4. júlí 2012

Heilindi samfélagsins

Mikson
Í júní 2001 birtist bréf í Morgunblaðinu eftir einn af mörgum „þjóðaróvinum“ Íslendinga, Efraim Zuroff. Bréfið var ritað í hófsömum stíl en fól í sér áminningu til íslensku þjóðarinnar um að hún yrði að geta horfst í augu við hrylling fortíðar þótt það reyndi á persónuleg sambönd og samskipti hjá þessari smáu þjóð. Í bréfinu rekur Zuroff það sem teljast verða endanleg sönnunargögn um það að Eðvald Hinriksson hafi sannanlega verið sekur um hryllilega glæpi í Eistlandi í Seinni heimsstyrjöld.

Eðvald, sem þá hét Evald Mikson, var fyrrum knattspyrnukempa sem varð yfirmaður Omakaitse-sveitar sem fór um með handtökum og gripdeildum. Fjölmörg vitni voru að glæpum Mikson – sem gefið var að sök að fóðra gyðingaofsóknavél nasista á fórnarlömbum, aftökur án dóms og laga, nauðganir og gripdeildir. Gögn benda til þess að Mikson hafi að endingu gengið fram af Þjóðverjum sem hentu honum í steininn fyrir að stela eignum fórnarlamba sinna.

Eftir stríð forðaði hann sér burt en var Mikson vísað frá Svíþjóð og hann reyndi að komast til Venesúela með skipi frá Noregi. Skipið strandaði við Ísland og hér varð hann áfram. Hann kynnti þjóðina fyrir körfubolta og þjálfaði fótbolta og hnefaleika meðal annars. Tveir synir hans urðu landsliðsmenn í fótbolta og annar landsliðsþjálfari.

Árið 1961 benti Árni Bergmann á að upplýsingar væru fram komnar sem bentu eindregið til glæpa Eðvalds í sínu fyrra lífi í Eistlandi. Hann birti m.a. í Þjóðviljanum ljósmynd af handtökuskipun ungar stúlku (sem síðan var myrt) sem undirrituð var: „E.Mikson.“

Þetta var í miðju kalda stríðinu og sönnunargögnin voru ættuð frá Sovétmönnum. Það varð því borgarlegum, hægri sinnuðum blaðamönnum á Íslandi sönn ánægja að stökkva fram til varnar virtum samborgara og afskrifa málið sem fals og pretti. Leið svo og beið.

Zuroff


Þegar hylla fór undir lok síðustu aldar fór téður Efraim Zuroff um allar koppagrundir fyrir hönd stofnunar Símons Wiesenthals í leit að síðustu eftirlifandi stríðsglæpamönnum helfararinnar. Böndin bárust nú enn á ný að Mikson. Um þetta leyti voru bönd Íslendinga við Eistland nokkuð flókin enda hafði annar oddviti ríkisstjórnarinnar, Jón Baldvin, öðlast hálfgerðan hetjustatus þar í landi vegna viðurkenningar Íslands á frjálsu Eistlandi.

Tveir íslenskir blaðamenn voru lang virkastir við að grafa upp sannleikann í málinu. Annarsvegar Þór Jónsson á Stöð 2 og Karl Th. Birgisson á Pressunni.

Pressan gerði sig út sem hart blað sem vílaði ekki fyrir sér að stíga á tær en Stöð 2 var aðeins meira meinstrím. Þór var ekki auðveldað lífið þar á bæ þegar kom að birtingu sönnunargagna sem í sífellt meira mæli bentu til eindreginnar sektar Eðvalds. Pressan stundaði öfluga blaðamennsku og birti heimildir sem hefðu átt að taka af allan vafa um staðreyndir málsins.

Pressan sáluga á ekkert skylt við Pressu Binga sem sérhæfir sig í  froðusmellum


Aftur tók Mogginn til varna og í þetta skipti stigu fram stjórnmálamenn, þar á meðal Jón Baldvin, sem reyndu að varpa efa yfir sönnunargögnin og málið í heild. Fréttaflutningur Þórs og Karls þótti óvæginn og ónauðsynlegur. Sérstaklega í ljósi þess að Eðvald var orðinn fjörgamall og hrumur. Þjóðinni fannst sem um óþarfa einelti væri að ræða. Mest að andúðinni beindist samt að Efraim Zuroff sem hafði það til sinnar andstyggðar að vera útlendingur með heimtufrekju og kröfur. Þrátt fyrir að Ísland hafi sannarlega verið eitt af „vinaríkjum“ Ísraels þegar það var stofnað þá væri það stórkostleg sögufölsun að segja að Íslendingar hafi verið vinsamlegir Gyðingum almennt og yfirleitt – og ekki hjálpaði Mikson málið til.

Íslensk stjórnvöld gerðu sem minnst úr málinu og töldu enga ástæðu til að rannsaka það frekar. Stigvaxandi pressa og fjölgun sönnunargagna, auk þess sem uppruni þeirra gagna sem fyrir lá var staðfestur, varð þó til þess að ákveðið var að hefja rannsókn á málinu. Þeirri rannsókn lauk aldrei enda dó Eðvald Hinriksson áður en rannsóknin hafði farið fram.

Auðvitað var málið allt persónulegur harmleikur. Sérstaklega fyrir Eðvald og fjölskyldu hans. Það er eitthvað í grundvallaratriðum ömurlegt við það að lúið gamalmenni sem hefur verið farsæll og uppbyggilegur borgari áratugum saman þurfi að eyða efri árunum í æðisgengnum eltingarleik sem jaðrar við ofsóknir. Og auðvitað átti Eðvald rétt á einhverri miskunn. Glæpir hans í Eistlandi um 1940 geta auðvitað aldrei verið betri lýsing á gildi manns en hálfrar aldar reynsla samferðarmanna.

Samtsemáður hefur Efraim Zuroff rétt fyrir sér þegar hann segir að málið snúist um heilindi þjóðar. Glæpir Miksons voru engir smáglæpir – hann var virkur þátttakandi í skipulagðri helför haturs. Hann bar ábyrgð á dauða fjölda saklausra manna, kvenna og, að því er virðist, barna. Hann lét ágirnd og fullkomið virðingarleysi fyrir náunganum höggva sér blóðuga leið til fjár og frama.

Við þessu þurfti að hann að gangast. Hálf öld var líka meira en nægur tími til að Ísland horfðist í augu við sinn hlut í þessum hroðalega hildarleik.

Í stað þess að gangast við glæpum sínum reyndi Eðvald að ljúga sig út úr vandræðunum. Fólkið sem elskaði hann og trúði og treysti lét draga sig með í þá sýndarveröld sem hann reyndi að skapa. Sem í sjálfu sér er hvorki alvarlegt né óeðlilegt.

Það sem er alvarlegt er hvernig fjölmiðlar og stjórnvöld brugðust við. Þeir þögðu. Og þegar þeir tjáðu sig reyndu þeir að þæfa málið og drepa því á dreif í stað þess að skerpa á því og skýra.

Fyrir utan örfáa blaðamenn. Aðallega þá Þór og Karl. Sem sáu strax hvernig lá í málinu og reyndu að segja satt. Reyndu að vera aðhald. Sem er tilgangur fjölmiðla. Með þá fór eins og alla fjölmiðlun fyrr og síðast. Áhrifamáttur sannleikans er mjög takmarkaður. Þú getur afhjúpað heilu leyndarheimana í fjölmiðli en það er sitthvor athöfnin að lesa sannleikann um mál og að sannfærast. Sannleikurinn sannfærir ekki almúgann fyrr en hann hefur öðlast ákveðna samfélagslega viðurkenningu. Þá sjá menn hann öðrum augum.

Kerfisbundin þöggun og undanbrögð kemur í veg fyrir að sannleikurinn nái vopnum sínum og fái vængi. Hann getur setið á miðju markaðstorginu en hann er hunsaður þar til fjölmiðlaheimurinn hefur hann á loft og stjórnkerfið bregst við þeirri sjón með öðru en efa.

Sannleikurinn um fortíð Eðvalds Hinrikssonar þarf ekki að kalla fram hatur eða heift á manninum. Þvert á móti held ég að í sæmilega stöðugu tilfinningalífi þjóðar þá myndi vorkunn vera fyrstu viðbrögð ef maðurinn hefði gengist við glæpum sínum og iðrast.

Ég skrifaði í gær pistil um að fjölmiðlarnir í dag væru eiginlega ónýtir. Þeir eru það. Fyrir þeim liggja ótal mál sem algjörlega er nauðsynlegt að opna upp á gátt og skoða. En þeir megna það ekki. Þrátt fyrir það er fullt af hæfum blaðamönnum sem reyna sitt besta. Vandinn er ekki einstaka blaðamenn. Hann er kerfisbundinn og nær til neyslu og framleiðslu á fréttum og greiningum.

Ég var að vona að hrunið á Íslandi yrði til endurskoðunar á ýmsum hlutum. Von mín fer dofnandi. Enginn fjölmiðill virðist þora í alvöru aðhald. Menn klóra yfirborðið á meðan sömu persónur og leikendur koma sér fyrir í leikgrind athafnalífsins eftir að hafa dottið úr henni tímabundið í efnahagslegum jarðskjálfta. Hvatinn er enginn. Megnið af þjóðinni hefur meiri áhuga á því hvort Vísindakirkjan hafi ætlað að gefa geimverum dóttur Tom Cruise heldur en því hvernig á því stendur að auðjöfrar fá að halda fyrirtækjum sínum eftir milljarða afskriftir. Og þeir sem hafa áhuga á alvarlegri fréttum eru svo rækilega niðurgrafnir í skotgrafir að þeir óska eftir áróðri – en ekki heiðarlegri greiningu.

Vandinn er svosem alþjóðlegur. Það er kostulegt að fylgjast með fréttaflutningi þessa dagana af leitinni að Higgs-bósendinni. Sá fréttaflutningur, á Íslandi og annarsstaðar, er stórundarlegur. Ígildi þess að öreind sé pumpuð upp með sílikoni og sett í þröng sundföt á blaðsíðu þrjú. Pimpað er upp mystískt nafn, Guðseindin, og þessu veifað framan í fólk sem hvorki skilur upp né niður í því hvað er svona merkilegt eða hvað er á seyði. Fólk sem heldur að kvarkar séu eitthvað sem safnast í niðurföll er skyndilega uppveðrað af því að tilvist nýrrar eindar sé að staðfestast og réttlæta þar með eina dýrustu vísindatilraun mannkyns.

Hér snýst dæmið við af sannleikanum á markaðstorginu. Sannleikanum er gefið gildi, upphæpað og flott, en almenningur fær aldrei að sjá hann. Hann er einhversstaðar í þvögunni – en auðvitað öskra líka stelpurnar sem standa aftan við hinar sem sjá Bieber. Bara til að vera með.

Upp skoppa málgögn og fjölmiðlar sökkva sífellt dýpra í það fen að gæta hagsmuna eigenda sinna eða auglýsenda.

En þetta er ekkert nýtt.

Ísland hefur aldrei ráðið við erfið mál – fyrst og fremst vegna þess að við höfum aldrei sett heilindi í forgang.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sterk grein Ragnar Þór, frábær grein. Fáir geta skrifað svona skýrt og sannfærandi.

Haukur Kristinsson

Nafnlaus sagði...

gott. takk.

Bergsteinn Sigurðsson sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Bergsteinn Sigurðsson sagði...

Ég þekki þetta mál ekki rækilega enda var ég ekki farin að fylgjast með fjölmiðlum af viti á þessum tíma. Ég hjó hins vegar eftir þessari setningu:

"Það sem er alvarlegt er hvernig fjölmiðlar og stjórnvöld brugðust við. Þeir þögðu. Og þegar þeir tjáðu sig reyndu þeir að þæfa málið og drepa því á dreif í stað þess að skerpa á því og skýra. Fyrir utan örfáa blaðamenn. Aðallega þá Þór og Karl."

Þetta er dálítið þversagnakennt. Blaðamenn eru fulltrúar sinna fjölmiðla og eins og þú bendir sjálfur á fjölluðu bæði Pressan og Stöð 2 um málið, ásamt "örfáum" öðrum blaðamönnum, sem eru væntanlega fulltrúar enn fleiri miðla. Sem segir okkur að fjölmiðlar hafi sannarlega fjallað um þetta mál en ekki þagað - þó sumir þeirra kunni að hafa gert það. Leit á Tímarit.is sýnir að Pressan var vissulega sá prentmiðill sem fjallaði einna mest um þetta, en aðrir gerðu það líka og mér virðist DV ekki hafa verið upptekið af því að þæfa málið eða drepa því á dreif, sbr. þessa frétt: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=193965&pageId=2596283&lang=is&q=Evald%20Mikson)

Mogginn tók vissulega til varna fyrir Mikson, ég veit svo sem ekki hvernig fréttaflutningnum var háttað á RÚV. Hvað sem því líður vakti málið landsathygli á sínum tíma - ekki síst fyrir tilstilli fjölmiðla. Þar stóðu sumir sig greinilega í stykkinu, aðrir ekki.

Það má síðan velta því fyrir sér hvers konar gagnrýni þeir Karl og Þór hafa fengið á sínum tíma fyrir að fjalla um þetta mál; ætli einhverjir hafi ekki kallað þá æsifréttamenn í stöðugri leit að átakaflötum og beinum tilvitnunum.

Ég geri mér grein fyrir að þetta er aukaatriði og ástæðulaust að eyða of miklu púðri í það, en mér finnst ályktanirnar sem þú dregur af þessu dæmi máli þínu til stuðnings of ónákvæmar og misvísandi.

Með kveðju
Bergsteinn Sigurðsson

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sæll, Bregsteinn. Það er vissulega rétt hjá þér að Þór og Karl voru örugglega álitnir æsifréttamenn í leit að átökum. En ef maður skoðar það sem þeir höfðu fram að færa þá voru það fyrst og fremst heimildir, sem þeir báru á borð fyrir lesendur og áhorfendur. Heimildir sem bentu eindregið til þess að málið væri ekki eins flókið og óvíst og reynt var að láta líta út fyrir.

Málið komst í hámæli og allir fjölluðu um það vegna þess að Davíð Oddssyni var gerð fyrirsát í opinberri heimsókn í Ísrael. Þar var bréfinu komið upp á íslensku sendinefndina að henni forspurðri. Davíð lýst óánægju og furðu og JBH afboðaði sig í heimsókn til sama lands vegna málsins. Ferðin féll að öðru leyti í skuggann af málinu og var kominn í alla fjölmiðla.

Þetta var í febrúar 1992. Í október eða nóvember ákváðu íslensk stjórnvöld að gera ekkert í málinu að ráði Eiríks Tómassonar og Stefáns Más Stefánssonar. Það var svo ekki fyrr en seinna að málið var tekið upp því sönnunargögnin héldu áfram að hrannast upp.

Á tímabilinu febrúar 1992 og fram á haust brugðust fjölmiðlar mismunandi við. Ég fletti gegnum DV á þessu tímabili og þar var margt misjafnt. Fyrsta sjálfstæða rannsóknarvinnan var frásögn af ástandinu almennt í Eystrasaltsríkjum undir Þjóðverjum. Fyrirsögnin var eitthvað á þá leið að Eðvald hefði líklega aldrei getað sloppið við að „lenda í“ smiti af glæpum Þjóðverja. Þarna var líka sægur af lesendabréfum sem öll studdu Eðvald, eða réttara sagt, voru andsnúin Gyðingum og Ísrael. Gerð var samantekt um málið sem skildi það eitt eftir að þessi segði eitt en hinn segði annað – og að það eina sem stólandi væri á í málinu væri að afhending bréfsins hefi verið hneyksli. En svo lak inn ein og ein smáfrétt sem var yfirleitt tilvitnun í aðra miðla eða Zuroff.

Ein frétt skar sig þó úr og var myndskreytt með sönnunargögnum. Ég ætlaði einmitt að hafa hana til marks um góða fréttamennsku þegar ég gerði pistilinn – en sá þá að fyrir honum var skrifaður Þór Jónsson í Stokkhólmi.

DV reyndi vissulega að vera hlutlaus aðili og birti eitt og annað en virðist ekki hafa stundað neinar alvöru rannsóknir eða ýtt málum áfram. Aðeins gripið það sem féll til frá öðrum og fallið í þá gryfju að ætla stjórnvöldum að skera úr um þetta snúna mál.

Sem ég held að sé vandi fjölmiðla í dag líka. Það fer ekki fram næg rannsókn á málum, það er ekki kafað í þau því menn eru of uppteknir við að framleiða fréttaefni undir stöðugri tímapressu. Svo hjálpar ekki til þegar dómstólar refsa mönnum þegar tilraunir eru gerðar til að stinga á kýlin.

Það sem ég held að sé meginvandamál blaðamanna er þetta: Blaðamenn eru tengsla sinna virði í gulli. Þeir þurfa að vera þannig staðsettir í neti kunningjatengsla að þeir hafi aðgang að upplýsingum og mönnum. Þannig hugsa ég blaðamenn eigi hlutfallslega flesta feisbúkkvini. En þessi tengsl byggja á því að blaðamenn styggi ekki fólkið sem matar það. Ef einn og einn blaðamaður keyrir á hörkunni þá er hann einfaldlega lokaður úti. Menn hætta að tala við hann – og hann verður næsta verðlaus. Það vantar heila fjölmiðla sem hafa vægi og gera fólki ljóst að þeir vinna á sínum eigin forsendum. Þar sem auglýsingum og fréttaefni er ekki blandað saman og ritstjórn er einhuga að baki fréttastefnunni.

Nafnlaus sagði...

...voðaleg bölsýni er þetta, hjá jafn góðum manni.

Vita skaltu, að heimur batnandi fer. Ekki í stökkum, en hann mjakast fram á við.

Eins og dæmin sanna, ef þú nennir að leita eftir þeim.

Ásgeir H Ingólfsson sagði...

Ég man þetta ekki nógu nákvæmlega, en Þór Jónsson sagði okkur þegar hann heimsótti okkur í tíma í blaðamennskunni að hann hefði verið beðinn um að hætta að fjalla um málið af sínum yfirmönnum, því þetta þótti of viðkvæmt.