13. júlí 2012

Skammastu þín, Akureyri!



Í fjörlegum umræðum á feisbúkk og víðar er tekist á um Akureyrarbær vs Snorri. Sumar mótbárur við skoðunum eins og þeim se ég hef haldið fram eru mjög rökréttar og gáfulegar. Aðrar eru síðri. Mig langar að eyða nokkrum orðum í tvær þær algengustu.

1. Málfrelsi er ekki atvinnufrelsi. Margir starfshópar undirgangast strangar reglur um málfrelsi og þótt Snorra hafi verið heimilt að tjá sig með þessum hætti þá var Akureyrarbæ að sama skapi heimilt að segja honum upp störfum.

2. Hér er verið að hugsa um hagsmuni barnanna, sem neydd eru til að sækja tíma hjá manni með ógeðfelldar skoðanir. 

Skoðum hvort um sig.

Það er vissulega hefð fyrir því að gera strangar kröfur til kennara um framkomu í orðum og æði. Fyrst og fremst vegna þess að okkur er (eðlilega) ekki sama um hvernig kennarar nýta aðstöðumun sinn gagnvart börnum. Á átakatímum hefur bæst ofan á þetta krafa um að kennarar standi rækilega með „valdinu“ gegn rósturöflum – hvort sem þau eru lögleg eða ólögleg.



Menn hafa haft krónískar áhyggjur af trúmálum í hundrað ár eða svo. Lengst af var þess krafist að kennarar og skólinn stæðu tryggilega bak við „valdið“ og gegndu hlutverki við innrætingu ungdómsins. Námskrá í kristnum fræðum er, eins og ég hef áður bent á, löðrandi í kristilegri innrætingu. Kristið siðgæði er meira að segja lagt til grundvallar námskrá. Heimsóknir presta, helgileikir og heimsóknir í kirkjur um jól eru dreggjar af trúfræðslulegu uppeldi grunnskóla.

Einn og einn kennari hefur veitt þessu andóf. Sumir kennarar neita að fara með börnum í kirkjur eða taka á móti prestum. Slíkt andóf hefur bakað einhverjar óvinsældir – en við viljum trúa því að þetta sé réttur hverrar manneskju. Sama í hvaða starfi hún er. Kennarar á öllum skólastigum eru ennfremur róttækir trúleysingjar sem tjá sig í ræðu og riti með þeim hætti að einhverjir telja það guðlast. Það er ennfremur þeirra réttur. Hver maður er frjáls að trúarskoðunum sínum sem öðrum skoðunum svo lengi sem hann ábyrgist þær fyrir dómi.



Morgunblaðið sagði frá því með töluverðri velþóknun þegar frændur vorir Norðmenn áræddu að þyngja mjög rækilega refsingar við guðlasti. Refsa skyldi öllum þeim sem töluðu niðrandi um nokkuð sem snerti boðskap kirkjunnar eða athafnir hennar. Til að tryggja samfélagsbót átti dæmdur guðlastari að missa rétt til kirkjuembætta, herþjónustu, starfs í utanríkisþjónustu – og kennslu. Guðlastari skyldi ekki fá að kenna börnum.

Hugleiðið þetta aðeins.

Einhverjir segja að víkja megi Snorra úr starfi vegna þess að Akureyrarbær hljóti að mega segja þeim upp sem bærinn kýs. Það sé engin skylda til að hafa fólk í starfi bara vegna þess að það hafi einu sinni hlotið starf. 



Um þetta þarf ekki að þræta neitt. Um Snorra gildir tiltölulega nýr kjarasamningur. Þar segir (14.9):

Óheimilt er að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna. 

Það má því ekki segja fólki upp bara vegna þess að mann langar til þess. Einhverjum kann að finnast að það ætti samt að vera svoleiðis. Sorrí. Þannig er það bara ekki.

Málefnalegar ástæður geta verið tvenns konar. Annarsvegar skipulagsbreytingar, samdráttur eða eitthvað slíkt eða vegna „ávirðinga.“ Ekki þarf sérstaklega að réttlæta hið fyrra en sé ætlunin að segja upp starfsmanni vegna ávirðinga þurfa nokkrar forsendur að liggja fyrir:


Ef fyrirhugað er að segja  starfsmanni upp störfum vegna ávirðinga þá þarf uppsögnin að grundvallast á skriflegri áminningu (14.9).Í áminningu skal tilgreina tilefni hennar og þá afleiðingu að bæti starfsmaður ekki ráð sitt verði honum sagt upp. Ber að veita starfsmanni tíma og tækifæri til þess að bæta ráð sitt áður en gripið er til uppsagnar (14.8).


Nú minnir mig að Snorri hafi fengið slíka áminningu. Honum var tjáð að hann skyldi hætta að blogga með þeim hætti sem hann gerði. Hann hefur alla tíð neitað að samþykkja þær kvaðir – þótt ég viti ekki hvort hann hafi haldið uppteknum hætti eða ekki. Hann hefur allavega gefið skít í áminninguna.


