27. júlí 2012

Glóran í geggjun Breivik

Andrés Breivik er að öllum líkindum ekki geðveikur í neinni þannig merkingu að það valdi geðrofi eða skerði hæfni hans til að skilja hvað hann er að gera. Maðurinn er ekki veikur – hann er illur.

Ég hef verið að lesa nokkur bréfanna sem hann sendir skoðanasystkinum sínum úr fangelsinu – og þar blasir við dálítið óhugnarleg glóra í öllu ógeðinu.

Breivik óttast það mest að vera úrskurðaður ósakhæfur. Ég hélt fyrst að það væri vegna þess að hann telji að það hafi áhrif á skoðanir fólks á honum og dragi úr þeirri sjálfskipuðu ímynd að hann sé hermaður í stríði. Það er samt ekki ástæðan. Ástæðan er sú að verði hann dæmdur fyrir glæp setur það sjálfkrafa hámark á þann tíma sem hægt er að halda honum föngnum. Rúmlega tuttugu ára hámarksfangelsi fyrir glæpinn er eitthvað sem maðurinn er tilbúinn að leggja á sig. Hann er hugfanginn af líkamlegu og andlegu hreysti og verður kominn aftur út í samfélagið, iðrunar- og betrunarlaus, rétt rúmlega fimmtugur. Þá á hann eftir áratugi sem frjáls maður til að ylja sér við „afrekið“ og njóta ávaxta erfiðis síns.



Breivik telur sig vera í stríði við „frjálslynt fjölmenningarsamfélag.“ Hann á sér marga skoðanabræður og eina hindrun í vegi þess að milljónir Evrópubúa hallist á sveif með honum eru umtalsverð þægindi og ákjósanleg lífsskilyrði í álfunni. Við höfum sem heimshluti veðjað á makræði og innrætingu sem vörn gegn fasisma og grimmd. Það er hættulegt.

Hægri öfgamenn eru þegar byrjaðir að hreiðra um sig í opinberu lífi Grikklands, þeir hafa árum saman verið áberandi í Rússlandi. Evrópa er umlukin blóðsúthellingum í allar áttir nema þær sem snúa að hafi. Fólki er slátrað í stórum stíl í Sýrlandi og arabíska „vorið“ virðist víðast hvar mynda einhverskonar valdabaráttu þar sem aðalleikendur eru herforingjar, íslamistar og frjálslyndir. Þar sem þeim með vopnin vegnar best.

Breivik og skoðanasystkini hans líta svo á að Evrópa sé eins og vel þjöppuð púðurtunna sem muni springa fyrr eða seinna. Þeim fellur það ekkert illa að kveikja neista í tunnunni og sjá hvað gerist. Leifturstríð Breiviks er „mikilfengleiki“ (spectacular actions). Hann bendir á í bréfi úr fangelsinu að fangelsi Evrópu séu full af skoðanabræðrum. Þeirra aðgerðir hafi aðeins skort „mikilfengleikann.“ Aðgerð Breiviks var svo yfirgengilega grimmileg að hún sogaði til sín athygli. Nokkuð sem venjulegar hatursárásir gera ekki.

Ef Breivik tækist með þessum „neista“ að framkalla aðra árás – þá er ómögulegt að álykta hvaða áhrif það hefði. Ungir ofstopamenn geta í frjálslyndum löndum murrkað lífið úr börnum, konum og gamalmennum og vænst þess að vera orðnir frjálsirfyrir fertugt. Breivik bendir einnig á í bréfi að þjóðernissinnarnir þurfi að ná meiri ítökum og skipulagi í fangelsum – þar sem múslimar eru í mörgum löndum í miklum meirihluta. Hann horfir með nokkurri aðdáun til BNA í þeim efnum – þar sem rasistar hafa þrautskipulagða starfsemi innan fangelsa.

Og hvað getur frjálslynt, fyrirgefandi samfélag gert gegn slíkri ógn?

