Að vísu sagði ÓRG ekkert í dag sem ekki er satt. Stjórnarskrár eru helgustu plögg hverrar þjóðar. Uppskriftir að lýðræðinu sjálfu. Yfirlit yfir grunngildi. Plagg sem bindur hendur allra sem á eftir koma. Um mikilvægi þess að einhugur ríki um stjórnarskrá má benda á tvennt.
Í fyrsta lagi má benda á fordæmi þess hóps sem kom að samningu þeirra draga sem nú fara að hluta til í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar lögðu menn mikið á sig til að ná einhug. Menn vissu sem var að slík stjórnarskrá hefur í grundvallaratriðum meira gildi en skrá sem styrr stendur um en knúin er í gegn með meirihlutavaldi. Þetta vissi Þorgeir ljósvetningagoði líka.
Hitt atriðið er kannski forsenda hins. Stjórnarskrá er metnaðarfull lýsing á því hvað við viljum vera sem þjóð. Hún er ekki negatíf lýsing á bönnum – hún er líka pósitíf lýsing á því hvað við eigum að gera. Stjórnarskrá sem ekki er samstaða um verður aldrei stjórnarskrá sem verður nægt áhrifavald.
Og við þurfum áhrifamikla stjórnarskrá.
Þannig að það er mikilvægt að um stjórnarskrá ríki sátt. Hinsvegar er eðlilegt að spyrja: Hvort er vandamálið nú að stjórnarskrárdrög draga svo taum ríkjandi valdhafa að sátt er ómöguleg eða vinnubrögð á Alþingi með þeim hætti að sátt er útilokuð.
Svarið er augljóst.
Þótt það sé vissulega rétt að ákveðnir hagsmunahópar líti svo á að stjórnlagaráð hafi haft takmarkað umboð þá fer ekkert á milli mála að á íslenskan mælikvarða hefur samning nýrrar stjórnarskrár verið til himinhrópandi fyrirmyndar. Vissulega er ferillinn markaður helstu göllum lýðræðisins. Óþekkt fólk átti t.d. erfitt uppdráttar með að koma að verkinu og hlutföll milli landssvæða voru verulega skökk – en þetta eru því miður gallar sem erfitt er við að ráða.
Það sem ekki hefur verið til fyrirmyndar er nær algjört vanhæfi Alþingis til að vinna málið áfram. Sem aftur vísar á hinn sanna sökudólg. Stjórnmálin á landinu eru verulega mikið skemmd.
Stjórnarskrármálið er orðið að líflínu núverandi ríkisstjórnar.
Allt er glatað nái ríkisstjórnin málinu ekki fram næsta vetur. Því þótt Samfylking geti t.d. ekki beðið eftir að losa sig við Jóhönnu þá er þetta gælumál hennar langsterkasti pólitíski leikurinn á pólitíska skákborðinu í dag. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki tekið prinsippfasta afstöðu gegn öllum breytingum á stjórnarskránni. Hann vill ekki að gengið verði til kosninga með samþykkta stjórnarskrá sem almenningur styður – og Sjálfstæðisflokkinn einn á móti.
Það er hinsvegar draumastaða Samfylkingarinnar. Að framlengja ESB-viðræður svo lítið beri á og sigla inn í kosningar með nýja stjórnarskrá með auðlindaákvæði og ýmsu öðru smálegu tilbúnu til notkunar.
Sjálfstæðisflokkurinn getur varla komið í veg fyrir samþykkt stjórnarskrár með endalausu málþófi. Ríkisstjórnin getur heldur ekki troðið málinu í gegn. Allir slíkir tilburðir yrðu notaðir sem átylla fyrir málþóf.
Jóhanna vonar að afgerandi úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu um skrána veiti þann pólitíska slagkraft sem þarf til að þröngva málinu yfir Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfstæðismenn vona að áhuginn verði lítill eða í öllu falli kosningin tvísýn eða véfengjanleg.
Gallinn við þjóðaratkvæðagreiðsluna er að það er mjög ólíklegt að kjörsókn verði góð og spurningarnar eru ekki mjög nákvæmar eða nægilega afgerandi.
Sjálfstæðisflokkurinn mun því koma fram með sínar eigin tillögur að stjórnarskrá, eða breytingum á núverandi stjórnarskrá. Þær tillögur verða ekki í miklum árekstrum við atriðin sem spurt er um í atkvæðagreiðslunni. Síðan mun flokkurinn leggja kapp á að ná samningum áður en veturinn er úti. Svo hann lendi ekki í því að ryðja fylgi til óvinanna. Jóhanna mun eflaust vilja ryðja núverandi stjórnarskrá í gegn en hótun um málþóf og áframhaldandi rugl mun eflaust leiða til þess að reynt verður að ná sáttum þegar líður á næsta haust og vetur.
Þetta veit refurinn ÓRG mætavel. Enda áreiðanlega löngu búinn að sjá út að Alþingi muni leita málamiðlana í stjórnarskrármálinu. Þá kemur sér ekki illa að hafa verið forspár og hvetjandi með þeim hætti sem hann er nú. Því ekkert held ég honum þyki skemmtilegra en að ráða „óvinum“ sínum heilt og horfa svo á þá fylgja ráðum hans nauðugir viljugir.
Það hlýtur svo að veita ÓRG alveg sérstaka ánægju að sjá þá sem reyndu að kollvarpa honum og hafa niðrað hann gegndarlaust vikum saman froðufella af reiði, haldandi að forsetinn sé að hóta einhverju raunverulegu – sem þeir vita bara ekki alveg hvað er. En er ekki neitt.
