19. júlí 2012

Járn dregið úr eldinum

Ég er þeirrar bjargföstu trúar að tæknin sé komin til að vera og það sé tímaspursmál hvenær hún valdi algjörri umbyltingu á menntun. Á Íslandi stöndum við frammi fyrir þrem flöskuhálsum sem munu á ófyrirsjáanlegan hátt tefja nauðsynlegar umbætur.

Það er skortur á tækjum til upplýsingamiðlunar í skólum.

Það er skortur á þekkingu á upplýsingatækni.

Það er skortur á íslensku efni til notkunar í kennslu.

Fyrsta vandamálið er pínlegt í ljósi þess að nú þegar eru staðan þannig að næstum allir grunnskólanemendur frá tólf ára aldri mæta í skólann með síma sem er í raun og veru nægilega öflug tölva til nota í námi. Skólakerfið hefur dregist verulega aftur úr hinu raunverulega samfélagi – sem er sérlega slæmt því skólakerfið hefur það hlutverk að undirbúa fólk undir líf og störf í framtíð. Tíu ára barn í íslenskum skóla mun líklega fara út á vinnumarkaðinn kringum árið 2032!

Þekking á notkun upplýsingatækni mun vera vandamál áfram – en þó er líklegt að það mál muni leysast af sjálfu sér þegar tæknin verður einfaldari og aðgengilegri. Í raun er tæknin í dag orðin það auðveld í notkun að ég held að þekking á upplýsingatækni hætti að vera hindrun. En við það blasir raunverulega hindrunin við – sem er skortur á kennslufræði og viðhorfum sem taka mið af breyttu samfélagi.

Þá er það síðasta atriðið. Skortur á námsefni.

Í upplýsingatæknisamfélagi rennur námsefni saman við aðrar upplýsingar. Námið er kannski fyrst og fremst fólgið í því að læra að nema upplýsingar. En staðreyndin er samt sú að skortur á efni stendur íslenska skólakerfinu fyrir þrifum.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sem þurfi nú er að kennarar gerist dálítið örlátir á vinnu sína og efni.

Í þeim tilgangi hef ég síðustu mánuði tekið námsefni sem ætlað var til einkanota og gert það þannig úr garði að það geti orðið öðrum að gagni.

Mig langar hér með að bjóða hverjum sem vill vefinn Hugsuðir – skapandi íslenskukennsla.


Síðan er hugsuð fyrirunglingastig. Þar má finna myndbönd með málfræðiinnlögnum, kveikjur til heimspekilegra pælinga, siðfræðitexta og tæplega hundrað brot af fagurbókmenntum og annarri listsköpun.

Allir höfundar, útgefendur og aðrir sem ég hef nálgast hafa óhikað gefið leyfi fyrir notkun efnisins. Auk þess vil ég glaður gefa allt efni sem ég er sjálfur höfundur að (þ.m.t. málfræðiinllagnirnar). Þær eru í almenningseign og þær má klippa til og nota hvernig sem hver vill).

Markmið mitt er að styðja við íslenskukennslu sem hefur það að markmiði að leiða nemendur áfram til þess að verða skapandi, gagnrýnir einstaklingar. Og búa til námsefni sem gerir nemendur meira sjálfbjarga við málfræðinám – svo kennari og nemandi geti eytt tíma sínum saman í uppbyggilegri hluti en að kennari þylji upp einkenni hljóðvarpa eða atviksorða.

Það er trú mín að svona síða geti nýst þeim sem vilja spegla kennslu sína eða flippa henni eins og það er kallað. En spegluð er sú kennsla sem felst í því að nemandi tileinki sér efnið sjálfur en vinni síðan úr því í samfélagi við kennara og aðra nemendur. Henni er stillt upp andspænis hefðbundinni kennslu sem felur í sér að kennarinn matar nemanda á upplýsingum en síðan er það nemandans sjálfs að vinna úr því sem hann lærir.

Auðvitað hljóta að vera einhverjar villur í efninu. Ég vona að ég verði látinn vita af þeim. Ég reyni þá að laga þær. En ég bið fólk að virða viljann fyrir verkið.

Ég bið fólk að dreifa þessari síðu til allra sem gætu haft af henni gagn. Ég mun enn auka við hana fram eftir hausti og í vetur. Eins skora ég á aðra kennara að leita leiða til að við getum samnýtt efni. Því meira af efni sem við komum út í íslenska upplýsingasamfélagið – því fjölbreyttari leiðir eru til náms.

Ekki veitir af.

Ég er síðan í mjög spennandi samstarfi með Stjörnufræðivefnum. Ég hlakka mikið til að afhjúpa það sem þar er væntanlegt.

En þar hefur Sævar Helgi Bragason gengið fremstur í að leggja á sig gríðarlega vinnu við að bjóða upp á alvöru, ókeypis gæðanámsefni í stjörnufræði.

En meira um það bráðum.

1 ummæli:

Bjarki sagði...

Frábært framtak hjá þér. Þú átt miklar þakkir skildar fyrir þá miklu vinnu sem þú hefur lagt í þessi verk.
Kær kveðja,
Bjarki Jóhannesson.