1. júlí 2012

Forsetakosningin sem klauf vinstrið

Auðvitað er æskilegt að gefa þeim sem bundið höfðu vonir við tap ÓRG nokkurt svigrúm til að jafna sig. Það er eðlilegt að beiskjan sýni sig soldið í dag og næstu daga. Ég myndi samt ráðleggja kjörnum fulltrúum að reyna að hafa á sér meira taumhald en Björn Valur og Ólína hafa sýnt. Það að ætla að lesa spekingslega í öll þau varúðarmerki og gul spöld sem minnihluti kjósenda var að sýna bendir til ákveðins tornæmis þegar kemur að því að túlka skilaboð meirihluta kjósenda. Það fer stjórnmálamönnum ekki vel að dæma um samband forsetans og þjóðarinnar svona stuttu eftir að þessir sömu stjórnmálamenn þurftu að ferðast um neðanjarðargöng í lögreglufylgd til að verða ekki á vegi þessara sömu kjósenda.



Ætli það væri ekki best fyrir óvini ÓRG að slappa núna af og einbeita sér að raunverulega verkefninu. Sem er að koma í veg fyrir að kosningahjól sögunnar rúlli til baka í þá stöðu sem var. Eins og staðan er núna er Sjálfstæðisflokkurinn að fara að taka við stjórnartaumunum í þessu landi – m.a. vegna þess að vinstri öflin eru búin að vera að rífast innbyrðis og slást við róttæku öflin um forsetaembættið. Þegar menn þurfa að taka höndum saman kunna menn ekki við það – enda sundurlyndið búið að ná nýjum hæðum.

Mikið ofboðslega hlýtur að hafa verið fyndið að vera innmúraður Sjalli og fylgjast með þessum hjaðningavígum – út af smámunum.

Þetta forsetakjör er búið að vera hinn fullkomni forleikur að falli vinstri stjórnarinnar á Íslandi. Eftir næstu kosningar munu Sjallar geta sagt hræsnislaust: „Nú hafa kjósendur sýnt VG rauða spjaldið og Samfylkingu það gula – eða rauða. Fer eftir því hvort Sjallar þurfa á þeim að halda.“

Slakið á. Það er ekki eins og eitthvað rosalegt hafi gerst hérna. Þetta tuð og væl er eiginlega bara orðið vandræðalegt. Allt tal um einveldi og Mugabe er bara óupplýst rugl. Jú, vissulega mun ÓRG sitja lengur en nokkur annar íslenskur forseti hingað til. En það er allt innan skekkjumarka. Sveinn dó í embætti og Kristján fékk ógeð eftir 12 ár. Aðrir sátu í 16. Og nú ÓRG eitt til.

Það er búið að skipta fjórum sinnum um forseta í sögu lýðveldisins. Það er búið að skipta 24 sinnum um forsætisráðherra. Við skiptum sjaldnar um forseta en biskup.

Margir óvinir ÓRG og stuðningsmenn stjórnvalda halda að falli EFTA-dómur gegn Íslandi í Icesave muni það sanna málstað þeirra með einhverjum hætti og endurvekja traust.

Það er algjör óskhyggja.

Það er sama hvernig sá dómur fer það mun alltaf leiða í ljós fáránlegt flækjustig þessa máls. Það lúrir nefnilega ýmislegt undir yfirborði þess sem kemur stjórnvöldum alls ekki vel.

Sigur fyrir dómi mun endanlega jarða vinstri flokkana. Tap mun koma Sjöllum jafn vel. Þeir studdu síðasta samninginn.

Vinstri menn á landinu sitja í dag uppi með tapað spil.

Og næstum genetísk þrætuþörf kemur í veg fyrir að þeir sjái það.

Að öllum líkindum mun það leiða til þess að sömu öfl komast hér til valda og keyrðu landið í kaf.

Nema ... og hér liggur helsta vonin ... fram komi nýir kostir fyrir þann tíma.

Það er nefnilega ekki bara stjórnarfarið á Íslandi sem er ofurselt fjórflokknum – hugarfarið er það líka.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst gaman að lesa bloggið þitt (sérstaklega um skólamál) en ég verð aðeins að kvarta yfir nýja viðmótinu á þessu hjá þér. Það virðist ekki vera hægt að opna athugasemdir við færslur í nýjum tab. Þetta væri ekki til mikilla óþæginda nema fyrir það að þegar maður hefur lesið athugasemdirnar og ætlar til baka, þá lendir maður á byrjunarreit (nýjustu færslu) í stað þeirrar færslu sem maður var á. Ég vona að þú getir breytt þessu í gegnum notandastillingarnar. Auk þess væri gott ef færslurnar væru taggaðar eftir efni, þannig að maður gæti t.d. fengið upp einungis færslur sem fjalla um skólamál og menntun. Ég man ekki hvort þú varst með þann möguleika áður en þú breyttir um útlit. Annars bara takk fyrir áhugaverð skrif :)

Kári

Nafnlaus sagði...

Nei, fjandinn sjálfur. Var að fatta að athugasemdirnar koma á sömu síðu. My bad... Hin ábendingin varðandi efnisorðin stendur samt ;)

Kári

Nafnlaus sagði...

Ertu að máta þig í spunakarlabuxur?

Ég botna ekkert í því hvað þú meinar:
Ertu ánægður með kosningu ÓRG?
Er það vegna þess að hann er innan "skekkjumarka"?
Af hverju mun sigur fyrir dómi endanlega jarða vinstri menn?
Af hverju mun tap koma Sjöllum vel?
Hvað áttu við með því að hugarfar Íslendinga sé ofurselt fjórflokknum?
Ertu véfréttin í Delfí?

Anna sagði...

Ég skil ekki fyrirsögnina í ljósi efnis pistilsins. Hvernig klauf þetta forsetakjör vinstrið? Ekkert í pistlinum styður það. Bara að vinstrið sé útum allt og upp um alla veggi - sem það hefur verið lengi. Sameinaðist að vísu um það að kjósa ekki ÓRG. En hvernig klauf framboðið vinstrið??