12. júlí 2012

Pútin og Pussulætin

Í gær mættu nokkrir íslenskir „andófsmenn“ til mótmæla við rússneska sendiráðið. Miðað við myndbönd af atburðinum urðu einhverjar stympingar þegar mótmælendurnir tóku niður rússneska fánann og hengdu í stað hans upp lambhúshettu. Einn mótmælandi sást hróðugur skvetta vatni úr flösku á starfsmann sendiráðsins. Hver tilgangurinn var með því veit ég ekki.

Þótt mér finnist mjög kúl að nota lambhúshettuna sem tákn baráttunnar er ég tvístígandi þegar kemur að því að rífa niður þjóðfána og hæðast að honum. Bæði vegna þess að ég hef aldrei séð tilganginn í fánabrennum eða öðrum kjánalegum móðgunum en líka vegna þess að það að skjóta upp sínum fána til að tákna sigur yfir „hinum“ er í mínum huga eitt skýrasta merki ofhlaðinnar testósterón-reðurdýrkunnar. Kjánaleg kíngofðehill karlmennskuremba.


Mótmælin eru haldin vegna þess að austur í Rússlandi er kerfið að kreista í greip sinni þrjá lopalambhúshettupönkara sem ruddust inn í dómkirkju og ákölluðu himnamóðurina í pólitískum tilgangi. Hér er myndband af atburðinum:Að langflestu leyti má líkja þessum gjörningi við þennan hér:Ástæða þess að Pussulætin (Pussy Riots) fá að kenna rækilega á refsivendi þess opinberlega er val þeirra á mótmælavettvangi. Þótt þær hafi vissulega hrópað geistleg slagorð gegn Pútín þá er það nokkuð sem þær hafa gert ótal oft áður án þess að lenda í teljandi vandræðum fyrir (þó reyndar nokkrum). Það eru óspektirnar í kirkjunni sem kyntu það bál sem þær eru nú ristaðar yfir. 

Að mörgu leyti er skiljanlegt að Rússar séu nokkuð viðkvæmir fyrir einmitt þessari kirkju.


Kristskirkjan í Moskvu er hæsta rétttrúnaðarkirkja í heimi. Hún var byggð kristi til dýrðar eftir að Rússum hafði (með hans hjálp) tekist að hrinda sókn Napóleóns í upphafi 19. aldar. Hún var ríkulega búin eins og títt er um slíkar kirkjur. 

Þegar kommúnistar lögðu undir sig Rússland og stofnuðu Sovétríkið var þessi kirkja þeim sérstakur þyrnir í augum. Kirkjan var til marks um dýrkun á röngum hlutum. Um svipað leyti og Hitler var að fá byr undir sína vægni í Þýskalandi létu Stalín og hans kónar sprengja kirkjuna í tætlur:


Í hennar stað átti að koma stórkostleg höll til dýrðar sósíalsimanum. Sem aldrei var reist.

Þess í stað var efnið úr gömlu kirkjunni flutt burt. Eitthvað af marmaranum var notað í hinar stórkostlegu neðanjarðarlestarstöðvar Moskvuborgar en íbúar borgarinnar urðu að sætta sig við stórt, gapandi, vatnsfyllt sár í borgarlandsslaginu næstu árin og áratugina.

Hinn hagsýni Krútsjeff notaði tækifærið þegar hann komst til valda og sópaði af borðinu öllum hugmyndum um dýrðarhöll Sovétsins og lét byggja stökkbretti og búningsklefa við holuna og kallaði sundlaug. Næstu áratugina áttu Sovétmenn stærstu útisundlaug heims.Sovétríkin voru ekki fyrr búin að geispa golunni en rétttrúnaðarkirkjan fékk leyfi til að endurbyggja kirkjuna á sama stað. Verkið hófst og vannst – fyrst og fremst vegna þess að trúaður almenningur lét mikið fé af hendi rakna. Kirkjan var vígð árið 2000.