Hvað okkur almenning snertir þá er grundvallaratriði að við þjöppum okkur á bak við stjórnarskrá Stjórnlagaráðs og veitum henni Jóhönnu slagkraft í þennan svanasöng sinn. Skráin er ekki fullkomin. Og ákvæði um samband ríkis og kirkju mun sundra einhverjum (Sjálfstæðismönnum til mikillar gleði) en á endanum er þetta metnaðarfyllsta og besta lýsing á því sem samfélagið okkar hefur upp á að bjóða svona hálfskriðin upp úr forinni.
Því betur sem við mætum – því minna moð verður skráin sem liggur til grundvallar næstu Alþingiskosningum.
Það er komið meira en nóg af moði.
3 ummæli:
Í þetta sinn er ég algjörlega ósammála maurildi.
Tillaga stjórnlagaráðs er:
1) Fingurbrjótur þversagna.
Tillaga stjórnlagaráðs yrði óskýrasta stjórnarskrá í heimi því í stað þess að til grundvallar liggi heildstæð skýr hugmynd um stjórnarformið ægir saman ("svissnesku) beinu lýðræði, ("sænsku") þingræði og ("bandarísku") forsetaræði.
2) Tekur ekkert tillit til réttaráhrifa.
Tillaga stjórnlagaráðs er skrifuð eins og stjórnarskrár séu bara stefnulýsingar en ekki plagg sem hefur gríðarleg réttaráhrif á alla dómaframkvæmd landsins. Við þekkjum réttaróvissu af öngþveitinu sem þversagnakenndir gengislánadómar hafa skapað en það er aðeins smámunir af því sem leitt getur af samþykkt tillögu stjórnlagaráðs.
3) Engar rannsóknir.
Tillaga stjórnlagaráðs er grunn og sammælið er líka grunnt með mörgum fyrirvörum sem lesa má um í skjölum ráðsins sjálfs. Mörg mál eru einfaldlega óleyst en fékk fólkið 2 mánuði. Tillagan felur ekki í sér eina einustu nýja snjalla lausn á þekktum vandamálum. Þvert á móti er hún endurvinnsla og samsuða. Ferlið er svo illa hannað af hálfu stjórnvalda að útkoman gat ekki orðið önnur því alstaðar í heiminum annars staðar hefðu verið sett af stað rannsóknaverkefni og rannsakendur til að greina áhrif og finna bestu lausnir.
Til hvers yrði byggingin Harpa ef:
1) Enginn byggingarstjóri og hönnuðir hefðu tryggt að pípulagnir, loftræsing og raflagnir gengju allar upp í eigin hlutverki en flæktust ekki.
2) Enginn byggingarstjóri og hönnuðir tengt húsið við borgina með breyttum götum, torgi og tengingu við höfnina?
3) Enginn byggingarstjóri og hönnuðir hefðu metið ytri áhrif umhverfisins t.d. tryggt að húsið stæði nógu hátt vegna fyrirséðrar hækkunar sjávarmáls eins og gert var.
Allt sem Ólafur Ragnar sagði um stjórnarskrármálið í gær var almennt rétt og skynsamlegt og sambærileg sjónarmið hafa alltaf hvarvetna verið talin skynsamleg.
Það sem vantar alveg er að forsætisráðherra svari efnislega, tali um efni málsins og útskýri hvernig þetta efni þessarar stjórnarskrár bæti það sem fyrir er.
1) Hví er það slæmt eða óskýrt að nota það sem virkar úr öðrum kerfum? Markmiðið er dreifing valds og að girða fyrir valdníðslu.
2) Það er alveg rétt að breyting á stjórnarskrá mun hafa gríðarleg áhrif á mikið af núgildandi lögum og einsýnt að verði hún sammþykkt þurfi margt að endurskoða. En það er einmitt það sem við viljum. Það verða umbrotatímar í lögfræðilegu samhengi í einhver ár á eftir, en það gerist alltaf við meiriháttar uppfærslur og er bara hlutur sem við dílum við.
3) Stjórnarskrá er ekki ætluð að vera lausn á einu né neinu vandamáli. Hún myndar ramma utan um stjórnskipan.
Það sem vantar í þetta komment hjá þér er að þú talir efnislega um þessar tillögur og útskýrir hvar og hvernig alhæfingar þínar eiga við.
1) Elementary my dear Watson - það er ekki hægt að blanda saman gjörólíkum stjórnarformum.
2) Ekkert dæmi til í heiminum um svona tilraunastarfsemi um t.d. stjórnarskrárvarin réttindi. Sjálft stjórnlagaráðið er ósammála þér Einar Þór því það hefur kallað eftir "álagsprófi" eins og þau nefna það en Alþingi þegir. Réttaróvissa er ekki léttvægt fyrirbæri og ekki finnst fólkinu sem veit ekki enn hvað það skuldar af gengistryggðum lánum það neitt gamanmál.
3) Stjórnarskrá sem heild er rammi um stjórnskipan en innnan þess ramma koma upp tiltekin vandamál sem nýr tími og breyttur heimur búa til. Dæmi er auðlindaákvæðið sem er afturför frá tillögu auðlindanefndar árið 2000. Annað dæmi er framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana sem er grunnt og haldlaust. Þriðja dæmi eru mannréttindaákvæðin alment. Fjórða dæmi allt um forsetaembættið. Fimmta dæmi kosningakerfi. Og þannig mætti lengi áfram telja.
Vissir þú að nú mun það viðurkennt opinberlega af Alþingi að greinargerð með tillögu stjórnlagaráðs sé ónothæf? Og að fengnir hafa verið lögfræðingar til að semja hana upp á nýtt og laga? Hvað lýðræðislega umboð hafa þeir?
Skrifa ummæli