Í reglunum er kveðið skýrt á um af hvaða tilefni veita megi áminningu:


Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi,  hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða  framkoma hans eða afhafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar  eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar eða fyrirtækis veita honum skriflega áminningu. (14.8)

Hér kemur mjög skýrt fram að brot þarf að lúta að starfi.


Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi,  hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða  framkoma hans eða afhafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar  eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar eða fyrirtækis veita honum skriflega áminningu.
Hér er í engu kveðið á um að starfsmaður megi ekki vera eins óstundvís, óvandvirkur, fullur eða árangurslítill í lífi sínu utan starfs. Enda nær samningur starfsmannsins við vinnuveitandann ekki til einkalífs heldur starfs. Þó er kveðið á um það sérstaklega að gerist starfsmaður sekur um tiltekna refsiverða háttsemi (14.9) þá megi segja honum upp.



Af þessu er alveg ljóst að uppsögn Snorra gengur þvert á þann samning sem í gildi er um starf hans. Uppsögnin er því klárlega ólögmæt. 

Aðrir hafa haldið því fram að Snorri hafi brotið gegn Siðareglum kennara – og það brot réttlæti uppsögn. Þar er því til að svara að í siðareglum kennara eru engin slík viðurlög að réttlæti uppsögn. Enda væru þá margir í vondum málum því reglurnar eru margbrotnar á hverjum einasta degi. Auk þess sem margar af reglunum (þ.m.t. reglan sem Snorri á að hafa brotið) eru túlkanlegar fram og til baka. Brot á siðareglum kennara eru ekki löglegur undanfari uppsagnar – þótt þær skarist vissulega á við áminningar- og uppsagnarferlið.

Snorra var tjáð að ekki væri gerð nein athugasemd við störf hans. Þvert á móti væru þau almennt til fyrirmyndar. Hann væri rekinn vegna þess að hann hefði ekki látið af þeirri háttsemi að tjá sig um trúmál með þeim hætti sem hann gerði. 

Það er ekki hægt að segja manninum upp fyrir brot á siðareglum nema það sé um leið brot á starfssamningi. Svo er ekki í þessu tilfelli. Nema, og þetta er mikilvægt, Snorri hafi verið sekur um alvarlega  refsiverða háttsemi.

Snorri var kærður fyrir ummæli sín. Þeirri kæru var vísað frá – enda ekki flugufótur fyrir henni. Það var ekkert ólöglegt við ummæli Snorra og þau voru ekki einu sinni hatursáróður í neinum alvarlegum skilningi. Þeir sem halda því fram hafa annaðhvort ekki lesið umrædd ummæli eða misskilja verulega hvað hatursáróður er.

2. Hér er verið að hugsa um hagsmuni barnanna, sem neydd eru til að sækja tíma hjá manni með ógeðfelldar skoðanir. 

Skoðum þetta.

Sagt er að með því að aðhyllast fornfálega guðfræði sé Snorri að særa börn. 

Áður en við skoðum það betur vil ég benda á þetta:






Þessi sömu rök voru nefnilega notuð gegn guðleysingjum líka. Guðleysið særði og meiddi. 

Vissulega er skyldunám á Íslandi. Það gerir ríkulegar kröfur um að börn séu ekki látin sæta neinni meðferð í skólanum sem óverjandi er. Svo vakna ótal spurningar um hversu mikið tillit sé tekið til þess. Hvað með börn sem alin eru upp sem grænmetisætur? Skólamötuneytin taka ekki tillit til þeirra. Á vorhátíðum og í ferðalögum eru pylsur grillaðar í löngum bunum ofan í börnin. Hvað með foreldra sem vilja ekki að börn þeirra borði unna kjötvöru, skoli tennurnar með flúor eða séu bólusett? Og hvað með börn hvítasunnumanna sem fá trúarlegt, menningarlegt og siðferðilegt uppeldi hjá foreldrum sínum sem síðan er grafið undan í skólanum sem þau eru skyldug að sækja.



Er það hlutverk skólans að segja að kynlíf utan hjónabands sé eðlilegt og sjálfsfróun æskileg? Að líklega sé ekki til líf eftir dauðann og að sköpunarsöguna sé ekki hægt að taka bókstaflega?

Já, að sjálfsögðu. 

Skólinn getur ekki og á ekki að vera hlutlaus um allt sem menn greinir á. Í skylduskóla eiga börn að finna að þau tilheyra fjölbreyttu samfélagi – þar sem lífsviðhorf og skoðanir eru með ýmsum hætti. Þar eiga börn Snorra að kynnast raunverulegu hlutverki samkynhneigðar í samfélaginu – í stað þess að hljóta alla fræðslu gegnum mörgþúsund ára gamla texta. Þar eiga að vera samkynhneigðir kennarar, fatlaðir, karla og konur; ungir sem aldnir. Skólinn á að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins. 



