6. júní 2012

Afsökunarbeiðni

Hér á þessari síðu, fyrir hartnær þremur árum, lýsti ég samskiptum mínum við mann að nafni Guðmundur Sigurfreyr. Mér höfðu þá m.a. borist verulega ógeðfelld netskilaboð sem lýstu sjúkum huga og heift – sem undirrituð voru af honum og send frá netfangi sem virtist vera hans. Ég kaus að standa ekki í kæru- eða klögumálum þótt mér hafi bæði blöskrað og ég orðið afar reiður því svæsnasta sem þar kom fram. Í stað þess skrifaði ég um álit mitt á honum og athöfnum hans.

Nú hef ég fengið mjög sterkar sannanir fyrir því að þarna hafi einhver helsjúkur vesalingur villt á sér heimildir og ítrekað falsað bréf í nafni G. Sigurfreys. Hvað þeim ómerkingi gekk til verða menn með meira ímyndunarafl en ég að svara. En þótt langt sé um liðið og að mestu leyti fennt yfir þetta þá vil ég hér koma afsökunarbeiðni á framfæri til Guðmundar Sigurfreys. Ég bið hann í mestu einlægni afsökunar á mínum þætti í því að draga persónu hans í svaðið. Hefði ég ekki skrifað um málið og haft á honum sterkar skoðanir hefði sú mannorðsaðför sem fólst í fölsununum aldrei orðið opinber. Auk þess viðhafði ég ýmis ummæli sem eru ekkert annað en óásættanleg í ljósi þess að þarna fór ekki maðurinn sjálfur – heldur einhver ógeðslegur, skjalafalsari og hugleysingi.

Nema hvað, það má vel vera að við G. Sigurfreyr deilum ekki skoðunum að öllu leyti eða smekkvísi – en enginn maður á skilið jafn illt umtal og ég vissulega tók þátt eftir að hafa móttekið hótanir og viðbjóð í nafni hans.

Fyrirgefðu, G. Sigurfreyr. Ég biðst afsökunar.

Ég hef tekið út þær færslur sem málið varðar enda annað ekki boðlegt.


3 ummæli:

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Skil þig vel ... fyrir nokkrum árum tók ákv. manneskja sig til og falsaði tölvupósta í mínu nafni og af mínu netfangi. Ég fékk m.a. bréf frá sjálfri mér sem ég kannaðist ekki við að hafa skrifað (enda skrifa ég sjálfri mér sjaldan). Löngu seinna hafði þessi manneskja samband við mig og baðst afsökunar (liður í sporavinnu viðkomandi). Þetta var óskemmtilegt.

Nafnlaus sagði...

Loksins þegar samsæriskenningar klikkunin hefði getað komið sér vel að þá kaupirðu þetta hrátt drengur. ;)

Magnað.

Atli Steinn sagði...

Stórmannleg afsökunarbeiðni hjá þér og glettilega skemmtileg aflestrar reyndar líka.