1. júlí 2012

Vivat Regina!



Fólk ógildir kjörseðlana sína með ýmsum hætti – eins og mér varð allljóst þar sem ég sat ásamt hópi annarra og flokkaði atkvæði Reykvíkinga í gærkvöldi. Flestir ógildu seðlarnir voru yfirlýsing um að ekkert væri í framboði sem kjósandi væri. Einn ógildur seðill súmmeraði það upp glæsilega. Þar stóð „Nei, takk“ við nafn Andreu. „Nei, takk“ við Ara. „Nei, nei“ við Hannes, „Nei, nei, nei“ við Herdísi. „Nei, nei, nei, nei“ við Óla og „Nei“ við Þóru.

Aðrir misstu sig í ákafa við sinn frambjóðanda. Einn strikaði út alla nema sinn ástkæra Hannes. Annar gat ekki stillt sig um bæta við „...að sjálfsögðu!“ við x-ið til Óla.

Einn seðill gladdi mitt litla hjarta meira en nokkur annar. Þar stóð (á hlið) R við Andreu, Ó við Ara, Þ við Hannes, T við Herdísi, S við Óla og Á við Þóru. Snúið rétt: Á S T Þ Ó R.

Loks verður að nefna flottasta seðilinn sem á stóð: „Margrét Þórhildur, vivat regina!“

Engin ummæli: