14. júlí 2012

Hatursáróður trúaðra

Snorri leiðir bóka- og diskabrennu



Í tvo áratugi hef ég haft óbeit á Snorra Óskarssyni. Mér hefur þótt maðurinn hafa ógeðfellda lífssannfæringu í bland við einkennilegt hamsleysi við að halda henni útaf fyrir sig. Ég man hvernig hann nýtti sér hörmungar til áminningar fyrir þjóðina. Þegar þjóðin var sem steini lostin eftir annað mannskæða snjóflóðið á stuttum tíma hljóp Snorri til og safnaði saman börnum og lét þau brenna geisladiska og bækur til að sefa reiði „guðanna.“ Maður sem lætur unglinga brenna bækur er í mínum huga í einum þeim alversta ruslflokki sem fyrirfinnst. Ég man það líka hve harkalega Snorri barðist gegn hjónabandi samkynhneigðra. Hann sagði að ef látið væri eftir samkynhneigðum þá kæmu barnaníðingar næst og vildu giftast börnum. Ég man mér þótti undarlegt að maðurinn væri starfandi kennari. Ég man líka hve ógeðfellt mér fannst hve fjölmiðlar léku sér að því að búa til úr honum „stjörnu.“ Hann fékk ekki bara að rasa út og líkja Íslandi við Pompei og síðustu daga Rómar – heldur var hann einn af þeim sem var hringt í til að spyrja hvernig árið hefði verið, eða hvað væri í matinn á jólunum. Hann var pimpaður upp af fjölmiðlum sem nutu átakanna sem fylgdu honum.

Kannski er það þessi rótgróna óbeit mín á manninum sem er þess valdandi að ég kem honum til varnar núna. Ég hef að vísu heyrt, frá fólki sem ég treysti og trúi, að Snorri hafi valdið ungmennum sárindum í kennslustundum með „boðskap“ sínum. Ég mun aldrei verja slíkt. Og hafi hann gerst sekur um það væri óskandi að þeir aðilar sem urðu vitni að slíku eða urðu fyrir slíku gefi sig fram og segi frá. Það er skýrt brot á þeim reglum sem um kennara gilda. En það er bara ekki verið að reka hann fyrir neinar slíkar ávirðingar. Það er verið að reka hann fyrir að tjá sig um viðhorf kirkjunnar hans til samkynhneigðar.

Akureyrarbær réði manninn í vinnu hafandi horft upp á hann leiða börn í bókabrennum og líkja samkynhneigðum við barnaníðinga. Ef eitthvað er hefur hann verið hófstilltur í málflutningi eftir að hann fór norður. Hann er líka, blessunarlega, dottinn úr tísku. Eða var það, áður en þetta mál blossaði upp. Það er þess vegna undarlegt að bærinn þoli það ekki að hann haldi úti bloggi þar sem hann segir hluti sem engum koma á óvart og allir hafa vitað lengi.

Bækur brenna
Ummælin sem urðu Snorra til áminningar eru þessi:

Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.


Þetta er ekki hatursáróður. Þetta er raunsönn lýsing á guðfræði gærdagsins hjá flestum – en dagsins í dag hjá Snorra. 


Auðvitað má ekki einblína á þessi einu ummæli. Snorri hefur tiltekið fjöldann allan af öðrum ummælum um samkynhneigða og transfólk sem öll ber að sama brunni. Að hans mati er hefur náttúran tilgang sem lýtur að æxlun og viðhaldi og allt sem virðist vinna gegn þessum tilgangi er ónáttúra sem menn eiga ekki að hampa sem eðlilegum hlut. Þetta er ekki hatur. Þetta er sýn einfeldnings á veröld sem vaxin er honum yfir höfuð. Þetta er sá litblindi að reyna að raða öllum litum litrófsins á gráskala.


Hatrið, sem margir þykjast kenna, felst í því að Snorri segi að eitthvað meðfætt sé synd. Það sé eitt að halda því fram að fólk sem á margar hjásvæfur eða svindli í spilum öðlist ekki eilíft líf – en þegar maður velji húðlit eða kynhneigð til að raða í flokka þá sé um að ræða hatur.


Ég geri eindregnar athugasemdir við slíkan málflutning. Ég held raunar að það hvort samkynhneigð sé óbreytanleg, meðfædd eða eitthvað annað  – sé algjört aukaatriði í málinu. Það er enginn grundvallarmunur á því að sparka manni úr eilífðarríkinu fyrir það sem maður gerir eða það sem maður er. Og raunar er það svo, ef Snorri er lesinn bókstaflega (sem ég veit honum þætti vænt um), að þeir sem mest básúna gegn samkynhneigð, eins og hann, leggja alla áherslu á það hvort maður láti eftir hneigðinni. Þar liggur syndin. 


En segjum að það sé óvæginn hatursáróður að vega að því sem mönnum er áskapað og bendla það við synd og dauða.