Sama ár, sem endanlegt fokkjúmerki til kommúnistanna, var kirkjan vettvangur þess að fjölskylda síðasta keisarans yfir Rússlandi, Nikulásar annars, var í heilu lagi tekin í dýrlingatölu.Við göngubrúna hjá kirkjunni eru ennfremur minnismerki um þá Nikulás og Alexander II en það var einmitt sá síðarnefndi sem lét reisa upprunalegu kirkjuna á sínum tíma.

Hér má kíkja inn í kirkjuna og skoða sig um og hlusta á kórinn.

Þetta er því engin venjuleg kirkja. Þetta er KIRKJAN í Rússlandi. Kirkja byggð fyrir fé frá meira en milljón venjulegum Rússum til að endurreisa upp úr ofbeldi og kúgun íhaldssamasta þjóðarviðhorfið. 

Og það var þar sem lopahettupönkararnir kusu að stíga á svið og guðlasta svolítið Pútín til háðungar.


Vandamál Pussuláta-meðlimanna sem nú sitja í hungurverkfalli í Moskvu er ekki svo mikið þetta:

Heldur þetta:
Sem einmitt er rammi úr myndbandi hljómsveitarinnar (en myndbandið gefur nú kannski ekki alveg rétta mynd af atburðunum ef það er borið saman við óklippta og óunna útgáfu, sjá hér).


Pussulætin voru ekki aðeins að hamast í Pútín, þau voru einnig að hæðast að því sem mörgum Rússum er heilagt. Við það skapaðist sterk krafa hjá valdamiklum öflum að stelpunum yrði refsað harkalega.

Sem síðan er raunin.

Meðferðin er hrottalega ógeðfelld. Þeim Maríu, Ekaterinu og Nadezhdu (sem orðin er andlit þeirra allra því hún er langfallegust) er haldið við ógeðfelldar aðstæður, án raunverulegra málsvarna og á forsendum sem standast ekki. Þær eru sakaðar um þetta:


Þegar allt sem þær gerðu var þetta:


Vissulega særðu þær fjölda fólks. Þær vanvirtu líka nokkuð sem mörgum er heilagt. Atferli þeirra er mörgum venjulegum Rússum óskiljanlega ógeðfellt. Þeir skilja ekki hvers vegna þær þurftu endilega að hæðast að því sem er lífsakkeri fjölda manna og kvenna sem jafnvel eiga ekkert annað í lífinu en trúna á Guð og kirkjuna sína. Allt í þeim tilgangi að koma pólitískum skilaboðum áleiðis, vekja athygli á sér.

Þær eru dónar. Tillitslausir dónar.

En staðan er einfaldlega sú að mæla má gæði samfélaga á því hvernig þau fara með tillitslausa dóna. Hvernig þau fara með þá sem storka og vekja viðbjóð hjá meðborgurunum.

Við myndband Pussulátanna á Jútúb hafa margir kommentað. Sumir biðja Pútín að stilla þessum stelpum bara upp við vegg og láta skjóta þær. Það eiga sumir erfiðara með að þola ófyrirleitnar stelpur en stráka. 

Þótt ég finni enga hvöt hjá mér til að tala niður Rússland, skvetta vatni á rússneska launamenn eða hæðast að rússneska fánanum – þá veit ég að það er borgaraleg skylda mín að styðja þá sem berjast fyrir lausn Pussulátanna. Mér þarf ekki að líka við allt sem þær eða stuðningsmenn þeirra gera, segja eða hugsa. Eina grundvallarforsendan er sú – að ég verð að deila þeirri sýn að það megi ekki fangelsa fólk eða refsa ótæpilega fyrir að móðga. Hnignun siðferðis og góðra gilda getur ekki, og má ekki, verða rök fyrir refsingum. 

Velsæmi sem varðveitir sig með kúgun – er ekkert velsæmi.

Engin ummæli: