12. júlí 2012

Það er rangt að reka Snorra



Að reka Snorra Óskarsson fyrir að boða trú sína á netinu er rangt. Huglaust og rangt. Í því felst gunguskapur sem er skaðlegur ef hann fær að grassera – skref afturábak.

Sú var tíð sem kennarar nutu mjög takmarkaðs frelsis til tjáningar. Mesti stílsnillingur sem þjóðin hefur alið fékk ekki að kenna íslensku í menntaskóla vegna þess að hann var eindreginn kommúnisti, spíritisti og í raun hálfgerður rugludallur. Áratugum seinna eru bækur hans, þar sem hann freyðir út guðspjallinu, á pensúminu hjá öllum sem þykjast kenna íslensku sómasamlega.

Snorri Óskarsson tilheyrir trúfélagi sem er á allan hátt löglegt á Íslandi. Þetta er ekki hatursspúandi hryðjuverkasella sem fer um með eldi og brennisteini. Þetta er íhaldssöm, kristin kirkja. Sem ekki hefur mótað guðfræði sína í takt við kröfur nútímans um jafnrétti og jákvæð viðhorf til samkynhneigðar og kynskipta.

Snorri er álitinn háskalegur ungu fólki og sekur um að halda á lofti viðhorfum sem sveitarfélagið sem hann vinnur hjá getur ekki þolað.

Með fullri virðingu, sveitarfélögum er ekki treystandi til að endurskapa almennt velsæmi. Það á aldrei að láta frelsi ráðast af hreinum meirihlutavilja eða skoðunum þeirra sem gæta hagsmuna í litlum samfélögum.



Við sjáum svo skýrt dæmi um það hve sveitarfélagið er lélegur vettvangur til að taka á prinsipp-málum í Keflavík þessa dagana. Þar eru gæðingar búnir að sólunda fé og bljóðsjúga spena. Þegar tilraunum til að klóra yfir alltsaman í bæjarblaðinu er andmælt er skellt í lás og umræða stöðvuð. Til að særa nú örugglega engan. Starfandi ritstjóri bæjarblaðsins sagði:

Má vel vera að einhverjir þurfi að fá á baukinn. Það er bara ekki bæjarblaðsins að gefa á baukinn.

Halló!

Það er undarlegt samfélag sem lítur á fjölmiðlun sem hópefli. Það er undarleg tegund af gunguskap að stöðva umræður þegar þær verða óþægilegar. Það er ódýr brella að skýla sér bak við það að allt sem er óþægilegt og erfitt sé þar með orðið að ærumeiðingum eða hatursáróðri.

Ég ræddi mál Snorra aðeins í erindi sem ég hélt fyrir reykvíska kennara í vor. Þar stillti ég upp allskyns erfiðum tilfellum. Tilfelli Snorra er nefnilega aðeins toppur á ógnarstórum ísjaka. Allir vita hve unglingsstelpur eiga oft erfitt með líkamsvitund sína og sjálfsánægju. Væri þeim óhollt að hafa kennara sem keppir í fitness og viðheldur ranghugmyndum þeirra um eigin líkama með nærveru sinni einni? En ef kennarinn boðar tóma þvælu á bloggsíðu sinni um hreysti og fegurð? Má náttúrufræðikennari vera hómópati? Má kennari vera andvígur bólusetningum og tala opinberlega gegn flúorskolun skólabarna? Má Anarkisti sem lætur handtaka sig við fjöldamótmæli og talar fyrir afnámi skólaskyldu kenna? Má kennari boða lögleiðingu fíkniefna?

Í öllum fyrirlestrinum fékk ég sterkust viðbrögð við þessu síðarnefnda. Ég heyrði skýrt og greinilegt „nei“ þegar ég spurði hvort kennari mætti berjast fyrir lögleiðingu fíkniefna.

Ég heyrði síðan frá fyrrum kennara og skólastjóra sem ég met mikils. Hans skoðun var sú að ekki aðeins mættu kennarar slíkt heldur bæri þeim eiginlega skylda til þess. Núverandi stríðsstefna í fíkniefnamálum væri mannskemmandi og handónýt. Taka ætti upp mun mannúðlegri stefnu.

Mætti reka kennara sem tjáði sig þannig úr starfi vegna þess að fólki mislíkar málflutningurinn og telur hann hvetja til fíkniefnaneyslu?

Auðvitað ekki.



Skoðun Snorra er sú að til sé Guð sem setti menn og konur á jörðina til að fjölga sér og mynda fjölskyldur. Hver manneskja hafi síðan val um að hlýða boði Guðs þrátt fyrir margvíslegar freistingar og villur sem á vegi hennar verða. Aðeins þeir hlýðnu muni að endingu fá bónusvinning, eilíft líf og frelsun frá dauða – sem annars eru óumflýjanleg örlög manna.

Þetta má hann ekki segja opinberlega vegna þess að það er „hatur“ að halda bónusvinningnum frá þeim sem trúa ekki því sama og Snorri.

Vonandi sjá flestir hvílík fásinna þetta er. Ég trúi eiginlega ekki öðru.

Eiga öll trúarbrögð, hversu rugluð sem þau eru, sem á annað borð lofa einhverjum gæðum að vera lagalega skuldbundin til að skilja engan útundan? Er reisn hins opinbera ekki meiri en sem nemur siðaboðum sæmilega strangs smábarnakennara?

Það halda fáir með Snorra. Þess vegna er núna fullt af fólki sem gleðst. Það er ábægt með að þessi maður missi vinnuna.

Við höldum nefnilega mun frekar með fólki en mannréttindum. Það er okkar stærsti galli. Við erum orðin eins og samfélagið var þegar því var stjórnað af óbilgjörnum dogmatistum – sem töldu sig hafa fundið endanlegan sannleika í hverju máli og þoldu engum það að hafa aðra skoðun.

Málfrelsi er ekki bara fyrir þá sem geta sannað að þeir hafi rétt fyrir sér. Málfrelsi umber menn eins og Snorra. Málfrelsi er ekki eitthvað sem maður kveikir og slekkur á eftir atvikum. Það þarf að vera stöðugt og viðvarandi til þess að menn njóti ávaxta þess. Að stöðva menn eins og Snorra af í að blogga er álíka gáfulegt og ef kaþólska kirkjan ákveði að umbera smokka – en aðeins svo lengi sem þeir væru ekki notaðir í sparigatið. Ef þú leyfir fólki á annað borð að verja sig gegn sjúkdómum og ótímabærum þungunum þá lýkur afskiptum þínum þar – þú veður ekki með reglustiku skilyrðinganna inn að rúmstokki til að fylgja málum eftir.



Ég er ansi hræddur um að málfrelsið sé ekki hátt skrifað á Íslandi vegna þess að við erum svo helvíti miklir molbúar að við vitum ekki hvað þurfti að hafa mikið fyrir því.

Brauð, bæjarblöð og leikar – og við erum sátt.

Og áður en einhver kemur með klisjuna: „Málfrelsi á ekki við um hatursáróður,“ þá bendi ég á að það er ekki svo ógnarlangt síðan guðlast þótti ekki heldur eðlileg nýting málfrelsis – og að við sem samfélag séum fyrst núna að horfast í augu við það að kerfið okkar hefur ekki einu sinni sannleikann sem vörn.

Hafi Snorri brotið lög á að kæra hann fyrir dómstól – ekki að láta máttlaus, siðferðileg fransbrauð í nærsamfélaginu kasta honum úr vinnunni.

Njótið þagnarinnar. En haldið ekki eitt augnablik að hún sé í alvöru.


Uppfært 13/7:

Skammastu þín, Akureyri! tekur á þeim rökum að bænum hafi verið heimilt að segja Snorra upp þótt hann hafi ekki brotið lög eða vegna þess að hann braut siðareglur eða vegna þess að það er gert börnum í skyldunámi til verndar.


8 ummæli:

Kristinn P. Birgisson sagði...

Vel skrifað og skorinort og rökrétt. Kristinn P. Birgisson

Margrét Rósa Sigurðardóttir sagði...

flottur pistill

Unknown sagði...

Það er munur á því þegar fólk hefur ákveðnar skoðanir og þegar fólk hefur rangt fyrir sér. Það er ekkert sem segir að sósíal-anarkisti eða auðvaldshyggjufasisti geti ekki verið góður og gagnlegur kennari. Fólk á skjön við viðtekin sannindi hefur oft gagnlega og afar vel rökum færða sýn á heiminn.

Fyrir slíku er þó ekki ætíð að fara. Lyfleysulækningar stangast t.a.m. á við allt sem við vitum um náttúruvísindi og trú á hana brýtur algerlega í bága við alla vísindalega aðferðafræði.

Einstaklingur sem aðhyllist slíkt er því lélegur náttúrufræðikennari.

Snorri telur að kynhneigð sé val og að rangt val sé dauðasynd. Hér er þetta ekki bara hans skoðun, heldur brýtur það í bága við raunveruleikann.

Hann hefur rétt á skoðunum sínum; ekki eigin staðreyndum.

AS sagði...

Tjáningarfrelsið er ekki takmarkalaust. Í fjölmörgum störfum undirgangast menn takmarkanir á því. T.d. væri það algerlega ósamrýmanlegt starfi dómara hafa opinberlega uppi ummæli sem bera vitni um lítilsvirðingu í garð samkynhneigðra eða hörundsdökkra. Það gæfi réttmætt tilefni til að efast um færni til að byggja dóma á málefnalegum sjónarmiðum.
Í samræmi við það heimila bæði stjórnarskrá og mannréttindasáttmálar skerðingu á tjáningarfrelsi, m.a. vegna réttinda annarra.
Við mat á ummælum Snorra, sem vissulega eru fleiri en þau einu sem virðast hafa verið kornið sem fyllti mælinn hjá foreldrum, hlýtur að skipta miklu máli að hér er skólaskylda. Af þeim ástæðum eiga sjálfsagt ekki við sömu sjónarmið um grunnskóla- og framhaldsskólakennara, sem og auðvitað vegna þroska nemendanna.
Það er ekki líðandi að skikka börn til að sitja kennslustundir hjá manni sem hefur ítrekað opinberlega lýst vanvirðingu sinni við hópa manna, og þar með nemenda. Vanvirðingu sem lýtur að þáttum sem þau fá ekki ráðið sjálf og er að því leyti sambærilegt og vanvirðing á grundvelli þjóðernis eða hörundslitar.

Unknown sagði...

Vissulega má gagnrýna margt sem Snorri heldur fram og menn mega alveg hafa aðrar skoðanir en hann.

Ég er algjörlega sammála pistlahöfundi um að ef að ummæli Snorra eru svona ámælisverð þá á að leysa það mál fyrir dómstólum, sem að mínu viti er eini aðilinn sem hefur vald til að dæma um tjáningarfrelsi einstaklings, en ekki hjá bæjarpólitíkusum sem hafa aðrar "réttari" skoðanir en Snorri.
Ef að vanvirðing hefur átt sér stað þá eru dómstólar fullfærir um að leysa úr þeim ágreiningi.

Hann hefur fullan rétt á að tilgreina það sem staðreind sem að hann trúir að sé staðreind samkvæmt Guðs orði. Síðan er það annarra að ákveða hvort þeir séu sammála honum eða ekki. Um það snúast skoðanaskipti.
Um það snýst tjáningarfrelsið að mínu mati.

Nafnlaus sagði...

Það er enginn að banna Snorra að blogga. Enginn sem ryðst inn í íbúð hans og fjarlægir tölvuna svo hann geti ekki komið sínum boðskap fram.

Hinsvegar telur skólinn og foreldrar barna sem í honum eru, Snorra ekki hæfan til að kenna vegna þess að hann hefur verið með fordóma og jafnvel hatursáróður gegn minnihlutahópi.

Get ég bloggað um að hvítir séu æðri þeldökkum og haldið starfi mínu hjá Útlendingastofu eða annari sambærilegri vinnu? Ætli ég yrði ekki fljótur að missa vinnuna.

Þetta mál hefur verið blásið upp.

Nafnlaus sagði...

Flottur pistill.
Það er lítið rætt um að samkynhneigð er ekki alltaf meðfædd. Það er til áunnin samkynhneigð sem kölluð er áfallatengd samkynhneigð og hægt að losna við í sérstakri meðferð.

vegfarandi sagði...

Síðasti nafnleysingi. Áfallatengd samkynhneigð er ekki til, það eru engar rannsóknir sem styðja þær hugmyndir.