Hvernig ætlum við sem samfélag þá að díla við hindúisma og allskyns afleggjara af karmatrú? Ætlum við að banna boðun trúarbragða sem milljarður aðhyllist vegna þess að þau innihalda þá fráleitu hugmynd að ógæfa fólks, fatlanir og vansköpun séu réttmæt laun skaðlegrar breytni?




Hinir ósnertanlegu




Og gerum við okkur almennt grein fyrir því hvaða viðhorf það skapar til allskyns hörmunga og áfalla ef karmalögmáli er haldið til streitu?


Því hefur verið haldið á lofti að samkynhneigðir séu hópur sem verja þurfi sérstaklega. Samkynhneigðir unglingar séu svo viðkvæmir að þeir umberi eiginlega ekki kennara sem hefur fornaldarleg viðhorf til samkynhneigðar. Bent hefur verið á að þunglyndi og vanlíðan er algengari meðal samkynhneigra en annarra.

Það er merkilegt hvað umhyggja þjóðarinnar er hverfult fyrirbæri. Það er ekki langt síðan krafa var sett fram um að Ríkisútvarpið hætti að hampa Passíusálmunum – enda væru þeir löðrandi í gyðingahatri. Íslendingar brugðist harðlega við og sögðu að samtíminn gæti ekki tekið ábyrgð á einhverjum skekktum viðhorfum gamalla skálda. Það gæti vel verið að gyðingaandúð hafi sett mark sitt á sálmana en það væri öllum ljóst að kæmi til af sögulegu samhengi – og það væri margt gott við sálmana líka.

Gagnvart sumum harðsvíruðum gyðingum er þetta viðhorf Íslendinga fráleitt og óverjandi. Þeim sárnar mjög að „vinaþjóð“ Ísraels frá fornu fari skuli finna hjá sér þörf fyrir að flagga kveðskap sem augljóslega elur á hatri sem leiddi af sér stórkostlegar hörmungar fyrir kynþátt þeirra.

Það má ennfremur benda á að rannsóknir hafa sýnt að unglingar sem eru gyðingar eru almennt þunglyndari og glíma við meiri vanlíðan en aðrir.

Hvers vegna kipptum við ekki Passíusálmunum úr umferð?

Jú, vegna þess að við sögðum: Listaverk kunna að innihalda viðhorf sem við höfum síðan áttað okkur á að eru ekki rétt. Þessi viðhorf er maður ekki að verja þótt maður réttlæti tilvistarrétt listaverksins. Það má ekki fjarlægja heilu verkin bara vegna þess að í þeim leynist skoðun eða viðhorf sem við erum ekki sammála. Sama hve sögulega samhengið er dramatískt og fullt þjáningar. Nær er að kenna fólki að greina þessi viðhorf og draga af þeim sögulegan lærdóm. Það er líklega besta leiðin til að endurtaka ekki söguna að þessu leyti.

Prófum að skipta orðinu „listaverk“ út fyrir „manneskju“.

Manneskjur hafa tilvistarrétt þótt í þeim leynist viðhorf úreltra tíma. Hver manneskja er svo miklu meira en bara skoðun hennar á tilteknum hlutum. Manneskja með röng og forneskjuleg viðhorf til kynferðismála kann að vera fyrirtaks læknir, kokkur eða kennari. Henni ber sess í samfélaginu eins og öðrum manneskjum. Hún á tilvistarrétt. Ófrávíkjanlegan. Það er meira en hægt er að segja um listaverkin.

Auðvitað eru síðan mörk. Það má efast um tilverurétt listaverka sem dreifa engu nema hatri og illsku. Hér við hliðina á mér er Mein Kampf í hillu. Ætti hún að vera þar? Ætti að kasta henni á bálið?

Tja, ég veit hvað Snorra finnst um það. Hún er einmitt ein af bókunum sem hann lét börnin brenna. Kannski bara þessvegna, mun ég varðveita bókina betur.

1 ummæli:

Hjalti sagði...

Svo að maður skoði atriðin sem þú nefnir, þá er t.d. jákvætt viðhorf til bókabrenna í mjög vinsælu námskeiði sem ríkiskirkjan kennir. Þar er auðvitað líka sagt að kynlíf utan hjónabands karls og konu sé synd (sem Kalli biskup trúði auðvitað).

Þetta stendr svo í trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar, og maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort að rétttrúaðir kaþólikkar séu ekki velkomnir sem kennarar í Akureyri:

2357. ... Með því að styðjast við heilaga Ritningu, er lýsir samkynhneigðum athöfnum sem alvarlegri siðspillingu, [141] hefur erfikenningin ávallt lýst því yfir að "samkynhneigð athöfn feli í sér eðlislæga röskun." [142] Hún stríðir gegn náttúrulögmálinu. Hún útilokar að kynlífið kveiki nýtt líf. Hún sprettur ekki af sannri gagnkvæmri fyllingu, tilfinningalegri og kynferðislegri. Hana má ekki undir nokkrum kringumstæðum viðurkenna.