14. júlí 2012

Kristileg ofurviðkvæmniSigurbjörn heitinn biskup spáði því fyrir margt löngu að um síðustu aldamót yrði kristni meira og minna dauð í landinu. Engar ástríður yrðu henni tengdar.

Hann fór glettilega nærri því karlinn. Síðasti áratugur síðustu aldar var voðalegur barningur fyrir kristna kirkju á Íslandi. Þjóðkirkjan veslaðist upp í vandræðagangi og óþverra og sviðsljósið færðist sífellt meira yfir á heittrúarútgáfur – sem virðast meira og minna að lognast útaf líka núna.

Þess vegna finnst mér það koma dálítið spánskt fyrir sjónir að nokkur skuli árið 2012 vera virkilega viðkvæmur fyrir því að vera hótað útskúfun úr himnaríki. Hélt að bannfæringarmátturinn væri ekki til staðar lengur.

Enn meira er ég þó hissa á því að einhverjir skuli virkilega nenna að æsa sig yfir því að hinum eða þessum sé líkt við Júdas Ískaríot.

Það er eiginlega stórfurðulegt.

Viðkvæmnin er greinilega lífseigari en ástríðan.

1 ummæli:

Gudbjartur Nilsson sagði...

Mikið innilega skil ég þig.

Verð samt að játa að það er missir af þér í dægurþrasheimum, þú hefur verið piparkorn í oft á tíðum gráslepjulegum umræðum.

Menn, sem geta sett fram staðfasta heimsmynd sem ekki þarf að bifa þó gegnum hana renni jaðartilfelli sem reyna á sannfæringuna, eru að verða æ sjaldgæfari í umræðunni.

En kannski þarf umræðan á því að halda að verða einsleitnari og bragðlausari. E.t.v. átta sig þá einhverjir á því að með því að umbera ekki viðhorf fólks og tilveru þrátt fyrir ólíkar skoðanir og kenndir þá gera þeir tilveruna litlausa og fyrirsjáanlega og fara þannig á mis við þá dásemd sem þetta fjölbreytta líf okkar hefur upp á að bjóða.

Vegni þér vel á þínum vegum og Guð blessi þig*.*Ég veit að þessi kveðja er úr takti við tímann en þetta er innilegasta kveðja sem ég get gefið og ég vona að þú upplifir hana sem slíka:)