Það er satt að segja gömul lágkúruleg klisja að réttlæta ritskoðun eða höft á tjáningu með hagsmunum barnanna. Kínverjar reyndu að sölsa undir sig gervallt internetið með sömu rökum. Hver einasta tölva átti að vera „hreinsibúnaður“ fyrir sálarskemmandi sorann sem vall upp um hvert op sem gert var ofan í netið. Skólar skyldu fara fremstir í flokki:

Tilkynning varðandi kröfur um foruppsetningu græns síunarhugbúnaðs á tölvum 

Í því skyni að búa til grænt, heilnæmt og samhljómandi vefumhverfi og um leið að forðast það að skaðlegt efni á netinu eitri hug barnanna okkar hefur iðnaðar- og upplýsingatækniráðuneytið (MIT), borgaraskrifstofa og miðstjórn Kommúnistaflokksins (CPC) og fjármálaráðuneytið [...] notað fjármuni frá CPC til kaupa á einkarétti til eins árs á „Grænu stíflunni – ungmennaeftirliti“ sem er græn vefsía [...] ásamt skyldri þjónustu, í þeim tilgangi að gervallt samfélagið fái ókeypis aðgang. Eftir nákvæmar prófanir og reynslunotkun hefur hugbúnaðurinn sannað sig sem áhrifarík leið til síunar á skaðlegu efni, bæði myndum og texta á internetinu og hefur þegar uppfyllt þau skilyrði sem til þarf svo tölvuframleiðendur geti sett búnaðinn upp áður en notendur taka við tækjunum. 
Iðnaðar- og upplýsingatækniráðuneytið



Auðvitað kom svo í ljós að hugbúnaðurinn gerði nákvæmar skrár yfir allt sem notandinn reyndi að skoða á netinu – og þegar sían sjálf var skoðuð reyndist hún að yfirgnæfandi meirihluta innihalda pólitísk bannorð (85% á móti 15% sem tengdust klámi).

Græna stíflan er eiginlega þegar brostin. Hún þótti illa forrituð og meingölluð og hefur undanfarin ár liðið fyrir fjármögnunarskort og áhugaleysi. Þessi tilraun Kínverja til að koma böndum á heiminn er dæmd til að mistakast. Enda var hún aldrei annað en draugfúl, gamaldags ritskoðun – réttlætt með því að verið væri að vernda börnin.

Maður skyldi alltaf gjalda varhug við því þegar eitthvað er réttlætt þannig.

Vissulega á að verja börn gegn raunverulegum skaða. Þess vegna er ekki sama hvernig Snorri eða aðrir haga störfum sínum. Þó verður að hafa í huga að höft á atvinnu- og málfrelsi fólks eru líka raunverulegur skaði. Opið og frjálst samfélag er gríðarlega mikils virði og öll höft á tjáningarfrelsið skal setja að vandlega athuguðu máli.

Eins og staðan er nú eru innbyggðir varnaglar í kerfið. Kennari missir starf sitt ef hann beitir sér ranglega eða ósæmilega í því eða hann brýtur lög.

Snorri hefur hvorugt gert. Og hefur vottorð upp á það. Annarsvegar hrós fyrir vel unnin störf og hinsvegar frávísun á kæru.

Að halda máli til streitu, þrátt fyrir það, er ólöglegt og ósiðlegt og á meira skylt við einræðislega ritskoðunartilburði en mannkærleik.

Auðvitað á Snorri að fylgja málinu alla leið – og fagfélag kennara á að styðja hann í því. 

Gæði samfélags sjást best á því hvernig það fer með þá sem því mislíkar við. Gæðin eru ekki meiri en þetta í mínum gamla heimabæ. Akureyri á að skammast sín.

3 ummæli:

AS sagði...

Úr mannauðsstefnu Akureyrarbæjar, um almenn réttindi og skyldur starfsmanna:
"Gæti þess að framkoma og athafnir á vinnustað OG UTAN HANS samrýmist starfinu sem þeir gegna"
Sjá líka 14. gr. laga um réttindi og skyldur srarfsmanna ríkisins.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

1. Það er útilokað að segja að það samrýmist ekki starfi hjá Akureyrarbæ að vera virkur þátttakandi í trúfélagi.

2. Snorri er ekki starfsmaður ríkisins.

3. Kjarasamningur er lágmarkssamningur. Allir samningar eða skyldur sem minnka rétt starfsmanns frá kjarasamningi jafngilda uppsögn kjarasamnings.

AS sagði...

1. Snorra var ekki sagt upp fyrir að vera forstöðumaður trúfélags heldur að hafa opinberlega og ítrekað, og eftir áminningu, uppi meiðandi ummæli um hópa nemenda og aðstandenda þeirra.
2. Lögin eru dæmi um slíkar skyldur sem vinnuveitendur leggja á herðar starfsmönnum sínum.
3. Kjarasamningar eru lágmarkið varðandi laun og slíkt. Vinnuveitendur geta gefið starfsmönnum sínum ýmis fyrirmæli og útfært réttindi og skyldur nánar.

Ótrúlegt hvað mörgum finnst í lagi að barnakennari fái að gusa úr sér viðbjóðslegum fordómum ef hann skýlir sér bak við trú.

Og bæ ðe vei, þá sagði Snorri sjálfur í viðtali eftir áminninguna að hann ræddi þetta ekki í skólanum nema hann væri spurður út í þetta.