmæli lýðveldisins verði aðrar persónur og leikendur í aðalhlutverkum en nú er. Það er meira en hægt er að segja um tímabilið frá því fyrir 1980 – því hér fara enn pólitískir minjagripir með völd og umræðan er svo steingeld að hún snýst í alvöru um væringar á milli manna eins og Stefáns Ólafssonar og Hannesar Gissurarsonar. 

Þjóðin má svara einni spurningu: Hvað höfum við gert til að verðskulda þetta?

Þegar svarið við henni er komið er allavega ljóst hvað beri að forðast.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvaða rök hefur þú fyrir því að "flokka Frjálslynda með miðjufylginu"? Er það bara svo að línuritið líti betur út.

Frjálslyndir voru og eru hægri flokkur, klofningsframboð út úr Sjálfstæðisflokknum og málflutningurinn til hægri, á tímabili mun lengra til hægri en Sjálfstæðisflokkurinn.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég var hugsi um það. Í grunninn eru þeir auðvitað hægri flokkur en þó voru alltaf skýr vinstri stef í málflutningnum. Ég tel þá hafa verið miðjuflokk, að meðaltali – eða sótt fylgi sitt þangað. Þrátt fyrir að hluti af fylginu, sérstaklega undir lokin, hafi auðvitað verið meira í ætt við Le Pen en nokkuð annað.

Nafnlaus sagði...

Þú misskilur fylgi Samfylkingar að því leyti að við stofnun árið 2000 fór það niður í 12 prósent en 1999 var Samfylkingin kosningabandalag.

Sigrar í sveitarstjórnarkosningunum 2002 voru síðan upptaktur að mesta fylgi kjörfylgi Samfylkingar til þessa sem var 2003.