Evrópa samþykkir hvorki dauðadóm né ótakmarkaðar fangelsisvistir. Mál Breiviks hefur sýnt að það er freistandi að misnota „réttarvernd“ andlega veikra til að geta lokað illskuna inni sem lengst. Slík lausn sýnir samt hættuna sem við stöndum frammi fyrir. Það að úrskurða sakhæfa menn ósakhæfa til að geta fangelsað þá lengur er einmitt skref í átt frá frjálslyndu réttindasamfélagi. Skref í átt til sigurs fyrir fasistana og áróðursmenn illskunnar. Hið sama myndi gilda ef dómar yrðu hertir eða dauðarefsingar teknar upp. Hin frjálslynda Evrópa stærir sig af réttindum allra. Breivik lét á það reyna og svo virðist sem Noregur ætli að standast prófið. En Evrópa er stærri en Noregur. Það er ekki svo ýkja langt síðan Assad Sýrlandsforseti var álitinn frjálslyndur samfélagsbætir.

Það er ekki svo að Evrópa hafi þroskast svo að blóðsúthellingar séu óhugsandi á næstu áratugum. Ef saga álfunnar er skoðuð þá bendir fleira til þess að grimmdin, heimskan og illskan fari vaxandi en hitt. Fyrir hundrað árum héldu menn að það versta væri að baki. Svo reyndist alls ekki vera. Fordæmalaus illska og grimmd blossaði upp á engri stundu og hjaðnaði svo aftur án þess að nokkur vildi kannast við eigin þátttöku. Allt var skrifað á reikning örfárra manna, Hitlers, Stalíns, Mússolínis, Frankós, eins og þeir væru dávaldar frá Hameln – sem svipt hefðu heilu þjóðirnar jarðtengingu. Andsetnar holdtekjur illskunnar sem birst hefðu úr öllum tengslum við framboð og eftirspurn.

Mér þykir það leitt – en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að tuttugasta öldin hafi ekki skilið eftir sig neina þá arfleið sem kemur í veg fyrir endurtekningu. Illskan er eins og eldgos. Verulega stórt gos getur lengt biðina eftir því næsta. En það kemur. Það þarf einkennilega rörsýn til að halda trú á „frið á vorum tímum“ horfandi upp á blóðið flóa eftir götunum í löndunum kringum Evrópu.

Það fólk sem rekur upp á strendur okkar, flýjandi hatrið og heiftina, er tortryggt. Fyrrum forsætisráðherra landsins hrærði í þeim potti fyrir örfáum dögum. Ekki aðeins hunsum við grimmdina í túnfætinum hjá okkur heldur líkar okkur það illa þegar einhver forðar sér á hlaupum yfir til okkar – og viljum helst reka þá til baka. Slík var okkar saga. Hún er þannig enn.

Frjálslynt samfélag sigrar ekki hægri öfgamenn með því að dæma þá með dómskerfi sem hugsað er til betrunar og gæslu réttinda. Breivik situr nú og skrifar sína Mein Kampf í þægilegu fangelsi. Hann er kannski peð. En það var Hitler líka. Um 1920 varð Hitler meðlimur númer 505 í flokknum sem rúmum áratug seinna tók öll völd í landinu. Rúmlega fimmhundruð hljómar sem ansi sterkur grunnur stjórnmálaafls en raunin er sú að þeir byrjuðu að telja við 500. Það voru ekki nema 105 í flokknum sem síðan steypti Evrópu í mestu grimmdarverk sögunnar.

Það eina sem þurfti var tækifærismennska, ófriður og ósætti. Ris nasismans sýndi að lýðræðið er ekki vörn gegn illsku.

Fyrsta merki þess að þjóðir séu ónæmar fyrir grimmd er hvernig þær taka á þeim sem koma flýjandi undan grimmd annarsstaðar. Þannig var það í aðdraganda helfararinnar og þannig er það enn.

Það er grunnt á gæsku í garð flóttamanna á Íslandi árið 2012. Miklu grynnra en það ætti að vera.

Ég óttast það mjög að Evrópa gæti, við ákveðnar aðstæður, horfið enn á ný ofan í hyl fasisma og grimmdar. Látum Þýskaland liggja milli hluta. Skoðum Frakkland og England. Þessi tvö ríki hafa háð tæplega 40 stríð sín á milli eða í sameiningu gegn þriðja aðila í einhverri mynd síðan um 1100. Það er nýtt stríð að meðaltali á 23 ára fresti.

Og ef menn halda að þessi stríð séu flest í grárri forneskju þá er meðaltalið stríð á 16 ára fresti síðan árið 1900.

Það er frekar verið að gefa í en hitt virðist vera.

Mitt álit er það að við ættum að líta á stríð sem krónískan menningarsjúkdóm. Það versta sem við gerum er að láta sem við séum læknuð. Og því verri eru grillurnar sem þær stangast berlegar á við ástandið allt í kringum okkur. Stríð er smitsjúkdómur sem sífellt blossar upp.

Stríð er ástríðudrifin heimska. Sá sinnulausi fer sjaldnast í stríð. Það þarf einhvern æsing. Einhverja illsku. Andrés Breivik er að gera það sama og Hitler og Göbbels gerðu. Áróður hans er næstum nákvæmlega sá sami. Pósitífa hliðin er ímyndin um þetta:



Negatífa hliðin er andúð á fólki sem virðist á yfirborðinu ólíkt okkur.

Í negatífu hliðinni býr sprengikrafturinn. Í þeirri pósitífu býr réttlætingin.

Hættan sem stafar af hægri öfgamönnum er ekki hugmyndafræðileg. Hættan steðjar að grunngildum þess frjálsa og upplýsta samfélags sem við höfum reynt að móta úr rústum siðferðishruns síðustu aldar.

Heilbrigði menningar má eflaust mæla á ýmsan hátt. Besti mælikvarðinn sem okkur stendur til boða er samfélag sem viðurkennir virði hvers einasta einstaklings. Af þeirri viðurkenningu sprettur allt annað. Frelsi þessa sama einstaklings til athafna, orða og skoðana og ábyrgð hans gagnvart öðrum.

Við höfum sjálf sett okkur í hættu. Samfélag sem tryggir frið með makræði og innrætingu er samfélag á brauðfótum. Hugmyndafræðileg fátækt er vandamál. Og þessi hugmyndafræðilega fátækt er ekki tilkomin, eins og svo oft áður, vegna veraldlegrar fátæktar sem kreppir að andlegu lífi. Hún er komin til af makræði og engu öðru.

Ég fór í gær að gefa blóð. Þar sagði hjúkkan mér að þau reyndu að ná til menntaskólakrakka – á þeim aldri þegar þeir vilja enn bjarga heiminum.

Sjáum við í íslensku samfélagi merki þess að hverri nýrri kynslóð fylgi endurnýjaður máttur í sköpun betri heims?

Nei, alls ekki.

Um pólitíska skákborðið eigra hugmyndafræðilega stropuð gamalmenni og furðufuglar. Unga fólkið sem tjáir sig, tjáir sig með gif-myndum um einfalt, yfirborðskennt tilfinningalíf nautnaseggsins.

Það gat verið gaman í Weimar-lýðveldinu. En lýðveldi sem byggir á leikum og brauði stendur á fótum úr því sama.

Hugsjónir verða ekki til af sjálfum sér. Þær þarf að laða fram og rækta. Þær eru persónulegar. Þær festa rætur í manneskjunni og veita vörn gegn sviptivindum.

Einhliða áróður getur haft yfirborðskennd áhrif. Manneskjan virðist á yfirborðinu aðhyllast hugsjón. Sem þó fýkur burt í fyrstu éljum.

Það sjúklega við Andrés Breivík er að áróður hans stenst enga skoðun. Kjarni hans er of einfaldur, of óraunhæfur, of bitur og heimskulegur. Það þarf sjúklegt ástand til að fasismi verði að hugsjón.

Hættan stafar af því að hugsjónalaust samfélag kann ekki að greina á milli – og kann engar aðferðir til að díla við heimskuna aðrar en að auka áróðurinn og reyna þöggun. Þegar sá dans er byrjaður standa menn höllum fæti þegar grimmdin kemst næst á kreik.

Það eina sem stöðvar grimmd í lýðræðisríki er viðmótsþol nógu margra einstaklinga sem láta ekki reka með straumnum. Og sú lagalega skylda að allir hafi rödd – líka þeir óvinsælu.







Engin ummæli: