31. júlí 2012

Óvarið land!



Ísland er lítið land sem byggt hefur á því að fólk þekkist. Gestrisni var höfuðdyggð á landinu enda datt engum í hug að misnota hana. Fólk var harðgert og ósérhlífið og leitaði ekki skjóls hjá öðrum nema tvennt kæmi til – brýn þörf og viljinn til gera öðrum hið sama.

Miklar breytingar á samfélagsgerðinni í kjölfar breytinga á atvinnuháttum urðu til þess að nokkurt rof varð. Þéttbýlið tapaði nokkru af nándinni – en þó ekki meira en svo að fólk þekkti hvert annað. Það er enn fjöldi fólks á Íslandi sem læsir ekki útidyrunum og skilur bílinn eftir í gangi meðan það hleypur einhversstaðar inn.

Ísland lagði niður landamæraeftirlit til þess að geta ferðast frjálst og óþvingað um önnur lönd. Samt kom í ljós þegar á reyndi að reynslan af því að ferðast óþvingað er ærið lík því þegar landið var lokað af. Aðeins hugrakkasta fólks þorir að setjast upp í flugvél án passa.

Þetta frelsi hafa útlendingar hinsvegar nýtt sér. Hingað til lands hafa síðustu ár streymt heilu glæpagengin frá jöðrum evrópusambandsins og lyft skipulagðri glæpastarfsemi á hærra plan. Sprautufíklar í fráhvörfum há nú harða baráttu við þrælskipulögð innflutt glæpasamtök um rán og gripdeildir. Þá eru vændiskonur fluttar til landsins í stórum stíl.

Við erum í aðildarferli að Evrópusambandinu þrátt fyrir að þetta sama samband hafi gert allt sem í sínu valdi stóð til að þvinga okkur til að greiða ósanngjarna skuld einkabanka. Sambandið tók að sér hlutverk handrukkara fyrir valdameiri ríki innan þess – enda ráða þau þar öllu og allt snýst um hagsmuni þeirra.

Á Íslandi eru ótrúleg völd komin í hendur fólks sem stjórnar af eigin geðþótta en ekki í neinu samræmi við þjóðarvilja. Kristnin er gerð útlæg úr skólakerfinu og sá sem játar trú sína getur þurft að óttast um vinnu sína. Lítill en hávær hópur situr um alla opinbera umræðu og öskrar af frekju og óánægju í hvert senn sem einhver dirfist að hafa aðra sýn á heiminn en þá réttu.

Allt sem ber vott um þjóðerniskennd eða stolt er bannað. Það má ekki segja að handboltalandsliðið sé þáttur í þjóðarsálinni vegna þess að þá er maður sjálfkrafa, í augum móralska minnihlutans, orðinn argandi nasisti eða útrásarvíkingur. Hrun bankanna hefur verið útmálað sem einhverskonar syndafall – eitthvað sem þjóðin á að skammast sín fyrir um aldur og ævi, og hún á helst leggja niður séreinkenni sín og verða dvergríki innan ESB af einskærri skömm.

Samt horfa menn fram hjá því að það var ekki hugrekki og dugnaður þjóðarinnar sem kom henni á hnén. Það var kerfisbundin mismunun sem verndar og styður við fjárglæframenn og banka. Venjulegt, skuldugt fólk má eiga sig og halda áfram að kreista úr sér blóð til að veita í blóðrás bankaskrímslanna – sem enn, jafnvel eftir hrun, njóta þess að vera í gjörgæslu valdsins. Bankarnir mega ekki þjóna fólkinu í landinu því hlutverk þeirra er að leika hlutverk í evrópsku og alþjóðlegu leikriti. Þeir eru mjaltakonur valdablokkar heimsins – og almenningur er kýrnar.

Ísland er misnotað sem stökkpallur til Ameríku af flóttamönnum. Þeir koma hingað og ljúga til um aldur og ætlan. Þykjast vilja vera á Íslandi. Ef við samþykktum þá myndu þeir stökkva upp í næstu vél til Boston og ekki sjást meir. Ef við neitum reyna þeir samt að fara upp í næstu vél til Boston. Rétthugsun krefst þess að við kennum svo í brjóst um þá að við eyðum stórfé í að fæða þá og klæða og þegar þeir fremja lögbrot meðan þeir bíða eftir úrskurði eigum við að líta undan eins og um óvita sé að ræða. Sá sem sýnir styrk og aga og bendir á það augljósa að hælisleitendur sem ekki vilja hæli og stunda afbrot ofan í kaupið eigi að fara með næstu ferð til baka heim til sín, er útmálað illmenni, rasisti og ómenni. Pólitísk rétthugsun hefur gert okkur að þögulum liðleskjum sem þora ekki að standa á prinsippum eða stolti.

Vissulega vilja Íslendingar hjálpa fólki sem er í neyð. En það er nóg af raunverulegri neyð í heiminum til að berjast gegn þótt maður leggi ekki ofuráherslu á að dæla peningum í unga karlmenn af vafasömum uppruna sem þykjast koma úr hræðilegum aðstæðum – sem voru samt ekki hræðilegri en svo að þeir skildu mæður sínar, systur og jafnvel börn eftir til að bjarga sér sjálf. Auk þess er það besta sem maður gerir til að „bjarga heiminum“ að rækta eigin garð. Það er ekki hægt að rækta fallegan garð ef maður leggur almenningsgöngustíg gegnum hann þveran og endilangan.

Íslendingar fóru í nám til útlanda fyrir Shengen. Þeir störfuðu líka erlendis. Það eru Íslendingar að störfum um allan heim og í námi. Þeir þurfa yfirleitt að hafa fyrir því að komast til landanna enda eru flest lönd með lágmarksvarnir til að tryggja að fólk komi til þeirra af góðum hug.

Ísland á að sjálfsögðu að taka upp slíkar varnir. Þrjúhundruð þúsund manna þjóð getur ekki staðið óvarinn gagnvart hundruðmilljóna hít þar sem botnhratið hefur frjálsa för um í leit að auðveldasta skotmarkinu.

Íslendingar eru óvarðir vegna þess að þeir hafa ekki þurft þessar varnir. Þetta hefur verið samfélag manna sem tengdir eru saman ættar og vinaböndum. Þjóðin hefur tekið saman höndum í gleði og sorg og verið stolt af sérstöðu sinni, tungu og uppruna.

Dyr standa ólæstar vegna þess að langflestir Íslendingar myndu aldrei ganga óvelkomnir inn hjá öðrum.

Og svo framvegis...

Allt sem sagt er hér að ofan er sannfæring óþægilega stórs hluta þjóðarinnar.

Í 50 ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið einn að tæplega 40% fylgi hægri manna.

Það eina sem kemur í veg fyrir stórsókn últrahægrisins er almennur rasismi og þjóðremba í öðrum flokkum. Og það hve slappir talsmenn þess hafa verið.

Það er bara tímaspursmál hvenær últrahægrið kemst hér á alminlegan skrið. Það hvarf af yfirborðinu á sínum tíma af þeirri einu ástæðu að þjóðin varð svo svívirðilega rík af því að nýta sér spennuna í samskiptum ríkja. Nú hefur sú spenna hjaðnað og peningaflóðið fjarað út. Eftir situr illa menntuð þjóð full af gremju og heift. Gamli fasistinn verður ekki lengi að poppa upp aftur.

Gangi þeim vel sem ætlar að vinda ofan af því þá.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein hjá þér, Ragnar.

Þetta er allt innilega satt hjá þér.