Í gærkvöldi rakst ég á stórkostlega tilvitnun í Mogganum frá miðri síðustu öld.
Mogginn 1949:
„Augljóst er, að sá kennari er algerlega óhæfur til barnakennslu, sem ekki getur eða vill kenna þar kristin fræði, eða kristna trú. Þetta er byggt á því, að sá kennari á ekki til það hugarfar, sem leiðir barnið til trúar og siðgæðis. Eigi hann í stað þess byltingarandann, sem leiðir til haturs, á ekki að líða hann í kennarastöðu.“
Ég las líka frábæra grein eftir Freyju Haraldsdóttur þar sem hún gaf Sigurði Líndal á baukinn. Greinin kveikti líka ákveðnar, gagnrýnar pælingar hjá mér um það hvort það geti virkilega verið eðlileg og sjálfsögð krafa að allt líkamlega fatlað fólk fái þjónustu á borð við þá sem Freyja lýsir – þjónustu sem gerir þeim kleift að lifa lífi sem er eins sambærilegt við líf ófatlaðra og mögulegt er.
Ég fór líka í langan göngutúr með tæplega tveggja ára son minn og við keyptum íslenskan ís sem unninn er úr ferskum ávöxtum eingöngu. Þegar við komum heim missti sá stutti restina af ísnum í gólfið og heimtaði sóp. Sem hann fékk. Eftir smástund var hann búinn að uppgötva hokkíið.
Ég skellti mér síðan á leik í fyrstu deild karla í sól og blíðu.
Um kvöldið tók ég æpaddinn með mér í bólið og horfið á tvo þætti af „Já, forsætisráðherra“ og hlustaði svo á þátt á NPR um garðinn hans Monets í Giverny.
Í morgun vaknaði ég svo snemma með afraksturinn af þessu öllu í kollinum.
Í gær kom veröldin mér sífellt á óvart. Hugmyndir tölvunördanna, garður Monets og uppátækjasemi sonarins. Aðeins eitt var fyrirsjáanlegt í allan gærdag. Það var dægurþrasið. Tímarit.is hefur nú loks gert mér það algjörlega ljóst að dægurþrasið er eilíft og óuppbyggilegt. Það liggur við að það hafi verið meira gefandi reynsla að taka gúlsopa af mygluðum Trópí í morgun en að fletta gegnum Blogg-gáttina og fésbókina. Það var þó allavega hressandi.
Íslenska dægurþrassamfélagið er örlítið korn í sandfjöru heimsins. Og samt hangir maður á þessu korni eins og saurbjalla sem fundið hefur magnaðan skít. Maður les umræður fram og til baka, skiptir um skoðun og leggur orð í belg. Á jafnvel stundum augnablik gefandi og heiðarlegra samræðna – en horfir svo á allt renna í sama farið. Að tjá sig um dægurþras er eins og að sitja og stara á vindhana og hafa skoðun á því hvert hann snýr.
Ég blogga fyrst og fremst til að endurnæra hugann eftir erfiða andlega vinnu. Blogg er mér þjálfun í tjáningu og ályktunarhæfni. Ég reyni stundum að benda á hliðar á málum sem mér finnst öðrum sjást yfir. Ég eyði ekki orku í að laga innslaáttarvillur. Ég blogga fyrir ákveðinn markhóp – sem ég tel mig tilheyra. Ég blogga ekki fyrir lesendur DV eða AMX. Ég eyði yfirleitt ekki einu sinni orðum í lesti þeirra. Nenni því ekki. Skoðanir þeirra skipta mig ekki máli. En það skiptir mig máli þegar fólk sem ég virði skoðar ekki allt sviðið. Ég get sagt eins og kerlingin, þeim var ég verst...
Nú er bara komið að því að ég ætla að taka mér hlé frá því að finnast eitthvað merkilegt sem er það í raun ekki. Ég ætla að vera eigingjarn og baða mig upp úr lystisemdum tilverunnar, fegurð alheimsins, kærleikans í samskiptum við þá sem maður elskar. Ég ætla, í einhvern tíma, að blogga ekki um íslensk stjórnmál eða dægurþras. Ég ætla ekki að láta straumiðu hversdagsins grípa mig og troða marvaða með fjöldanum. Ég ætla að fljóta á gúmmútuðru á úthafi þess fagra, góða og sanna.
Ég mun áfram skrifa hérna, til að tæma hugann og halda mér í þjálfun. En ég mun skrifa um eitthvað sem veitir mér innblástur; í stað þess sem angrar mig. Um það sem er í lagi; í stað þess sem er að. Ég held raunar að ef fólk almennt gæfi meiri gaum að því góða, þá myndi það versta hægt og rólega svelta í hel. Við viðhöldum helsinu með athygli og orðum.
Ég ætla hvorki að verða bláeygur Birtíngur né kaldhæðinn tómhyggjumaður. Ég ætla einfaldlega að hugsa, skapa og skrifa. Ég ætla að hafa sömu ástríðu fyrir endurkomu Sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum og ég hafði fyrir ríkisstjórnarrofinu í beinni útsendingu þegar ég var 12 ára; enga.
Ég ætla að lesa bækurnar mínar aftur. Lesa fleiri bækur. Njóta listar og menningar og halda áfram að reyna að innleiða með öðrum nýja kennsluhætti á landinu. Það er margt spennandi í pípunum. En eitt er alveg ljóst. Það er ekkert spennandi í þeim pípum sem íslensk dægurþrasumræða rennur um.
1 ummæli:
Var einmitt að hugsa að sama eftir að hafa rennt yfir 100 ára gamlar greinar um pólitík og trúarbrögð á timarit.is, sumar sem gætu vel hafa verið skrifaðar í dag.
Skrifa ummæli