3. júlí 2012

Skortur á fagmennsku fjölmiðlaFjölmiðlun á Íslandi er jafnt og þétt að þynnast út í eitthvað sem á sáralítið skylt við blaðamennsku. Búið er að blanda saman afþreyingu, slúðri og alvöru fréttum í einn graut sem bæði er óupplýsandi og innihaldsrýr. Stórmálum er klúðrað í löngum röðum og öll áherslan lögð á að finna átakafleti og beinar tilvitnanir.

Ég held okkur stafi stórhætta af þessu.

Svo er eitthvað verulega dularfullt við það hvernig „innanlandsmál“ eru höndluð. Og hefur verið það lengi. Nú eru allar fréttir fullar af allskyns sögusögnum um skilnað Tom Cruise og Katie Holmes. Allt sem öllum dettur í hug að skrifa um þau í erlendum pressum lekur gagnrýnilaust á innlendar vefsíður. Fréttin er ekki lengur innihaldið – heldur það að fréttin er frétt einhversstaðar í heiminum.

Í lok seinna stríðs varð stríðsglæpamaður á flótta strandaglópur á Íslandi (í bókstaflegri merkingu – hann var á flótta til S-Ameríku þegar skip hans strandaði). Hann tók upp nýja og betri siði hér á landi og naut nokkrar virðingar. Auðvitað kom svo að því að hann var þefaður uppi. Hann hafði með beinum hætti framkvæmt fjöldaaftökur á saklausu fólki og jafnvel verið viðriðin nauðgun og morð á ungri stúlku.

Íslenskir fjölmiðlar gátu ekki málið. Fréttamaður sem kafaði ofan í það og rakst á sannfærandi sönnunargögn um sekt mannsins var stöðvaður af yfirmönnum sínum. Málið var of stórt og of óþægilegt fyrir Ísland.

Íslenskir fjölmiðlar þora ekki í nein viðkvæm eða erfið mál. Og því er ekki til nein reynsla eða þekking á því hvernig vinna á stór alvörumál. Stærstu málin sitja í höndum ungra blaðamanna sem lagðir eru persónulega að veði og ósjaldan dæmdir vegna einhverra smáatriða eða ónákvæmni í framsetningu. Nokkuð sem aldrei hefði gerst ef þrautreyndir fjölmiðlar hefðu þjálfað upp reynslu við að fara með svona mál.

Það verður að lyfta íslenskri fjölmiðlun á hærra plan.Sjúkleiki fjölmiðla kristallast kannski best í þeirri staðreynd að þeir sækja endalaust í svokallaða álitsgjafa á öllum málum. Og hvaða álitsgjafa? Pælið aðeins í því. Það eru stjórnmálamenn og ýmsir „fræðimenn“ (sem flestir eru handgengnir einhverjum átakaöflum í landinu) og – merkilegt nokk – almannatenglar.

Í öllum fjölmiðlum sem hefðu snert af metnaði og sjálfstæði væri blaðamönnum kennt að forðast almannatengla – að passa sig á þeim í öllu falli. Á Íslandi fá þeir að vera kranar.

Enda nátengd störf hérlendis. Þeir „heppnu“ úr stétt fjölmiðlamanna fá betur launuð djobb við að matreiða „hálflygi“ og annan spuna ofan í kollegana.

7 ummæli:

Guðmundur Hörður sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Guðmundur Hörður sagði...

Hér eru dæmi um svona vinnubrögð fjölmiðla:
http://www.dv.is/blogg/gudmundur-hordur/2012/3/14/fjolmidlar-haskolinn-og-alverin/
http://www.dv.is/blogg/gudmundur-hordur/2012/4/2/uppropanir-ruv-stadreyndir-google/

Ágúst Tómasson sagði...

Sorglegt dæmi um þetta er minn gamli vinnustaður, RÚV. Þungaviktarfréttamenn allir komnir í stjórnunarstöður og reynsluminni starfsmenn úti á mörkinni að afla frétta í sífellt fleiri fréttatíma. Vefurinn í kapphlaupi við hina fréttamiðlana um "nýjustu" fréttir þannig að sá sem skoðar hann 2-3 á dag eins og almenningur gerir sér ekkert annað en "fánýjar" fréttir. Stóru fréttirnar eru orðnar of gamlar og horfnar af forsíðu! Allt skal vinnast eins hratt og hægt er og á sem einfaldastan hátt svo unnt verði að fylla upp í næsta fréttatíma.

Jakob Bjarnar sagði...

Hér er verið að rugla saman tveimur óskildum atriðum. Ekki verður deilt um fréttamat og hvenær í ósköpunum verður sá söngur kveðinn í kútinn?

Ekki skal ég mótmæla því að staða fjölmiðla hefur farið versnandi ár frá ári; ég hef fylgst með því í þá kvartöld sem ég hef starfað við þá. Þar er stærsta vandamálið minna bolmagn og þá hafa menn freistast til að troða niður garða milli auglýsinga og efnis. Þetta er alveg rétt.

En, almenningur hefur svo sem aldrei staðið með sínum fjölmiðlum. Hatast eiginlega frekar við þá og hver Íslendingur er blaðamaður og ritstjóri, alskapaður sem úr höfði Seifs. Það er rökvilla að rugla þessari bágu og versandi stöðu þeirra saman við fréttir af Tom Krús og því að þær séu mikið lesnar. Þar er í raun verið að auglýsa eftir betri lesendum. Og furðulegt að skattyrðast út í fjölmiðla sem eru að svara eftirspurn. Er það ekki m.a. þeirra hlutverk, að svala þeirri forvitni sem þeir verða varir við? Og hljóta rekstrarlegar forsendur ekki að einhverju leyti að liggja þar?

Málið er að almenningur hefur miklu meira um það að segja sem í fjölmiðlum er en menn almennt vilja kannast við. Enda, þá færi þetta þægilega meðvirknisástand fyrir lítið og það að hafa þennan ákjósanlega blóraböggul sem hið illskilgreinanlega fyrirbæri fjölmiðill er.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Jakob: En ef eftirspurnin er fyrst og fremst eftir niðursoðnu kjaftæði um ekki neitt? Er það þá hlutverk fjölmiðla að uppfylla þessa eftirspurn? Eða er hlutverk fjölmiðla annað og „sjálfstæðara“? Eru hlutverk fjölmiðla kannski mörg? Og getur verið að stundum yfirskyggi eitt hlutverk annað?

Segjum, einsog ég segi stundum, að slúðrið sé speglun – við horfum á hármissi Britneyjar einsog við horfum á harmleiki guðanna á Ólympustindi. Við erum að segja okkur eitthvað um okkur sjálf.

En það er ekki þar með sagt að hlutföllin megi fara úr skorðum – ef allir fréttamenn (eða of margir) eru að hamra slúður þá er hætt við að færri séu að sinna öðrum verkum. Eller hur?

Nafnlaus sagði...

Hvað er það í mannlegu eðli, sem þú skilur ekki, sé t.d litið til líftíma Séð & Heyrt?

Og hvað kemur það gagnrýninni blaðamennsku við?

Á að skikka blaðamenn til að vera klárari en þeir eru?

Nafnlaus sagði...

Tvö önnur vandamál nútíma fjölmiðla eru annars vegar það flóð fréttatilkynninga sem fjölmiðlum berast og þeir þurfa á einhvern hátt að vinna úr (sem leiðir oftar en ekki til þess að þær eru birtar í heild sinni athugasemdalaust af ungum og óreyndum blaðamönnum sem á hvíla kröfur um "framleiðni" (þ.e. fjölda frétta á netútgáfu miðilsins) af hálfu yfirmanna þeirra) og hins vegar það sem kalla má "keyptar" fréttir.

Það síðarnefnda varð mér sérstaklega ljóst þegar foreldrar mínir lentu í bílveltu á húsbíl sínum fyrir rúmum mánuði. Þegar verið var að gera upp málið við tryggingafélagið fengu þau símhringingu frá forvarnarfulltrúa tryggingafélagsins sem spurði þau hvort þau væru ekki til í að fara í viðtal við fjölmiðla í tengslum við veltuna. Þau samþykktu það og forvarnarfulltrúinn fékk blaðamann til að taka viðtal við foreldra mína og sjálfa sig. Stór frétt birtist svo í einu dagblaðanna skömmnu síðar. Fréttin var þannig búin til af starfsmanni fyrirtækis úti í bæ, fyrirtæki sem hefur fjárhagslegan hag af umfjöllun af þessu tagi. Fréttin var kannski ekki "keypt" í eiginlegum skilningi þess orðs, en hún var búin til af utanaðkomandi hagsmunaaðilum sem njóta góðs af umfjölluninni. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um áreiðanleika og hlutlægni, svo ekki sé meira sagt.